Telja stórframkvæmdir ekki rúmast innan þjóðgarða

Nýjar virkjanir falla illa eða alls ekki að markmiðum hálendisþjóðgarðs. Stórframkvæmdir þjóna ekki verndarmarkmiðum, yrðu „stórslys“ og myndu ganga að þjóðgarðshugtakinu dauðu.

Skrokkölduvirkjun er fyrirhuguð á Sprengisandsleið milli Hofsjökuls og Vatnajökuls. Það svæði er innan marka fyrirhugaðs hálendisþjóðgarðs.
Skrokkölduvirkjun er fyrirhuguð á Sprengisandsleið milli Hofsjökuls og Vatnajökuls. Það svæði er innan marka fyrirhugaðs hálendisþjóðgarðs.
Auglýsing

Hálendisþjóðgarður yrði mikið framfaraskref fyrir land og þjóð. Ekki er hins vegar sama hvernig slíkur garður er skipulagður eða hvernig honum er stjórnað. „Nýjar stórframkvæmdir rúmast ekki innan þjóðgarða enda þjóna þær ekki verndarmarkmiðum.“ 

Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn Landverndar um drög að frumvarpi umhverfis- og auðlindaráðherra um hálendisþjóðgarð. Yfir 20 umsagnir hafa nú verið birtar í samráðsgátt stjórnvalda. 

Stefnt er að því að leggja frumvarpið fram í febrúar á sama tíma og þingsályktunartillaga um vernd og nýtingu landsvæða, svokölluð rammaáætlun, verður lögð fram. Tillagan er óbreytt frá því hún var fyrst lögð fram árið 2016 og samkvæmt henni er t.d. Skrokkölduvirkjun í nýtingarflokki, virkjun sem Landsvirkjun hefur áhuga á að reisa og yrði innan marka hálendisþjóðgarðs. Þetta er meðal þess sem helst gagnrýnt er í umsögnum um frumvarpsdrögin.

Auglýsing

„Nauðsynlegt er að fylgja alþjóðlegum viðmiðum um þjóðgarða þar sem vernd náttúru- og menningarminja, aðgengi almennings og hefðbundin sjálfbær nýting er í fyrirrúmi,“ bendir Landvernd á. Það er von samtakanna að „hægt verði að stofna þjóðgarð sem stendur undir nafni á hálendi Íslands á næsta ári þannig að verðmætunum sem í honum felast verði borgið okkur öllum og framtíðarkynslóðum til heilla“.

Snorri Baldursson, líffræðingur og fyrrverandi formaður Landverndar, segir í sinni umsögn um frumvarpið að það að opna á möguleika á nýjar virkjanir inni í þjóðgarði gangi ekki upp. „Ágengar stórframkvæmdir geta ekki og mega ekki fara saman við skilgreiningu á þjóðgarði.“

Hann segir að það yrði „stórslys“ í sínum huga ef ráðist yrði í virkjanir í náttúru þjóðgarðs. „Slíkt inngrip[...] mundi ganga af þjóðgarðshugtakinu dauðu og kasta skugga á og niðurlægja aðra þjóðgarða landsins sem erfitt væri að sjá fyrir afleiðingar af. Hvað vilja menn þá fara að gera í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli eða Vatnajökulsþjóðgarði sem er vottaður Heimsminjastaður?“

Ungir umhverfissinnar segjast í sinni umsögn telja mikilvægt að til að halda í verndun þeirra virkjanakosta sem rammaáætlun hefur sett í verndarflokk sé mikilvægt að „hrófla ekki við því lýðræðislega verkfæri sem rammaáætlun er“. Benda þeir á að  fyrirhugaðar virkjanir verði innan þjóðgarðsmarka þegar gert verður umhverfismat og telja þeir að það eiga að vega þungt. „Við óskum eftir því að betur sé skilgreint hvað það merkir að tekið skuli til hliðsjónar hvort um raskað svæði sé að ræða.“

Ferðamálastofa fagnar í sinni umsögn áformaðri stofnun hálendisþjóðgarðs og bendir á að kannanir sýni að íslensk náttúra sé helsta ástæða þess að ferðamenn velji að koma til Íslands.

