Mikilvægt er að bregðast við breytingum í samfélaginu, þegar kemur að lengri meðallíftíma og breyttu ávöxtunarumhverfi - ekki síst með lægra vaxtastigi - með því að breyta lífeyriskerfinu.
Í grein sem Valdimar Ármann skrifaði í Vísbendingu, sem kom út í vikunni, er fjallað um þessi mál, eins og greint var frá í gær.
Í greininni er meðal annars farið ítarlega yfir það, hvað þurfi að gera, til að ná betra jafnvægi í grunnforsendur lífeyriskerfisins, en heildareignir íslenskra lífeyrissjóða nema nú um 5 þúsund milljörðum króna
„Mikilvægt er að byrja aðlögun sem fyrst að hækkun á viðmiðunaraldri fyrir töku eftirlauna og má sjá fyrir sér að gera þurfi það á mismunandi hátt fyrir mismunandi kynslóðir:
1. Hækka viðmiðunaraldur fyrir töku eftirlauna hjá nýjum sjóðsfélögum um t.d. 3-6 ár, í einu eða tveimur skrefum.
2. Hækka viðmiðunaaldurinn hjá núverandi inngreiðendum í skrefum – hraðast hjá yngri kynslóðum og hægar hjá eldri kynslóðum.
3. Engin breyting hjá þeim sem eru nokkrum árum frá töku eftirlauna t.d. hjá 60 ára og eldri.
Sveigjanleg starfslok hafa verið í umræðunni og eru sjálfsögð réttindi að fólk ákveði sjálft hvenær það fer á ellilífeyri. Það er ekki þjóðfélaginu til hagsbóta að senda heilsuhraust fólk á ellilífeyri en það getur verið mjög mismunandi eftir eðli starfa hversu heilsuhraustir einstaklingar eru á eldri árum. Vinnuframlag eldra fólks er mikilvægt og heilsa fólks hefur batnað á efri árum með breyttu starfsumhverfi, þannig að sumir myndu kjósa að vinna áfram eftir 67 ára aldurinn t.d. vegna félagsskapar og vilja hafa nóg fyrir stafni. En aðrir neyðast þó til að halda áfram að vinna af fjárhagslegum ástæðum. Sveigjanleg starfslok leyfa frestun á töku lífeyris að hluta eða öllu leyti gegn því að mánaðarlegur lífeyrir hækki þegar taka hans hefst. Þannig koma sveigjanleg starfslok ekki beint til móts við hækkandi lífaldur og áhrif þess á stöðu lífeyrissjóðanna,“ segir Valdimar meðal annars í grein sinni.
Hægt er að gerast áskrifandi Vísbendingu hér.