Umsóknir um alþjóðlega vernd voru 867 á síðasta ári, samkvæmt Útlendingastofnun, og fjölgaði um 67 milli ára en flestir umsækjendur komu frá Venesúela og Írak. Hlutfallslega voru umsóknir um vernd flestar á Íslandi af Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni.
Fram kemur að afgreiddum umsóknum hafi fjölgað um 42 prósent miðað við árið á undan, óafgreiddum umsóknum fækkað um 37 prósent frá ársbyrjun auk þess sem málsmeðferðartími hafi styst verulega eftir því sem leið á árið.
531 einstaklingur fékk alþjóðlega vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum
Þá segir að fjöldi einstaklinga sem Útlendingastofnun veitti vernd hafi aldrei verið meiri á einu ári sem skýrist af því hve stór hluti umsækjenda hafði þörf fyrir vernd og hve mörg mál hafi tekist að afgreiða. Til viðbótar við þá 376 einstaklinga, sem fengu jákvæða niðurstöðu hjá Útlendingastofnun, hafi samtals 155 einstaklingar fengið veitta alþjóðlega vernd eða mannúðarleyfi hjá kærunefnd útlendingamála, sem aðstandendur flóttamanna hér á landi eftir umsókn til Útlendingastofnunar eða sem kvótaflóttamenn í boði íslenskra stjórnvalda.
Í heild fengu því 531 einstaklingur alþjóðlega vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi árið 2019.
Fæstar umsóknir í Danmörku og Noregi
Í samanburði við Norðurlöndin voru umsóknir um alþjóðlega vernd hlutfallslega flestar á Íslandi, eða 24 á hverja 10.000 íbúa. Næstflestar voru þær í Svíþjóð, eða 22 á hverja 10.000 íbúa. Mun færri umsóknir voru lagðar fram í Finnlandi og fæstar í Danmörku og Noregi, sem hlutfall af íbúafjölda, samkvæmt Útlendingastofnun.
Tæpur fimmtungur umsókna um vernd hér á landi kom frá ríkisborgurum ríkja á lista yfir örugg upprunaríki og er það nokkur fækkun borið saman við árið á undan en þó einkum árin tvö þar á undan, þegar rúmur helmingur umsækjenda kom frá öruggum upprunaríkjum, segir í tilkynningunni. Umsóknum frá öðrum en öruggum upprunaríkjum fjölgaði hins vegar á sama tíma og voru 720 á árinu.
Stærstu hópar umsækjenda komu frá Venesúela, eða 180, og Írak, eða 137, en fjölmennastir þar á eftir voru Nígeríumenn, Afganar og Albanir. Um helmingur allra umsækjenda voru karlar, fjórðungur konur og fjórðungur börn.
270 einstaklingar bíða eftir niðurstöðu
Samkvæmt Útlendingastofnun afgreiddi hún 1.123 umsóknir um alþjóðlega vernd árið 2019, samanborið við 790 afgreidd mál árið 2018. Þessi mikla aukning í afköstum, sem er 42 prósent, skýrist fyrst og fremst af fjölgun starfsmanna í málavinnslu og aukinni áherslu á þjálfun og innra skipulag á verndarsviði. „Þessar forsendur réðu því að þegar breyting varð á samsetningu umsækjenda eftir mitt ár, með fjölgun umsókna frá ríkisborgurum Venesúela, gat stofnunin brugðist hratt við og afgreitt umsóknirnar í forgangsmeðferð jafnóðum,“ segir í tilkynningu stofnunarinnar.
Þá kemur fram að í upphafi ársins 2020 hafi 270 einstaklingar beðið eftir niðurstöðu umsókna sinna um alþjóðlega vernd hjá Útlendingastofnun, flestir frá Írak og Venesúela. Það séu færri mál en voru óafgreidd í upphafi árs 2019 þegar 430 einstaklingar biðu eftir niðurstöðu í mál sitt hjá stofnuninni.