Sjávarútvegsfyrirtækin Vísir og Þorbjörn í Grindavík hafa ákveðið að formlega hætta viðræðum um áður fyrirhuhugaða sameiningu.
Viðræðurnar hafa staðið yfir frá því í september í fyrra og til stóð að sameinað fyrirtæki myndi taka til starfa um síðustu áramót. Nú er ljóst að af því verður ekki.
Í tilkynningu frá fyrirtækjunum kemur fram að eftir yfirferð á tillögum, sem vinnuhópar skiluðu af sér í sameiningarviðræðunum, sé niðurstaðan sú að „fara ekki með sameiningarmál lengra að sinni, en halda þess í stað góðu samstarfi Þorbjarnar hf. og Vísis hf. áfram og nýta niðurstöðu vinnuhópanna til að styrkja það samstarf enn frekar.“
Vísir og Þorbjörn eru á meðal stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins. Samtals halda þau á 8,4 prósent af öllum úthlutuðum fiskveiðikvóta, eða alls um 44 þúsund tonn. Yfir 600 manns starfa hjá fyrirtækjunum tveimur.
Vísir og Þorbjörn hafa í gegnum árin unnið talsvert saman, enda bæði með meginstarfsemi sína í Grindavík. Þau eiga meðal annars félög saman á borð við Haustak, Codland og sölufyrirtæki á Grikklandi.