Bergsteinn Jónsson hefur ákveðið að hætta sem framkvæmdastjóri UNICEF en hann hefur gegnt starfinu síðan árið 2014. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu hjá UNICEF í dag.
Þá kemur fram hjá UNICEF að hann hafi starfað hjá samtökunum frá árinu 2006 en að nú ætli hann að breyta til. UNICEF mun auglýsa eftir nýjum framkvæmdastjóra um helgina.
„Við erum skiljanlega með böggum hildar á þessum tímamótum en nú er sú staða komin upp að við leitum að nýjum leiðtoga. Einstaklingi sem brennur af sama hugsjónaeldi fyrir réttindum og velferð barna um allan heim og Beggi hefur gert síðustu fjórtán árin,“ segir í færslunni.
Samkvæmt UNICEF hefur Bergsteinn „fylgt þessu litla kraftaverki sem er landsnefnd UNICEF á Íslandi frá því að hún var á barnsskónum.“ Hann hafi verið þar þegar hún sleit þeim og leitt hana svo gegnum unglingsárin, vöxt og vaxtarverki að næsta kafla í glæstri sögu. Nú sé kominn tími á að „næsti snillingur taki við keflinu, góðu búi og þeim ótal krefjandi og ótrúlega spennandi verkefnum sem fyrir liggja á næstunni. Með hóp af frábæru samstarfsfólki á yndislegum vinnustað, auðvitað.“
„Við vorum heppin að fá að starfa með Begga, UNICEF var heppið að fá að njóta starfskrafta hans og þá ekki síst börnin um allan heim sem hann hefur hjálpað og barist fyrir í gegnum starfsemina hér á Íslandi. Við munum sakna hans,“ segir í færslunni.
Þetta er Bergsteinn. Hann hefur starfað hjá UNICEF á Íslandi frá árinu 2006 og verið framkvæmdastjórinn okkar síðan...
Posted by UNICEF á Íslandi on Thursday, January 30, 2020