Vetrarfundur Sósíalistaflokks Íslands samþykkti í dag að hefja undirbúning fyrir framboð í Alþingiskosningum sem að óbreyttu munu fara fram á næsta ári.
Samkvæmt könnun sem Zenter rannsóknir unnu fyrir Fréttablaðið, og birt var í blaði dagsins, mælist flokkurinn með 5,1 prósent fylgi sem gæti skilað honum þremur þingmönnum. Hann mældist einnig með 5,2 prósent 5,2 prósent fylgi í desemberkönnun MMR en það fylgi dróst saman á ný í janúar samkvæmt mælingum þess fyrirtækis.
Sósíalistaflokkurinn var stofnaður 1.maí 2017. Hvatamaður að stofnun hans var Gunnar Smári Egilsson, blaðamaður og fyrrum ritstjóri. Samkvæmt honum á flokkurinn á að vera; málsvari launafólks og allra þeirra sem búa við skort, ósýnileika og valdaleysi. Flokkurinn bauð í fyrsta sinn fram í sveitarstjórnarkosningunum 2018. Þar náði flokkurinn 6,4 prósent atkvæða í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík og Sanna Magdalena Mörtudóttir tók í kjölfarið sæti í borgarstjórn fyrir hönd hans.
Tekjur Sósíalistaflokks Íslands voru 6,2 milljónir króna á árinu 2018 samkvæmt úrdrætti úr ársreikningi hans, en útgjöld hans 3,6 milljónir króna. Því var 2,6 milljóna króna hagnaður á rekstri flokksins á því ári þrátt fyrir að hann hafi boðið fram í fyrsta sinn í borgarstjórnarkosningunum.
Tekjur Sósíalistaflokksins samanstóð af framlögum frá einstaklingum og lögaðilum. Mest munaði um félagsgjöld og framlög undir 200 þúsund krónum, en þau námu alls um 3,1 milljónum króna.