Í umsögn Umhverfisstofnunar er bent á að samkvæmt lögum um náttúruvernd eru allar athafnir og framkvæmdir sem hafa varanleg áhrif á náttúru svæðisins bannaðar í þjóðgörðum nema að þær séu nauðsynlegar til að markmið friðlýsingar náist. Gera megi ráð fyrir því að virkjanir í nýtingarflokki rammaáætlunar sem heimilar verða innan garðsins hafi varanleg áhrif. Stofnunin bendir hins vegar á að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna hefur ekki farið fram og því sé ekki unnt að taka afstöðu til þess á þessu stigi hvert umfang röskunar verður.

Eyrarrósardalur á miðhálendi Íslands. Mynd: Ingibjörg Eiríksdóttir

Ferðafélagið Útivist fjallar einnig um nýjar virkjanir innan þjóðgarðs og segir í umsögn sinni að deila megi um hvort slíkt sé eðlilegt. „Mannvirki á borð við virkjanir fellur illa að markmiðum þjóðgarðsins. Hér er því slegið af markmiðum um verndun náttúru til að koma á móts við þau sjónarmið að þörf sé á að nýta þá möguleika sem fyrir hendi eru til orkuöflunar á hálendinu og rammaáætlun um virkjanakosti býður upp á.“  

Í umsögninni kemur fram að í frumvarpinu séu tilteknar takmarkanir á framkvæmdum til mótvægis, annars vegar að haft sé til hliðsjónar við mat á virkjanakostum í biðflokki að um er að ræða virkjanakost innan þjóðgarðs. Hins vegar að litið sé til þess hvort um raskað svæði sé að ræða. „Mjög mikilvægt er að þessi ákvæði til mótvægis séu til staðar í lögunum og þau séu virt.“

Leggur til þrjár leiðir

Stjórn Landverndar telur að ekki skuli heimila stórframkvæmdir eins og orkuvinnslu innan þjóðgarðs á hálendi Íslands, enda yrði það ekki í samræmi við alþjóðleg viðmið (skilgreiningu IUCN) á þjóðgörðum og samþykkta ályktun Alþjóða náttúruverndarsamtakanna (IUCN) eða íslensk náttúruverndarlög.

Líffræðingurinn Snorri Baldursson, fyrrverandi formaður samtakanna, leggur í umsögn sinni til þrjár leiðir til þess að leysa úr mögulegum árekstrum milli rammaáætlunar og hálendisþjóðgarðs. Bestu lausnina segir hann vera að Alþingi taki af skarið og falli frá öllum frekari virkjunum á hálendinu, þar með talið Skrokköldu en „haldi ótrauð áfram vinnu við alvöru hálendisþjóðgarð“.

Annar möguleiki væri að stofna þjóðgarðinn í áföngum. „[Fyrst verði innan hans aðeins þau svæði sem örugglega eru og verða laus við virkjun, en síðan bætt við þjóðgarðinn eftir því sem Rammaáætlun vindur fram. Möguleg virkjanasvæði, skv. rammaáætlun mætti þá vernda sem verndarsvæði með sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda eða álíka,“ stingur Snorri upp á.

Þriðja tillaga hans er sú að allt hálendið, fyrir utan núverandi verndarsvæði, verði í fyrsta áfanga friðlýst sem verndarsvæði með sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda.

Landvernd bendir enn fremur á að vandinn við núverandi virkjanir innan þjóðgarðsins sé ekki auðleystur. Samtökin telja að besta leiðin sé að skilgreina þröng mörk utan um mannvirki og lón virkjana og gera þau að jaðarsvæðum þjóðgarðsins sem lúta stjórn hans.

Frestur til að skila inn umsögnum vegna draga að frumvarpi ti laga um hálendisþjóðgarð er til og með 20. janúar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent