Sjúkratryggingar Íslands hefur hafið úttekt á rekstri og starfsemi Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði, sem veitir margþætta endurhæfingarþjónustu í starfsemi sinni.
Samkvæmt heimildum Kjarnans kallaði Sjúkratryggingar Íslands eftir ýmsum gögnum frá Heilsustofnuninni í fyrrahaust, í kjölfar þess að Stundin fjallaði um háar greiðslur til Gunnlaugs K. Jónssonar, formanns rekstrarstjórnar hennar. Við skoðun þeirra upplýsinga var talið tilefni til að ráðast í heildstæðari úttekt á starfseminni, sem er að uppistöðu fjármögnum úr opinberum sjóðum. Sú úttekt stendur nú yfir.
Heilstofnun endurnýjaði þjónustusamning sinn við Sjúkratryggingar Íslands fyrir ekki löngu. Hann tryggði 875,5 milljóna króna fjárveitingu til starfseminnar á árinu 2019. Sá samningur, sem skrifað var undir eftir þriggja ára viðræður og níu framlengingar fyrri þjónustusamnings, felur í sér ákvæði um hvernig sé heimilt að ráðstafa fé sem greitt er vegna samningsins. Ríkið greiðir alls um 67 prósent að heildarrekstrarkostnaði stofnunarinnar en hitt sem upp á vantar er greitt með innheimtu sértekna, þar á meðal sala stofnunarinnar á vörum og þjónustu til annarra.
Greiðslur trúnaðarmál
Kjarninn sendi síðla árs í fyrra fyrirspurn til Brynjars Þórssonar, framkvæmdastjóra rekstrar hjá Heilsustofnun, og spurði meðal annars um aukinn kostnað við rekstur stjórnar á árinu 2018.
Í svörum hans sagði meðal annars að launa stjórnar stofnunarinnar væru ákveðin af stjórn Náttúrulækningafélags Íslands, eiganda Heilsustofnunarinnar. Forseti þess félags er einnig stjórnarformaður Heilsustofnunarinnar, Gunnlaugur K. Jónsson. Hann starfar einnig sem aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Stofnandi heilsustofnunarinnar, Jónas Kristjánsson, var langafi hans.
Gunnlaugur tekur því sjálfur þátt í að ákveða laun sín. Auk þess er varaforseti Náttúrulækningafélagsins, Geir Jón Þórisson, fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi yfirlögregluþjónn, varamaður í stjórn Heilsustofnunar. Aðrir í stjórn eru Inga Dóra Sigfúsdóttir prófessor og Þórir Haraldsson lögfræðingur. Þá situr Baldvin Jónsson verkefnastjóri með Geir Jóni í varastjórn.
Erfið samskiptamál og samningamál
Í svörum framkvæmdastjórans kom einnig fram að greiðslur fyrir stjórnarsetu í Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands á árinu 2018 hafi verið á á bilinu 17 – 170 þúsund krónur á mánuði. Í rekstrarstjórninni sitja þrír aðalmenn auk þess þess sem tveir sitja í varastjórn. Jafnvel þótt allir fimm hefðu fengið hæstu möguleg mánaðarlaun allt árið 2018 þá hefði heildarkostnaður samt sem áður ekki verið nema 10,2 milljónir króna. Þær greiðslur útskýra því ekki þann kostnaðarauka sem varð við rekstur stjórnar á árinu 2018.
Í svörum Brynjars við fyrirspurn Kjarnans vegna þessa sagði að upp hefði komið „verkefni sem stjórn þurfti að grípa inn í, umfram það sem áður hefur verið. Þar var meðal annars um að ræða samningamál við Sjúkratryggingar Íslands og erfið samskiptavandamál innan stofnunarinnar þar sem meðal annarra aðgerða þurfti að kalla til aðstoð vinnustaðasálfræðings. Þungi þeirrar vinnu var unnin af stjórnarformanni.“ Þá sagði Brynjar að vegna mistaka hefðu 2,5 milljónir króna verið færðar á þennan lið í ársreikningi, en það hafi ekki komið í ljós fyrr en eftir gerð hans.
Trúnaður um stjórnarlaun
Kjarninn spurði stofnunina einnig hvernig greiðslur skiptust niður á einstaklinga en framkvæmdastjóri rekstrar neitaði að svara þeirri fyrirspurn og sagði greiðslur til einstaklinga trúnaðarmál.
Þegar spurningin var ítrekuð, með vísun í að starfsemi Heilsustofnunar væri að uppistöðu fjármögnuð með opinberu fé, og óskað skýringa á því hvaða hagsmunir krefðust þess að um stjórnarlaun ríkti trúnaður, þá barst ekkert svar.
Í ársreikningi Heilstofnunarinnar fyrir árið 2018 kom fram að kostnaður vegna umsjónar og reksturs fasteigna/lausafjármuna hafi aukist um 64,2 prósent á árinu 2018 , úr 119,1 milljónum króna í 195,6 milljónir króna.
Brynjar svaraði því til að á árinu 2018 hafi verið ráðist í „viðhaldsframkvæmdir sem höfðu setið á hakanum undanfarin ár, m.a. skipti á þakjárni, endurnýjun gólfefna og lagfæring á herbergjaálmum sem skýrir hækkun á liðnum milli ára.“