Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, fær laun í sex mánuði við starfslok. Vefmiðillinn BB.is greinir frá í dag.
Daníel Jakobsson, oddviti Sjálfstæðisflokksis í Ísafjarðarbæ, segir í samtali við BB að það sé í samræmi við ákvæði í ráðningarsamningi hans.
Fram kom í fréttum í fyrradag að Guðmundur hefði látið af störfum og að ástæða starfsloka væri ólík sýn á verkefni á vettvangi sveitarfélagsins. Þangað til ráðið verður í starfið mun bæjarritari, sem er staðgengill bæjarstjóra, gegna því.
Daníel segist í samtali við BB ekki sækjast eftir því að verða bæjarstjóri og að það standi ekki til. Hann vísar til þess að hann sé að huga að öðrum verkefnum.
Hann vildi ekkert segja um tölvupóst sem Guðmundur sendi á bæjarfulltrúa og sagði að náðst hefði samkomulag um starfslok og einblína ætti á það fremur en það sem gert er í hita leiksins. Sagðist Daníel að lokum óska Guðmundi velfarnaðar í því sem hann tæki sér fyrir hendur.