Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu, var ein þeirra sem sótti um starf útvarpsstjóra. Hún greindi frá ráðningarferlinu í símatíma Útvarps Sögu í morgun.
Þar sagði Arnþrúður að hún hafi verið í fimm manna lokahópi sem stjórn RÚV hefði valið endanlega úr í stöpu útvarpsstjóra. Aðrir í hópnum hefðu verið tvær konur, þar á meðal önnur sem hefði mikla reynslu úr útvarpi og því að stýra dagblaði. Þar verður að teljast öruggt að Arnþrúður eigi við Kristínu Þorsteinsdóttur, fyrrverandi ritstjóra Fréttablaðsins, sem staðfest er að sótti um stöðuna. Hin konan sem var í lokahópnum er Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna og umhverfisráðherra. Auk þeirra þriggja segir Arnþrúður að tveir karlar, Stefán Eiríksson, sem var ráðinn nýr útvarpsstjóri, og Karl Garðarsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og framkvæmdastjóri útgáfufélags DV, hafi verið í lokahópnum.
Þetta skarast á við heimildir Kjarnans sem herma að fjórir hafi verið í lokahópnum. Þau Stefán, Karl, Kolbrún og Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri í Skútustaðarhreppi og fyrrverandi íþróttafréttamaður.
Arnþrúður sagði enn fremur að henni hefði verið sagt að það væri ekki gott fyrir hana að eiga enga vini í stjórn RÚV.
Stefán valin úr hópi 41 umsækjenda
Greint var frá því í gær að borgarritari Reykjavíkur og fyrrverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, yrði nýr útvarpsstjóri RÚV. Hann tekur við starfinu 1. mars næstkomandi.
Stefán var á meðal 41 umsækjenda um starfið en það var auglýst laust til umsóknar seint á síðasta ári. Á meðal annarra en ofangreindra sem staðfest er að sóttu um starfið eru Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra, Elín Hirst, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks og áður fréttastjóri hjá RÚV, Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna og umhverfisráðherra, Herdís Kjerulf Þorgeirsdótatir, doktor í lögum með tjáningarfrelsi fjölmiðla sem sérsvið og er einnig menntaður stjórnmálafræðingur, Baldvin Þór Bergsson, dagskrárstjóri númiðla RÚV, og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og fyrrverandi ritstjóri Kvennablaðsins.