Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur útbýtt á Alþingi frumvarpi um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdavaldsins. Markmið laganna er „að takmarka eins og frekast er unnt áhrif hagsmunaárekstra á störf æðstu handhafa framkvæmdarvalds sem starfa innan Stjórnarráðs Íslands.“
Með æðstu handhöfum framkvæmdarvalds er átt við ráðherra, ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og sendiherra. Þá gilda lögin einnig um aðstoðarmenn ráðherra.
Á meðal þess sem fram kemur í frumvarpinu, er að skylda alla þá sem starfa í æðsta lagi íslenskrar stjórnsýslu og í stjórnmálum að gefa upp hagsmuni sína og gera ítarlega grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum sínum.
Þá felur það í sér að hagsmunaverðir (e. lobbýistar) sem eiga samskipti við stjórnmálamenn og stjórnsýslu verði gert að skrá sig sem slíka. Samtök atvinnulífsins hafa lýst sig afar mótfallin slíkri skráningu.
Þeir sem lögin munu ná yfir, verði frumvarpið samþykkt, munu meðal annars þurfa að skila til forsætisráðuneytisins skrá yfir nánar tilteknar eignir, skuldir og sjálfskuldarábyrgðir þ.m.t. erlendis, þegar viðkomandi hefur störf hjá Stjórnarráðinu. Sömu upplýsingum þurfi að skila varðandi maka og ólögráða börn.
Verði frumvarpið samþykkt mun það gild frá 1. janúar 2021.
Mun ekki geta skoðað brot annarra ráðherra
Framlagning frumvarpsins, sem er smíðað í forsætisráðuneytinu, er til þess ætluð að auka traust og gegnsæi, í takti við það sem tiltekið var í stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar. Í greinargerð þess kemur fram að löggjöf með virku eftirlitskerfi til varnar hagsmunaárekstrum, sem innihaldi ákvæði um hagsmunaskráningu og gjafir, hagsmunaverði, aukastörf og starfsval eftir opinber störf, sé til þess fallin að skapa traust og tryggja að æðstu handhafar framkvæmdarvalds vinni störf sín í þágu almennings af heilindum.
Í því er mælt fyrir um að forsætisráðherra og ráðuneyti hans geti ákveðið að taka til skoðunar tilvik þar sem grunur leikur á að ákvæðum frumvarpsins sé ekki fylgt í tilvikum æðstu handhafa framkvæmdarvalds og aðstoðarmanna ráðherra, annarra en ráðherra. „Með hliðsjón af stjórnskipulegri stöðu ráðherra þykir ekki rétt að fela forsætisráðherra að taka til skoðunar brot annarra ráðherra á reglum af þessu tagi en um ábyrgð ráðherra á embættisverkum þeirra fer að lögum um ráðherraábyrgð hverju sinni.“
Ákvæðin sem lögð eru til í frumvarpinu eru mörg hver matskennd og í greinargerð segir að því sé mikilvægt að forsætisráðuneytið hafi val um að skoða mál að eigin frumkvæði. „Frumkvæðismál geta hafist vegna ábendinga, t.d. frá almenningi til ráðuneytisins, umfjöllunar fjölmiðla o.s.frv. Ef niðurstaða athugunar forsætisráðuneytis gefur til kynna að brot hafi átt sér stað er gert ráð fyrir að forsætisráðuneytið tilkynni niðurstöðuna til hlutaðeigandi ráðuneytis sem hefur þá vald til að grípa til starfsmannaréttarlega viðurlaga á borð við áminningu eða uppsögn. Í tilviki æðstu handhafa framkvæmdarvalds og aðstoðarmanna ráðherra sem starfa í forsætisráðuneytinu er það forsætisráðherra að meta hvort efni séu til slíkra aðgerða.“