Stefán Eiríksson, borgarritari Reykjavíkur og fyrrverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, er nýr útvarpsstjóri RÚV. Starfsfólki RÚV var greint frá ráðningunni rétt í þessu.
Í pósti sem Margrét Magnúsdóttir, starfandi útvarpsstjóri RÚV, sendi á starfsfólk, sagði:
„Kæra samstarfsfólk, Ákörðun um ráðningu útvarpsstjóra liggur nú fyrir en stjórn RÚV hefur ákveðið að ráða Stefán Eiríksson útvarpsstjóra til næstu fimm ára. Ákvörðunin var tekin samhljóða á fundi stjórnar í gærkvöldi. Stjórn Ríkisútvarpsins ræður útvarpsstjóra, ber ábyrgð á ráðningarferlinu og öllum ákvörðunum því tengdu.
Stjórnin lagði áherslu á faglegt og vandað ráðningarferli og naut liðsinnis ráðgjafa Capacent. Í ráðningarferlinu var lögð áhersla á meta umsækjendur út frá þeim hæfniskröfum sem fram voru settar í auglýsingunni um starfið. Þar var rík áhersla lögð á þekkingu, reynslu og færni í stjórnun og rekstri og leitað eftir öflugum leiðtoga til að stýra RÚV inn í nýja tíma miðlunar.
Stefán hefur umfangsmikla reynsla af stjórnun og rekstri, sem stjórnandi opinberrar stofnunar um árabil, sem skrifstofustjóri og staðgengill ráðuneytisstjóra, sem stjórnarmaður og stjórnarformaður í opinberu hlutafélagi, sem sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og nú síðast sem borgarritari og staðgengill borgarstjóra.
Stefán lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og hdl. árið 1997. Þá hefur hann sótt ýmis námskeið tengt stjórnun og lokið sérhæfðu stjórnendanámi Bloomberg Harvard City Leadership Initiative.“
Stefán var á meðal 41 umsækjenda um starfið en eins og Kjarninn greindi frá fyrr í dag stóðu fjórir slíkir eftir í síðustu viku. Hinir þrír voru Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra og fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, Karl Garðarsson, framkvæmdastjóri útgáfufélags DV og fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, og Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri í Skútustaðarhreppi, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Starfið var auglýst laust til umsóknar seint á síðasta ári. Á meðal annarra en ofangreindra sem staðfest er að sóttu um starfið eru Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra, Elín Hirst, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks og áður fréttastjóri hjá RÚV, Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna og umhverfisráðherra, Herdís Kjerulf Þorgeirsdótatir, doktor í lögum með tjáningarfrelsi fjölmiðla sem sérsvið og er einnig menntaður stjórnmálafræðingur, Baldvin Þór Bergsson, dagskrárstjóri númiðla RÚV, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og fyrrverandi ritstjóri Kvennablaðsins, og Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins.
Magnús Geir hætti skömmu eftir endurráðningu
Þann 1. nóvember síðastliðinn var greint frá því að Magnús Geir Þórðarson, sitjandi útvarpsstjóri, hefði verið skipaður þjóðleikhússtjóri. Hann hafði þá setið í Efstaleiti frá því snemma árs 2014 og stjórn RÚV hafði fyrr á árinu 2019 ákveðið að framlengja fimm ára ráðningartímabil Magnúsar Geirs um önnur fimm ár. Upphaflegur umsóknarfrestur rann út 2. desember en ákveðið var að framlengja hann um viku, eða til 9. desember.
Hæfnikröfur eru háskólamenntun sem nýtist í starfi, en ekki er tiltekið hvaða stigi háskólamenntunar umsækjandi þarf að vera búinn að ljúka. Þá var gerð krafa um reynslu af stjórnun og rekstri, leiðtogahæfileika og góða hæfni í mannlegum samskiptum, skilning og áhuga á nýjum miðlum og reynslu af stefnumótunarvinnu, nýsköpun og innleiðingu stefnu.
Viðkomandi þyrfti auk þess að vera með þekkingu og reynslu af fjölmiðlum, menningu og samfélagsmálum, þarf að búa yfir góðri tungumálakunnáttu og góðri hæfni til að tjá sig í ræðu og riti.
Stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins
RÚV er stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins. Áætlað er að útvarpsgjaldið, sem eru helstu rekstrartekjur þess, verði 4.770 milljónir króna á þessu ári.
Mennta- og menningarmálaráðherra sagði í ágúst í fyrra að í undirbúningi væri að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði. Ríkismiðlinum verði hins vegar bætt upp það tekjutap en hann hefur haft yfir tvo milljarða króna í slíkar tekjur á undanförnum árum. Ekki liggur fyrir hvernig sú breyting verði útfærð.
Þjónustusamningur RÚV við mennta- og menningarmálaráðuneytið, sem skilgreinir hlutverk, skyldur og umfang RÚV, rann út í lok síðasta árs og viðræður um endurnýjun hans hafa staðið yfir undanfarin misseri.