Bráðabirgðatölur fyrir fjórða ársfjórðung síðasta árs gefa til kynna að afkoma Eimskips verði lakari en áður var gert ráð fyrir. Fyrri spá félagsins áætlaði að EBITDA-hagnaður Eimskips – hagnaður fyrir skatta, afskriftir og fjármagnsliði – í fyrra yrði 52 til 55 milljónir evra, 7,1 til 7,5 milljarðar króna. Ný áætlun gerir hins vegar ráð fyrir því að EBITDA-hagnaðurinn verði minni, eða 6,7 til 6,8 milljarðar króna. Tölurnar taka ekki tillit til áhrifa IFRS16-reikniskilastaðals á afkomuna.
Í tilkynningu til Kauphallar frá Eimskip segir að helstu ástæður þess að afkoman er lægri sé minna magn í gámasiglingum félagsins sem hafi veirð um tíu prósent lægra á fjórða ársfjórðungi miðað við sama tíma árið á undan. Sú minnkun varð að megninu til á síðustu vikum ársins 2019. „Skýringar má helst rekja til minni innflutnings til Íslands en búist var við og minni veiða við Ísland á tímabilinu sem leiddi til mun minni útflutnings auk neikvæðra áhrifa á umsvif í akstri innanlands. Þannig má nefna að landaður afli í október og nóvember samkvæmt gögnum Fiskistofu var um 19 prósent og 29 prósent lægri en í sömu mánuðum árið áður sem hafði neikvæð áhrif á útflutning í nóvember og desember.“
Stærsti eigandi EImskips er Samherji með 27,1 prósent eignarhlut. Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más Baldvinssonar, fyrrverandi forstjóra Samherja, og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá fyrirtækinu, er stjórnarformaður Eimskips og í janúar í fyrra var Vilhelm Már Þorsteinsson, frændi þeirra, ráðinn sem forstjóri skipafélagsins.
Hlutabréfaverð í Eimskip hefur lækkað um tæp 16 prósent á síðastliðnu ári.