Seðlabanki Íslands hefur haft samband við Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur, sem kærði ráðningu í nýja upplýsingafulltrúastöðu innan bankans til kærunefndar jafnréttismála. Hún sótti um stöðuna en fékk ekki. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum var haft samband við Gunnhildi Örnu eftir að niðurstaða kærunefndarinnar, sem sagði að Seðlabankinn hefði brotið lög með því að sniðganga mun hæfari konu, Gunnhildi Örnu, við að skipa minna hæfari karl í starfið. Ekki kemur fram í svari Seðlabankans hvort að hann hafi leitað sátta eða ætli að semja um greiðslu skaðabóta.
Kjarninn greindi frá því í fréttaskýringu á miðvikudag að Seðlabankinn ætli að una niðurstöðunni. Í aðdraganda birtingar hennar var fyrirspurn beint til bankans og hann spurður hvort hann ætlaði að grípa til einhverra breytinga á verklagi sínu við ráðningar í störf í ljósi þess að þetta var í þriðja sinn frá árinu 2012 sem að Seðlabanki Íslands gerist brotlegur við jafnréttislög. Þá barst ekki beint svar við þeirri spurningu heldur sagðist bankinn ætla að fara „yfir málið með það fyrir augum að tryggja að farið verði að þeim viðmiðum sem um þetta gilda. Annað er ekki hægt að segja að svo stöddu.“
Í gær barst nýtt svar við fyrirspurninni. Í því sagðist bankinn að verkferlar í þessum efnum hafa verið styrktir í kjölfar niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála.
Mælanlegar hæfniskröfur settar fram
Um er að ræða starf við nýsköpun í upplýsinga- og kynningarstarfi bankans sem auglýst var lausn umsóknar í apríl í fyrra.
Þær hæfniskröfur sem tilteknar voru í auglýsingunni að leitað væri eftir voru eftirfarandi: Háskólamenntun sem nýtist í starfi; reynsla af kynningarstarfi og fjölmiðlun; góðir samskiptahæfileikar; góð kunnátta og ritfærni í íslensku og ensku; góð þekking á efnahags- og peningamálum og fjármálamörkuðum er kostur; drifkraftur, frumkvæði og geta til að vinna faglega og sjálfstætt. Alls sóttu 51 um starfið. Tveir drógu síðar umsókn sína til baka.
Í júní 2019 var greint frá því Stefán Rafn Sigurbjörnsson, þá fréttamaður hjá Sýn, hefði verið ráðinn í starfið.
Gunnhildur Arna krafðist rökstuðnings og ýmissa gagna í kjölfarið og kærði loks ráðningarferlið til kærunefndar jafnréttismála.
Hæfari á öllum mælanlegum sviðum
Hún komst að niðurstöðu 19. desember síðastliðinn en birti hana ekki fyrr en í byrjun liðinnar viku. Að mati kærunefndarinnar stóð Gunnhildur Arna framar Stefáni Rafni í menntun og reynslu af kynningarstarfi og fjölmiðlum. Hún taldi Seðlabankann ekki hafa tekist að sýna fram á að Stefán Rafn stæði henni framar varðandi tungumálakunnáttu né þekkingu á efnahags- og peningamálum og fjármálamörkuðum. „Jafnframt væri að mati kærunefndarinnar nærtækast að álykta sem svo að kærandi hafi staðið karlinum framar varðandi þekkingu á efnahags- og peningamálum og fjármálamörkuðum í ljósi MBA-menntunar hennar, enda hefur ekki verið sýnt fram á nokkuð um þekkingu eða reynslu karlsins að þessu leyti sem gæti gert það að verkum að hann yrði metinn skör hærra en kærandi.“
Að endingu tiltók kærunefndin í niðurstöðu sinni að Gunnhildi Örnu hafi ekki verið gefinn kostur á að þreyta verkefni sem Stefáni Rafni og tveimur öðrum umsækjendum var falið að þreyta, en góð úrlausn hans á því var notuð til að rökstyðja ráðninguna. „Er því ekki unnt að draga þá ályktun að heildstæður samanburður hafi í raun farið fram af hálfu kærða á kæranda og þeim karli sem starfið hlaut, enda þótt hlutlægir þættir hafi bent til þess að hún stæði karlinum framar.“
Það var því niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að Seðlabankinn hefði ekki getað sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hefði legið til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starf upplýsingafulltrúa á sviði alþjóðasamskipta og skrifstofu seðlabankastjóra. Með því hefði Seðlabankinn brotið gegn jafnréttislögum.
Vonar að bankinn fari að landslögum
Gunnhildur Arna sagði í stöðuuppfærslu sem hún birti á Facebook í vikunni að hún hefði kosið annars konar athygli en að hún hafi farið þessa leið, að kæra ferlið, í þeirri von að úrskurðurinn breyti starfi bankans og að faglegt ráðningarferli verið tekið upp innan hans. „Ég vona einnig að bankanum vegni betur í ákvörðunum sínum undir nýrri yfirstjórn og fari að landslögum. Ég vona að á komandi tímum verði fólk metið að verðleikum.“
Þetta er í þriðja sinn frá árinu 2012 sem Seðlabanki Íslands gerist brotlegur við jafnréttislög. Öll brotin áttu sér stað áður en að Ásgeir Jónsson, sem tók við embætti seðlabankastjóra af Má Guðmundssyni í ágúst 2019, tók við starfinu.
Eftir sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins um liðin áramót þá starfa nú þrír karlar á upplýsingasviði bankans, Stefán Jóhann Stefánsson, sem er titlaður ritstjóri, Sigurður Valgeirsson, sem var upplýsingafulltrúi Fjármálaeftirlitsins, og Stefán Rafn.