Neyðarstigi var lýst af almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra í nótt eftir að þrjú snjóflóð féllu á skömmum tíma á tólfta tímanum á norðanverðum Vestfjörðum. Snjóflóðin féllu á Flateyri og í Súgandafirði.
Um var að ræða stjór snjóflóð. Tvö þeirra féllu á Flateyri, annað úr Bæjargili sem fór að hluta yfir snjóflóðarvarnargarð og á hús þar sem stúlka á unglingsaldri grófst í flóðinu. Henni var bjargað og varð ekki fyrir teljandi meiðslum. Aðrir heimilismenn komust undan af sjálfsdáðum. Hitt snjóflóðið féll úr Skollahvilft, likt og hið mannskæða snjóflóð sem féll á Flateyri fyrir aldarfjórðungi síðan. Nú beindu snjóflóðagarðar flóðinu frá bæjarstæðinu.
Á vef RÚV segir að unglingsstúlkan hafi verið föst í snjóflóðinu í rúman hálftíma. Systkini hennar, fimm ára gömul stelpa og níu ára gamall drengur, komust út úr húsinu sem flóðið féll á ásamt móður sinni með því að klifra út um glugga.
Í stöðuskýrslu almannavarnardeildar kemur fram að síðarnefnda flóðið hafi fallið „alla leið ofan í höfnina þar sem bátar slitnuðu frá og nokkrir sukku. Þá féll enn eitt flóðið úr norðanverðum Súgandafirði niður á Norðureyri og fram í sjó. Við það myndaðist flóðbylgja sem skall á höfninni og fjörunni á Suðureyri þar sem bátar slitnuðu frá og sjór flaut um næstu götur. Tjón liggur ekki fyrir.“
Engrar manneskju er saknað af svæðunum þar sem flóðin féllu. Því stendur ekki yfir leit af fólki á Flateyri. Björgunarsveitafólk kannaði aðstæður á Suðureyri eftir að flóðbylgjan skall þar á og fór í það að rýma hús samkvæmt tilmælum frá Veðurstofu.
Varðskipið Þór sent á staðinn
Á mbl.is kemur fram að samhæfingarstöðin í Skógarhlíð hafi verið virkjuð klukkan 23:56 í gærkvöldi, skömmu eftir að flóðin féllu, en samhæfing aðgerða fer fram í þar. Aðgerðastjórn á Ísafirði var virkjuð klukkan 23.44.
Í fyrstu voru björgunarsveitir á Suðureyri og Flateyri kallaðar út og stuttu síðar voru allar sveitir við Ísafjarðardjúp kallaðar út. Um 30 björgunarmenn voru svo sendir með varðskipinu Þór frá Ísafirði til Flateyrar ásamt lækni og sjúkraflutningamanni. Einnig mannaði björgunarsveitafólk lokunarpósta víða, þar sem lokað var vegna snjóflóðahættu. Þá var áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar verið kölluð út og fór sömuleiðis vestur. Ger var ráð fyrir að tveir sjúkraflutningamenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins farið með þyrlunni.
Í stöðuskýrslu samhæfingarmiðstöðvar Almannavarna er einnig greint frá því að fjögur hús hafi verið rýmd á Suðureyri og íbúar í efstu húsum á Flateyri yfirgáfu sín heimili.
Aldarfjórðungur frá mannskæðum flóðum
Þann 26. október 1995 féll gríðarlegt snjófljóð á Flateyri með þeim afleiðingum að 20 manns létust. Í kjölfar þeirra hamfara voru reistir umfangsmiklir snjóflóðavarnargarðar fyrir ofan bæjarstæðið og stóðu þeir að mestu fyrir sínu í nótt. Það hefur einnig áður gerst, síðan að garðarnir voru reistir, að þeir hafi forðað stórslysi.
Skömmu áður saman ár, nánar tiltekið 16. janúar 1995, hafði annað snjóflóð fallið á Súðavík við vestanvert Ísafjarðardjúp. 14 manns létust í því flóði.
Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir í stöðuuppfærslu að hjörtu landsmanna slái eins og í einum manni þessa stundina. „Þau slá með Flateyringum og öllum þeim sem stóðu í ströngu í nótt. Bæði á Flateyri og Suðureyri.
Ég vil koma á framfæri ólýsanlegu þakklæti til allra þeirra sem komu að aðgerðum í nótt og sáu til þess að ekki fór verr. Á Flateyri búa hetjur og þar eigum við björgunarsveit sem engin lýsingarorð ná yfir. Þeirra afrek fæst seint fullþakkað.
Veður er enn vont og skilyrði erfið. Ég hef þó, í alla nótt, fengið að fylgjast með okkar frábæra fólk sem stendur vaktina og sér til þess að fyllsta öryggis sé gætt. Við erum í góðum höndum.
Þessir atburðir vekja upp sterkar tilfinningar. Það er skiljanlegt. Nú reynir á samtakamáttinn og samheldnina sem gerir okkur Vestfirðinga að því sem við erum. Sendum hlýja strauma. Það skiptir máli.“