Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, hefur beint fyrirspurn til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra vegna úthlutunar á heimildum til veiða á makríl. Í fyrirspurninni fer Þorgerður Katrín fram á upplýsingar um hversu margar útgerðir hafi krafið íslenska ríkið um skaðabætur vegna úthlutunar á heimildum til veiða á makríl í kjölfar tveggja dóma Hæstaréttar frá 6. desember 2018 og hvaða útgerðir það séu. Hún vill einnig fá að vita til hvaða ára skaðabótakröfurnar ná, um hversu miklar aflaheimildir sé að ræða hjá hverri útgerð fyrir sig, hversu háar skaðabótakröfur einstakra útgerða séu og hvaða forsendur liggi fyrir við útreikning bótafjárhæða hjá hverri útgerð fyrir sig.
Í fyrra var makríll færður í kvóta á grundvelli veiðireynslu þar sem aflaheimildir, eða kvótar, voru að mestu færðar til stórútgerða. Makrílkvótinn er talinn vera 65 til 100 milljarða króna virði.
Fyrirspurn send sumarið 2019
Kjarninn sendi sambærilega fyrirspurn og þá sem Þorgerður Katrín hefur nú lagt fyrir forsætisráðherra, til upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar í fyrrasumar. Í henni var óskað eftir því að fá stefnur þeirra sjávarútvegsfyrirtækja sem stefnt hafa íslenskra ríkinu til greiðslu skaðabóta afhentar auk þess sem beðið var um upplýsingar um hversu háar kröfur þeirra væru.
Erindið var sent til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins sem brást ekki við því í á aðra viku. Þegar viðbrögð komu fólst í þeim að áframsenda erindið á embætti ríkislögmanns.
Hann taldi rétt að bera það undir lögmenn fyrirtækjanna sem um ræddi hvort þeir myndu samþykkja að upplýsingar um málin yrðu veittar og staðfesti í kjölfarið við Kjarnann að fyrirspurnir þess efnis hefðu verið sendar á umrædd fyrirtæki.
Síðan fékkst ekkert viðbótarsvar, þrátt fyrir að rúmir fimm mánuðir liðu frá því að upphafleg fyrirspurn var send, þangað til 20. desember 2019.
Vilja ekki að að almenningur fái gögnin
Þá sendi ríkislögmaður svar þess efnist að hann teldi ekki heimilt að afhenda stefnurnar. Hann hefði óskað eftir afstöðu umræddra fyrirtækja gagnvart því að fjölmiðlar myndu fá stefnurnar með því að beina spurningum til lögmanna þeirra. „Liggur ekki fyrir samþykki stefnenda um að afhenda stefnurnar og verður að skilja afstöðu þeirra í ljósi seinni málsliðar 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og telur embættið því gögnin undanþegin upplýsingarétti.“
Auk þess sagði í svarinu að ríkislögmaður mæti það „óraunhæft að rýmri aðgangur sé fyrir hendi þótt kröfu um afhendingu sé beint að stjórnvaldi ef um sömu gögn er að ræða. Gögnin eru því eðli sínu samkvæmt undanþegin upplýsingarétti.“
Kjarninn hefur kært synjun ríkislögmanns á aðgengi að umræddum upplýsingum til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Hins vegar byggði synjun hans á því að gögnin séu hluti af málsskjölum í dómsmáli sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Ríkislögmaður telur að sérstakar skorður séu á því samkvæmt lögum að afhenda gagna úr dómsmáli enda eru hugsanlegir hagsmunir af afhendingu þeirra allt aðrir en að varða almenning. Engu breytir þótt málsmeðferð í dómsmálum sé opinber.“