Skógareldar, skyndiflóð, sandbyljir og haglél á stærð við golfbolta.
Ástralía hefur fengið að finna fyrir dekkri tónum litrófs náttúruaflanna á aðeins
einni viku. Þykkur reykur lagðist yfir höfuðborgina Canberra og loka þurfti
flugvellinum tímabundið. Þrír bandarískir slökkviliðsmenn létust er flugvél sem
notuð var til að berjast við skógareldana hrapaði í dag í suðurhluta fylkisins
Nýja Suður-Wales. Orsakir slyssins eru enn ókunnar.
Þar með hafa skógareldarnir heimt 32 mannslíf, þar af sjö slökkviliðsmanna.
Ástralía er víðáttumikið land og þar getur veðrið verið ólíkt frá einum stað til annars. Nú er hásumar og miklir skógareldar hafa geisað í kjölfar fordæmalausra þurrka vorsins. Landsvæði á stærð við Ísland hefur orðið eldi að bráð. Verst hefur ástandið verið á suðausturströndinni, í Viktoríufylki og Nýja Suður-Wales. Um 2.000 heimili hafa orðið eldunum að bráð og um helmingur Ástrala segist hafa orðið fyrir beinum áhrifum hamfaranna.
Síðustu daga hefur mikil úrkoma verið á ýmsum svæðum, meðal annars í hluta Nýja Suður-Wales. Nú hefur stytt upp og hiti farið hækkandi á nýjan leik. Enn á ný hafa því verið gefnar út viðvaranir vegna skógarelda. Þar loga eldar á 65 stöðum og ekki hefur tekist að hefta útbreiðslu nítján þeirra. Í Sydney, höfuðborg fylkisins, er spáð yfir 40 stiga hita og hvassviðri.
At 6.15pm there are 70 fires burning, 44 are not contained. Three are at Emergency Warning. More than 1,700 firefighters are at work. Hot conditions will continue tonight for many areas. A slow moving southerly change will reach Moruya at 8pm & Sydney at 11pm. #nswfires #nswrfs pic.twitter.com/RwBiifA9VY
— NSW RFS (@NSWRFS) January 23, 2020
Of seint að yfirgefa hættusvæði
„Þú ert í hættu og þarft að bregðast strax við til að komast af.“
Þannig hljómuðu neyðarboð sem íbúar í bænum Buldah í Viktoríufylki, rétt við landamærin að Nýja Suður-Wales, fengu í gær. Eldar á svæðinu virtust þá vera að breiðast hratt út og mikil hætta blasa við. Var íbúunum tilkynnt að það væri of seint að yfirgefa svæðið. Besti kosturinn væri að leita skjóls innandyra og loka gluggum. Eða fara ofan í vatn.
Þetta hættuástand ríkti í þrjár klukkustundir þar til slökkviliðsmönnum tókst að ná tökum á útbreiðslu eldanna. Enn eru íbúarnir þó beðnir að vera á varðbergi. Hættan er ekki liðin hjá.
Í Viktoríufylki, þar sem stórborgina Melbourne er m.a. að finna, féll brúnleit rigning úr lofti á mörgum stöðum og fresta varð leikjum á opna ástralska tennismótinu. Þá var sundlaugum lokað og Yarra-áin varð brún af ösku. Þrátt fyrir úrkomuna kviknuðu 44 eldar vegna eldinga.
Rigningarnar á þessum slóðum eru ekki endilega kærkomnar. Þær skapa hættu á flóðum og einnig aurskriðum. Fylkisstjórinn Daniel Andrews segir að engu að síður sé það ástand skárra en „heitir norðan vindar“.
Úrkoman sem féll í Viktoríu-fylki og Nýja Suður-Wales orsakaði flóð á sumum stöðum en í austurhluta þeirra, þar sem eldarnir eru mestir, nægði hún ekki til að slökkva þá. Til þess þarf hún að vera yfir 100 mm. Ekki er von á að það gerist fyrr en í febrúar.
Ekki leitað til frumbyggja
Eins og rakið var í fréttaskýringu Kjarnans nýverið kom margt til sem varð til þess að skógareldarnir í Ástralíu þetta sumarið urðu meiri en oftast áður. Þar spila miklir þurrkar og methiti stórt hlutverk.
Fulltrúar frumbyggja Ástrala hafa einnig bent á að viðhald skóga með eldum hafi verið stundað í álfunni í þúsundir ára, löngu áður en Bretar og aðrir Evrópubúar stigu þar á land. Fyrirbyggjandi eldar sem frumbyggjarnir kveiktu eru kallaðir „menningarbrunar“ (e. cultural burns) og höfðu það hlutverk að brenna með skipulögðum hætti sprek og lauf sem annars yrðu stórkostlegur eldsmatur í kjarreldum sem árlega kvikna af náttúrulegum orsökum.
Eftir að skógareldarnir miklu kviknuðu af krafti á síðasta ári var kallað eftir því að þessi eldvarnartækni frumbyggjanna yrði könnuð og tekin upp með skipulegum hætti. Það hefði þurft að gera fyrr, segir Shannon Foster, kennari við Tækniháskólann í Sydney, sem hefur meðal annars það hlutverk að standa vörð um þekkingu þjóðar sinnar, D'harawal-fólksins.
„Kjarrið verður að brenna,“ hefur BBC eftir henni. Hún bendir á að frumbyggjar líti á landið sem lifandi veru, móður sína, sem haldi lífi í fólki. Menningarbruni hafi ekki það hlutverk að taka frá landinu heldur að viðhalda því og gefa til baka.
Eldar sem viðhalda vistkerfum
Stjórnvöld í Ástralíu kveikja fyrirbyggjandi elda en Foster segir að þeirra aðferðir séu augljóslega ekki að virka. „Þeir eldar eyðileggja allt. Það er barnaleg leið við að stjórna kjarreldum og það er ekkert tillit tekið til frumbyggjanna sem þekkja landið best.“
Hún segir að menningarbruni varðveiti landið en eyðileggi það ekki. Þó að þessum sið hafi smátt og smátt verið nær útrýmt eftir landnám Evrópubúa sé þekkingin enn fyrir hendi. En enginn vilji sé hjá yfirvöldum að leita í þann brunn. Sjálf segist Foster boðin og búin að veita upplýsingar og ráðgjöf.
Hún óttast hins vegar að þau landsvæði sem orðið hafa hvað verst úti í eldunum nú verði ekki endurheimt heldur að landnotkun verði breytt. „Frumbyggjarnir hafa gætt þessa lands svo lengi og að sjá það eyðileggjast vegna þess að enginn vildi leyfa okkur að hugsa um það er hræðilegt. Það er ekki eins og við höfum ekki varað ykkur við.“