Það fylgir því alltaf hætta að ferðast í fjalllendi að vetrarlagi. Brött fjöll geta safnað snjó og við ákveðnar aðstæður geta fallið flóð, ýmist af náttúrulegum orsökum eða af mannavöldum. Snjóflóð geta verið misstór en jafnvel lítil flóð geta ógnað fólki ef þau til dæmis hrúgast upp í giljum eða fara út í sjó. Þá er talað um landslagsgildrur. Í flestum tilfellum þegar fólk lendir í snjóflóðum í óbyggðum þá hefur það sjálft eða einhver í hópnum sett flóðið af stað.
Þetta segir Harpa Grímsdóttir, sérfræðingur á snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands, í samtali við Kjarnann. Hún segir ómögulegt að vakta með mikilli nákvæmni einstakar gönguleiðir með tilliti til snjóflóðahættu vegna þess að þær geta farið um fjölmargar mismunandi brekkur.
Á miðvikudag lentu skíðamenn í snjóflóði í Móskarðshnúkum. Flóðið var lítið, en óheppilegar aðstæður urðu þess valdandi að einn þeirra grófst í árgili og lést. Annað lítið flekaflóð fór af stað undan skíðamanni á svipuðum slóðum nokkru síðar. Eins féllu nokkur lítil snjóflóð í Mosfelli og Skálafelli.
Veðurstofan gerir svæðisbundna spá um snjóflóðahættu með útivistarfólk í fjalllendi í huga. Slík spá er meðal annars gerð fyrir suðvesturhornið sem er tilraunaverkefni er hófst síðasta vetur. Þar er hætta skilgreind í fimm stigum og tekur spáin bæði til snjóflóða af náttúrulegum orsökum og af mannavöldum.
Snjóflóðahætta er metin á alþjóðlegum skala sem innifelur mat á líkum á flóðum og stærð þeirra fyrir stórt svæði. Ekki er einungis gefinn upp litur, heldur fylgir spánni texti og tákn sem lýsa aðstæðum betur.
Á miðvikudag var snjóflóðahætta á suðvesturhorninu metin á stigi 2 (gulur – nokkur hætta). Á því stigi er ekki búist við stórum, náttúrulegum snjóflóðum, en minni snjóflóð geta fallið og fólk getur sett snjóflóð af stað í brattlendi á afmörkuðum svæðum. Spá um snjóflóðahættu er nú á stigi 3 (appelsínugulur – töluverð hætta). Talsvert nýsnævi er til fjalla og hafa flóð fallið af mannavöldum í nýja snjónum.
Snjóflóðaspáin veitir almenningi upplýsingar um snjó- og snjóflóðaaðstæður á ákveðnu svæði og er mjög almenn vegna takmarkaðra upplýsinga. „Hún getur því aldrei komið í staðinn fyrir staðbundið mat hverju sinni, en hún er eitt af því sem einstaklingar geta nýtt sér til þess að meta sjálfir snjóflóðahættu á hverjum stað fyrir sig,“ segir í útskýringum um spána á vef Veðurstofunnar.
Öruggast að halda sig frá hlíðum þar sem bratti er 30° eða meiri
Í svæðisbundnu snjóflóðaspánni er komið á framfæri fyrirliggjandi upplýsingum um lagskiptingu snævar og fréttum um snjóflóð sem fallið hafa á viðkomandi svæði. Jafnframt er eðli snjóflóðahættunnar lýst og hvers konar staði ber helst að varast.
Bæta má öryggi umtalsvert með því að halda sig frá hlíðum þar sem bratti er 30° eða meiri. Ef slys hendir er mikilvægt að vera með réttan útbúnað til þess að auka líkurnar á að geta fundið og bjargað félögum sínum úr snjóflóði: Snjóflóðaýli, skóflu og stöng.
Svæðisspáin er gefin út fyrir norðanverða Vestfirði, utanverðan Tröllaskaga og Austfirði. Þá var tilraunaverkefni um spá á snjóflóðahættu á suðvesturhorni landsins bætt við á síðasta ári.
Ástæðan fyrir því að spáin var gerð fyrir þessi þrjú svæði í upphafi er sú að þar starfa snjóathugunarmenn á vegum Veðurstofunnar sem aðstoða við vöktun byggðar. Þeir afla gagna um veður og snjóalög sem nauðsynleg eru við gerð snjóflóðaspár. Á þessum svæðum er líka stunduð mikil fjallaferðamennska að vetrarlagi.
Fimm gerðir snjóflóðavanda
Í spánni eru skilgreindar fimm gerðir „snjóflóðavanda“ (e. avalanche problem) sem geta átt við. Með því er gerð tilraun til að lýsa dæmigerðum aðstæðum í snjó og í veðri sem geta leitt til þess að snjóflóð fellur.
Hinar fimm gerðir snjóflóðavanda eru nýsnævi, skafsnjór, viðvarandi veik lög, votur snjór og snjóskrið. Fyrir hverja gerð eru skilgreindar líkur á að snjóflóð falli sem geta verið: Ólíklegt, mögulegt, líklegt, mjög líklegt, fullvíst.
Þegar snjóflóðaspáin er á stigi 2 (gulum) eða hærra er alltaf skilgreind að minnsta kosti ein gerð af snjóflóðavanda fyrir viðkomandi svæði. Lagt er mat á það hvar vandann er helst að finna, líkur á að snjóflóð falli og líkleg hámarksstærð snjóflóða ef þau falla.
Tilgangurinn með skilgreiningu á snjóflóðavanda er að bæta og einfalda framsetningu á svæðisbundinni snjóflóðaspá og lýsa á einfaldan hátt varasömum snjóaðstæðum. Alltaf þarf að hafa í huga að spáin er mikil einföldun á raunveruleikanum og hættur geta leynst víðar en spáin tilgreinir.
Nú um helgina er spáð góðu veðri og líklegt að margir ætli að nýta það til útivistar. Enn er töluverð hætta á snjóflóðum til fjalla á suðvesturhorni landsins. „Snjór sem féll í síðustu viku er enn til staðar og getur verið óstöðugur við ákveðnar aðstæður,“ bendir Harpa á. Hún segir að eins og alltaf ráðleggi hún fólki að fara að öllu með gát.