Af þeim rúmlega 49 þúsund erlendu ríkisborgurum sem bjuggu á Íslandi í byrjun desember síðastliðins bjuggu tæplega 31 þúsund, bjuggu næstum tveir af hverjum þremur á höfuðborgarsvæðinu. Langflestir þeirra búa í Reykjavík, um 21 þúsund talsins og eru erlendir ríkisborgarar nú um 16 prósent íbúa höfuðborgarinnar. Á Seltjarnarnesi bjuggu 393 útlendingar (átta prósent íbúa) í Mosfellsbæ bjuggu 1.019 (átta prósent íbúa og í Garðabæ bjuggu 811 (4,7 prósent íbúa).
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjum tölum Þjóðskrár Íslands um hlutfall erlendra ríkisborgara, sem birtar voru í dag.
Þegar við bætist sá hluti erlendra ríkisborgara sem býr á Suðurnesjum, en þeir eru 6.569 alls, þá liggur fyrir að 75 prósent allra erlendra ríkisborgara búa á suðvesturhorninu, annað hvort á höfuðborgarsvæðinu eða á Suðurnesjum. Þar af búa um 53 prósent í Reykjavík og í Reykjanesbæ, þar sem erlendir ríkisborgarar eru nú um 26 prósent íbúa.
Einn útlendingur í hreppnum
Í tölunum kemur fram að hlutfall erlendra ríkisborgara er afar breytilegt milli sveitarfélaga eða frá rúmum 44 prósentum niður í tæplega eitt prósent. Hæsta hlutfall erlendra ríkisborgara eru í Mýrdalshreppi þar sem 44 prósent 717 íbúa hreppsins eru með erlent ríkisfang, eða 398 talsins.
Líkt og áður sagði er sá landshluti sem er með hæst hlutfall erlendra ríkisborgara Suðurnes, þar sem þeir eru um 24 prósent íbúa. Á Vestfjörðum eru þeir um 16 prósent íbúa, á Suðurlandi um 14 prósent, á höfuðborgarsvæðinu um 13 prósent og á Austurlandi um 12 prósent.
Lægst er hlutfall erlendra ríkisborgara á Norðurlandi vestra (8,5 prósent) og á Norðurlandi eystra (8,2 prósent).