Röskva, nemendafélag við Háskóla Íslands, hefur hrundið af stað undirskriftasöfnun þar sem skorað er á háskólaráð að fella þjónustusamning við Útlendingastofnun um aldursgreiningar á fylgdarlausum börnum með tanngreiningum úr gildi og standa vörð um mannréttindi flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd.
Ástæðan fyrir áskoruninni er að þann 6. febrúar næstkomandi mun háskólaráð fjalla um fyrrnefndan þjónustusamning. Þegar þetta er skrifað hafa 673 skrifað undir.
Þá segir í áskoruninni að lengst af hafi tanngreiningar og rannsóknir tengdar þeim farið fram án vitneskju stjórnsýslu Háskólans, án þjónustusamnings og án vitneskju almennings, í gegnum lektor og tannlækni við Tannlæknadeild. Þegar aðgerðasinnar og stúdentar sem berjast fyrir réttindum flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd hafi stigið fram og komið upp um framkvæmdina hafi háskólaráð ákveðið að semja við Útlendingastofnun, frekar en að stöðva þjónustuna.
Um að ræða viðtekna skoðun mannréttindasamtaka um heim allan
„Tanngreiningar eru vafasamar af mörgum ástæðum, þar má helst benda á að ýmis alþjóðasamtök hafa mælt gegn þessari framkvæmd, m.a. barnaréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, og Rauði krossinn. Þetta er því ekki eingöngu spurning um siðferði nokkurra aðgerðasinna, heldur viðtekna skoðun mannréttindasamtaka víðs vegar um heim,“ segir í áskoruninni.
Þá telja forsvarsmenn undirskriftasöfnunarinnar tanngreiningar jafnframt stinga í stúf við vísindasiðareglur Háskóla Íslands, en í því samhengi er bent ákvæði greinar í reglunum sem byggja á fimm þáttum: Virðingu fyrir manneskjunni, velferð, skaðleysi, réttlæti og heiðarleika og vönduðum vísindalegum vinnubrögðum. „Það má með sanni segja að tanngreiningar uppfylla ekki þessar kröfur. Skrifstofa rektors og aðilar innan HÍ hafa haldið því fram að tanngreiningar falli ekki undir vísindasiðareglurnar, vegna þess að þær teljast ekki til rannsókna. Því eru stúdentar og aktívistar ósammála og telja það ekki rétt. Tanngreiningar falla undir þessar reglur, ekki eingöngu vegna þess að þær eru framkvæmdar innan veggja HÍ og niðurstöður þeirra hafa verið gefnar út á bréfsefni HÍ, heldur einnig vegna þess að niðurstöður þeirra hafa verið birtar í fræðilegum greinum.“
Spurning um áreiðanleika
Enn fremur segir í áskoruninni að vandinn við tanngreiningar felist þó ekki eingöngu í siðferðilegum vafamálum sem fylgja þeim, heldur séu vikmörkin einfaldlega of mikil til að þær geti talist áreiðanlegar, sérstaklega þegar um sé að ræða aldursmat á einstaklingum í kringum átjánda aldursárið.
Umrædd vikmörk séu 1,4 ár, og þó Útlendingastofnun vilji meina að niðurstöður tanngreininga hafi ekki áhrif á umsókn þeirra einstaklinga sem gangast undir þær, þá hafi nú þegar komið fram dæmi um einstaklinga sem vísað hafi verið úr landi vegna niðurstaðna úr tanngreiningum sem reyndust rangar. Upplýst samþykki sé sérstakt vandkvæði hér, því til þess að veita upplýst samþykki sé nauðsynlegt að rannsóknin hafi ekki neikvæð áhrif á líf og stöðu einstaklings innan samfélags. Óháð stöðu þeirra í samfélaginu geti börn ekki veitt upplýst samþykki.
Rýri traust Háskóla Íslands
Auk þess er bent á að allt bréfsefni Útlendingastofnunar sé gefið út á íslensku, án þess að hælisleitendur fái færi á að læra tungumálið. Þau sem undirgangast tanngreiningar fái því ekki einu sinni tækifæri til að túlka niðurstöður rannsóknarinnar sjálf.
„Háskóli Íslands er stærsta menntastofnun landsins og hefur framkvæmd tanngreininga óhjákvæmilega innan skólans áhrif á viðhorf flóttamanna til Íslands. Einstaklingar sem hafa farið í tanngreiningar hafa þegar lýst því yfir að þeir sjái ekki fram á að geta treyst HÍ framar, hvað þá stundað nám þar. Að framkvæma tanngreiningar við HÍ hefur því afgerandi áhrif á rétt flóttafólks til að stunda nám við HÍ, sem og neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu þeirra,“ segir í áskoruninni.