Ragnheiður Ríkharðsdóttir, varaformaður stjórnar RÚV, ákvað að víkja sæti þegar nýr útvarpsstjóri var ráðinn, vegna tengsla við umsækjendur um starfið. Frá þessu greindi Ragnheiður á Facebook síðu sinni í dag, eins og greint var frá á vef Kjarnans, þá hefur Stefán Eiríksson verið ráðinn útvarpsstjóri og hefur hann störf 1. mars.
Stefán var á meðal 41 umsækjenda um starfið en eins og Kjarninn greindi frá fyrr í dag stóðu fjórir slíkir eftir í síðustu viku. Hinir þrír voru Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra og fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, Karl Garðarsson, framkvæmdastjóri útgáfufélags DV og fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, og Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri í Skútustaðarhreppi, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Í tilkynningu segir að stjórn RÚV, hafi lagt áherslu á faglegt ferli. „Stjórnin lagði áherslu á faglegt og vandað ráðningarferli og naut liðsinnis ráðgjafa Capacent. Í ráðningarferlinu var lögð áhersla á meta umsækjendur út frá þeim hæfniskröfum sem fram voru settar í auglýsingunni um starfið. Þar var rík áhersla lögð á þekkingu, reynslu og færni í stjórnun og rekstri og leitað eftir öflugum leiðtoga til að stýra RÚV inn í nýja tíma miðlunar. Stefán hefur umfangsmikla reynsla af stjórnun og rekstri, sem stjórnandi opinberrar stofnunar um árabil, sem skrifstofustjóri og staðgengill ráðuneytisstjóra, sem stjórnarmaður og stjórnarformaður í opinberu hlutafélagi, sem sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og nú síðast sem borgarritari og staðgengill borgarstjóra. Stefán lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og hdl. árið 1997. Þá hefur hann sótt ýmis námskeið tengt stjórnun og lokið sérhæfðu stjórnendanámi Bloomberg Harvard City Leadership Initiative.“
Formaður stjórnar RÚV er Kári Jónasson, fyrrverandi ritstjóri, fréttastjóri og blaðamaður.