Stjórn Sorpu ákvað á stjórnarfundi í dag að afþakka vinnuframlag Björns H. Halldórssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, á meðan að „mál hans eru til meðferðar innan stjórnar.“ Þetta kemur fram í tilkynningu sem stjórn Sorpu sendi frá sér vegna skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um ástæður framúrkeyrslu sem varð á áætluðum framkvæmdakostnaði vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi og móttökustöðvar í Gufunesi (GAJA).
Skýrslan var unnin að beiðni stjórnar Sorpu eftir að framkvæmdastjórinn hafði lagt til að tæpum 1,4 milljörðum króna yrði bætt við fjárhagsáætlun fyrirtækisins vegna næstu fjögurra ára og var Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar jafnframt falið að gera úttekt á stjórnarháttum félagsins.
Í tilkynningunni segir að skýrslan hafi verið afhent stjórn Sorpu þann 30. desember sl. „Þann sama dag var framkvæmdastjóra Sorpu einnig afhent eintak af skýrslunni og þann 6. janúar sl. var honum gefinn frestur til að skila til stjórnar andmælum sínum og athugasemdum. Úttektin var tekin til efnislegrar meðferðar á stjórnarfundi í dag og í kjölfarið sett á vef Sorpu þar sem hún er öllum aðgengileg. Á fundinum var samþykkt að afþakka vinnuframlag framkvæmdastjóra félagsins á meðan mál hans er til meðferðar innan stjórnar.“
Margháttaðar athugasemdir
Á meðal þess sem fram kemur í skýrslunni stýrihópur eigendavettvangs og rýnihópur stjórnar Sorpu, sem áttu að hafa eftirlit með verkefninu, hafi reynst lítt virkir. Þá hafi framvinduskýrslur framkvæmdastjóra til stjórnar vegna byggingar GAJA verið ómarkvissar og stundum með röngum upplýsingum, auk þess sem skýrslugjöf hefði átt að vera reglubundnari. „fullnægjandi upplýsingagjöf og misvísandi orðanotkun í skýrslum til stjórnar var sérstaklega óheppileg þar sem stjórn Sorpu var að meirihluta skipuð nýjum fulltrúum eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2018 auk þess sem nýr formaður stjórnar hafði ekki verið áður í stjórn. Að sögn framkvæmdastjóra höfðu hvorki stjórnarformaður né aðrir stjórnarmenn frumkvæði að því að afla upplýsinga um heildarkostnað á hverjum tíma til að gera viðeigandi samanburð við áætlanir. Lengri skipunartími fulltrúa í stjórn myndi auka og festa í sessi þekkingu á rekstri félagsins svo eftirlitshlutverk verði markvissara.“
Í skýrslunni segir einnig að innri endurskoðun telji að alvarlegur misbrestur hafi orðið í upplýsingagjöf framkvæmdastjóra Sorpu til stjórnar þegar Mannvit lagði fram nýja kostnaðaráætlun aðeins mánuði eftir að fimm ára áætlun Sorpu 2019- 2023 var samþykkt af stjórn í október 2018. Sú áætlun var 500 milljónum krónum hærri sem er 500 miljónum krónum hærri en stjórn hafði ráðgert. „Stjórn var aldrei upplýst um hina nýju áætlun né kom hún til umfjöllunar á vettvangi hennar. Að mati Innri endurskoðunar bar framkvæmdastjóra að leggja þessa áætlun Mannvits fyrir stjórn svo hún gæti tekið ákvörðun um hvort þörf væri á að leggja fram viðauka við fjárhagsáætlun sem borgarstjórn Reykjavíkur tæki til afgreiðslu.“