Stefán Eiríksson, sem hefur gegnt starfi borgarritara frá því í desember 2016 og var þar áður lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, er á meðal umsækjenda um starf útvarpsstjóra, samkvæmt heimildum Kjarnans. Þorsteinn Gunnarsson, fyrrverandi íþróttafréttamaður á RÚV og nú sveitarstjóri í Skútustaðarhreppi, er einnig á meðal umsækjenda.
Búist er við því að tilkynnt verði um hver fái starfið í næstu viku, en alls sóttu 41 um það. Ákveðið var að birta ekki lista yfir nöfn umsækjenda en samkvæmt heimildum Kjarnans standa nú nokkrir umsækjendur eftir.
Stefán vildi ekki tjá sig um málið þegar Kjarninn hafði samband við hann.
Kári Jónasson, stjórnarformaður RÚV, vildi ekki staðfesta hvar ferlið væri nákvæmlega statt þegar Kjarninn leitaði eftir staðfestingu á stöðunni. Hann sagðist þó að vonast væri til að hægt yrði að klára ferlið í næstu viku.
Þá hefur Kjarninn heimildir fyrir því að Karl Garðarsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og núverandi framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar sem gefur út DV og tengda miðla, hafi einnig sótt um stöðuna. Karl vildi ekki staðfesta að hafa sótt um stöðuna í samtali við Kjarnann.
Starfið var auglýst eftir að Magnús Geir Þórðarson sagði starfi sínu lausu, en hann var skipaður þjóðleikhússtjóri frá og með 1. janúar næstkomandi. Magnús Geir hafði gegnt stöðu útvarpsstjóra frá árinu 2014.
Upphaflegur umsóknarfrestur rann út 2. desember en ákveðið var að framlengja hann um viku, eða til 9. desember.
Í auglýsingu sagði að útvarpsstjóri hafi það hlutverk að „framfylgja stefnu Ríkisútvarpsins og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Leitað er að öflugum og reyndum leiðtoga til að stýra RÚV inn í nýja tíma miðlunar“.
Hæfnikröfur eru háskólamenntun sem nýtist í starfi, en ekki er tiltekið hvaða stigi háskólamenntunar umsækjandi þarf að vera búinn að ljúka. Þá var gerð krafa um reynslu af stjórnun og rekstri, leiðtogahæfileika og góða hæfni í mannlegum samskiptum, skilning og áhuga á nýjum miðlum og reynslu af stefnumótunarvinnu, nýsköpun og innleiðingu stefnu.
Viðkomandi þarf auk þess að vera með þekkingu og reynslu af fjölmiðlum, menningu og samfélagsmálum, þarf að búa yfir góðri tungumálakunnáttu og góðri hæfni til að tjá sig í ræðu og riti.