Fjölmiðlar sem eru í eigu félaga sem staðsett eru í ríkjum þar sem gagnsæi eignarhalds á fyrirtækjunum er ekki opinbert geta komið sér undan því að fjölmiðlanefnd sannreyni uppgefið eignarhald þeirra. Nefndin telur að Alþingi þurfi að taka sérstaklega afstöðu til þess hvort gera þurfi þær kröfur að fjölmiðlar fái ekki væntar stuðningsgreiðslur frá hinu opinbera nema hægt sé að sannreyna eignarhald félaga með gögnum auk þess sem hún telur brýnt að breyta lögum með þeim hætti að hún fái heimildir til að afla allra þeirra ganga sem til þarf til að sannreyna eignarhald á fjölmiðlum. „Það sama gildir um upplýsingar um yfirráð sem skapast með öðrum hætti en beinu eignarhaldi.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn fjölmiðlanefndar um frumvarp um stuðning við öflun og miðlun frétta. Frestur til að skila inn umsögnum um frumvarpið, sem hefur það meginmarkmið að veita um 400 milljónum króna úr opinberum sjóðum til einkarekinna fjölmiðla, rann út síðastliðinn föstudag.
Breytingin bitnar mest á smærri fjölmiðlum
Frumvarpið hefur átt margra ára aðdraganda. Það var kynnt í samráðsgátt í janúar 2019 og því var fyrst dreift á Alþingi 20. maí sama ár. Ekki náðist hins vegar að mæla fyrir því fyrr en 16. desember sama ár. Þá hafði verið gerð sú breyting frá fyrri útgáfum að vænt endurgreiðsluhlutfall til þeirra fjölmiðla sem uppfylla skilyrði fyrir endurgreiðslu var lækkað úr 25 í 18 prósent. Fjárhæð hámarksendurgreiðslu hefur þó ekki breyst og er ennþá 50 milljónir króna.
Þarf að skýra betur hvernig heildarfjárhæðinni verður skipt
Í frumvarpinu var einnig gert ráð fyrir sérstökum viðbótarstuðningi til fjölmiðla. Eftir samráðsferli í upphafi árs í fyrra voru gerðar þær breytingar á því að bæta honum við, en um var að ræða allt að 5,15 prósent af launum alls starfsfólks á ritstjórn sem fellur undir lægra skattþrep tekjuskattsstofna. Kostnaður við það var metinn um 170 milljónir króna og uppistaðan af þeirri greiðslu átti að rata til stærstu fjölmiðlafyrirtækjanna þriggja.
Í því frumvarpinu sem mælt var fyrir í desember hafði hlutfall sérstöku viðbótargreiðslunnar verið lækkað í 4,0 prósent. Ætla má að kostnaður við hana myndi því verða rúmlega 130 milljónir króna miðað við sömu forsendur og lágu fyrir í fyrri kostnaðaráætlun.
Fjölmiðlanefnd segir í umsögn sinni að ekki sé ljóst samkvæmt frumvarpinu hvort að endurgreiðsla kostnaðar gangi framar og að sérstakur stuðningur mæti afgangi ef upp kæmi sú staða að heildarfjárhæðin sem sett hefur verið í málaflokkinn á fjárlögum, alls 400 milljónir króna, dyggði ekki yfir báða flokka. Að mati fjölmiðlanefndar vantar því að skýra betur hvernig þessum allt að 400 milljónum króna verði skipti.