Skiptastjórar þrotabúss WOW Air hafa kynnt kröfuhöfum ákvörðun um að höfða á annan tug riftunarmála fyrir dómstólum, þar sem krafa er gerð um að greiðslum verði rift sem nema um tveimur milljörðum króna.
Frá þessu var greint á vef RÚV í dag.
Málin beinast öll að Skúla Mogensen, fyrrverandi eiganda og forstjóra WOW Air, þar sem hann samþykkti greiðslurnar. Þær eru meðal annars vegna flugvélagreiðslna, greiðslna til ríkissjóðs og fleiri greiðslna.
Stærstu málin snúa að reiðslu vegna kaupréttargreiðslna til Títans, félags í eigu Skúla sem var móðurfélag WOW Air, að því er segir í umfjöllun RÚV.
Skiptastjórar WOW Air eru Sveinn Andri Sveinsson hrl. og Þorsteinn Einarsson hrl. en WOW Air féll í lok mars í fyrra, eftir margra mánaða dauðastríð.
Morgunblaðið greindi frá því um liðna helgi að fjárfestar sem tóku þátt í skuldabréfaútboði félagsins, skömmu áður en það fór í þrot, haustið 2018, hafi sent fyrrverandi stjórnendum WOW kröfubréf upp á nokkra milljarða. Þess var krafist að stjórnendur félagsins gengju til samninga en annars myndi málið fara fyrir dómstóla. Málið beindist að Skúla og stjórnarmönnunum Helgu Hlín Hákonardóttur, Liv Bergþórsdóttur og Davíð Mássyni.
Skúli hefur sjálfur alfarið neitað því, að nokkuð óeðlilegt hafi átt sér stað hjá WOW Air. Hann, og allir sem að félaginu komu, hafi reynt að bjarga félaginu, alveg fram á síðustu stundu, þegar ljóst var að það myndi ekki takast. „Það er hins vegar mjög auðvelt að vera vitur eftir á og sorglegt að sjá hvernig sumir keppast við gera viðskipti WOW air tortryggileg. Það er fráleitt að halda því fram að ég og mitt fólk höfum ekki unnið að heilindum í einu og öllu við uppbyggingu og síðan við það að reyna að bjarga félaginu frá falli,“ sagði Skúli meðal annars í yfirlýsingu.
Ítarlega hefur verið fjallað um fall WOW Air á vef Kjarnans, og þau mál sem skiptastjórar félagsins hafi verið með til skoðunar, eftir að þeir hófu störf.
Á fundi í ágúst í fyrra, sem skiptastjórar héldu með kröfuhöfum, kom fram að lýstar kröfur í búið hafi verið upp á 151 milljarð króna hafði verið lýst í búið, þar af 138 milljarða króna kröfum sem teljast almennar. Eins og staðan var þá, var 1,1 milljarður króna á bankareikningum WOW air upp í þær kröfur. Það þýðir að 0,7 prósent var á þeim tíma til upp í lýstar kröfur.