Norska leigufélagið Fredensborg AS, í gegnum íslenskt dótturfélag, hefur í dag eignast alls 10,22 prósent hlut í íslenska leigufélaginu Heimavöllum, stærsta almenna leigufélagi landsins.
Kjarninn greindi frá því í morgun að norska leigufélagið hefði keypt samtals 7,2 prósent hlut í Heimavöllum. Nú er ljóst að það hefur bætt vel við sig umfram það. Ef Fredensborg greiddi markaðsverð fyrir allan hlutinn þá hefur félagið greitt rúmlega 1,3 milljarða króna fyrir hlutinn.
Í tilkynningu til Kauphallar Íslands var því flaggað að Klasi ehf. hafi selt norska félaginu 3,8 prósent hlut í Heimavöllum en óljóst er hverjir aðrir seljendur eru.
Aðaleigendur Klasa er félagið Sigla með 93 prósent eignarhlut, en það félag er til helminga í eigu félaganna Gana ehf., í eigu Tómasar Kristjánssonar, og Snæbóls ehf., í eigu Finns Reys Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur. Þessir fjórir aðilar áttu fyrir söluna í dag 21,43 prósent hlut í Heimavöllum en eiga eftir þau 17,6 prósent hlut.
Eignarhlutur þessara tengdu félaga var því kominn undir 20 prósent og því þurfti að flagga í kauphöll.
Hlutabréfaverð Heimavalla tók kipp við þessi viðskipti í morgun og hefur hækkað um tæp sex prósent í dag í um eins og hálfs milljarða króna viðskiptum. Ljóst er að þorri þeirra viðskipta vegna kaupa Fredensborg á hlutum í Heimavöllum.
Reyndu að afskrá félagið
Lykilhluthafar Heimavalla reyndu að afskrá félagið í fyrra eftir að illa gekk að fá stóra fagfjárfesta á borð við lífeyrissjóði til að fjárfesta í því og eftir að félaginu mistókst að endurfjármagna sig í takti við fyrri áætlanir sem áttu að losa það undan arðgreiðsluhömlum.
Markavirði Heimavalla er í dag er rétt rúmlega 13 milljarðar króna. Eigið fé félagsins, munurinn á skuldum og eignum þess, er hins vegar mun hærri tala eða 19,4 milljarðar króna miðað við síðasta birta uppgjör.
Í október hófu Heimavellir umfangsmikla áætlun um endurkaup á eigin bréfum, en til stendur að kaupa alls 337,5 milljónir hluta fram að næsta aðalfundi.
Við árslok 2019 áttu Heimavellir 1.627 íbúðir en áætlanir félagsins gera ráð fyrir að ríflega 400 íbúðir yrðu seldar út úr eignasafninu á árunum 2019 til 2021.