Alphabet (Google) er nú virði rúmlega eitt þúsund milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 125 þúsund milljörðum króna.
Fyrirtækið er hið fjórða í sögu hlutabréfamarkaða í Bandaríkjunum sem nær þessum tímamótum í markaðsvirði.
Hin fyrirtækin eru Apple - sem er 1,4 þúsund milljarða Bandaríkjadala virði í dag -, Microsoft - með 1,3 þúsund milljarða Bandaríkjadala -, og síðan Amazon, en verðmiðinn á því fyrirtæki í dag er þó aðeins undir þúsund milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 940 milljörðum.
Breaking: Google’s parent Alphabet has reached a $1 trillion valuation.
— Jon Erlichman (@JonErlichman) January 16, 2020
It joins Apple, Microsoft & Amazon on a list of companies to reach that milestone in the past year and a half.
Samanlagt virði þessara fyrirtæki nemur því um 4.640 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 580 þúsund milljörðum króna.
Virði þessara fjögurra fyrirtækja hefur margfaldast á undanförnum fimm árum. Sé horft til síðustu tólf mánaða, hefur virðið hækkað hratt hjá Alphabet, Microsoft og Apple, eða um að meðaltali 65 prósent. Amazon náði þúsund milljarða Bandaríkjadala markinu fyrst árið 2018, en Microsoft á síðari hluta síðasta árs.
Þessi fyrirtæki eru með digra sjóði, svo ekki sé meira sagt. Þannig má sem dæmi nefna, að samanlagt laust fé frá rekstri hjá Apple og Microsoft nemur nú um 400 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 50 þúsund milljörðum króna.
Fyrir þá upphæð er hægt að staðgreiða allt húsnæði á Íslandi sex sinnum, sé mið tekið af fasteignamati 2019.