Sala á ananas jókst um 27% í Hagkaup á Seltjarnarnesi í janúar miðað við sama mánuð í fyrra. Í kílóum talið er samanlögð ananassala í verslunum Hagkaups á pari við janúarsöluna í fyrra en Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri segir í samtali við Kjarnann að það vekja athygli að sjá megi „sveiflu í sölunni á milli búða“.
Það var ekki aðeins söluaukning í versluninni á Eiðistorgi heldur einnig í Smáralind, í Spöng og Kringlunni. Í Smáralind jókst salan um 54% milli janúar í ár og í fyrra. Í Kringlunni jókst hún um heil 295% sem skýrist meðal annars af því að ananassalan í janúar 2019 var þar óvenju lítil en er nú komin á rétt ról.
Sveiflan er hins vegar í hina áttina í verslunum Hagkaups í Garðabæ og í Skeifunni. Í búðinni í Garðabæ var salan 21% minni en hún var á sama tíma á síðasta ári og 16% minni í Skeifunni, elstu verslun keðjunnar. Í þessum tveimur búðum er ananassalan þó alla jafna mest. „Það er því spurning hvort menn séu að færa ananasviðskiptin milli búða,“ segir Sigurður.
Tíst Auðar Jónsdóttur rithöfundar í byrjun janúar, þar sem ananas kom við sögu, vakti gríðarlega athygli. Þar vitnaði Auður í umhyggjusama vinkonu sína sem sagði að ef fólk setti ananas í innkaupakörfuna í Hagkaup úti á Nesi gæfi það merki um að það væri til í makaskipti (e. swing).
Umhyggjusöm vinkona: Ef þú setur ananas í körfuna þína á ákveðnum tíma í Hagkaup úti á Nesi, þá gefurðu merki að þú sért til í makaskipta-partí. Það er víst svo mikið swing-að á Nesinu!
— Auður Jónsdóttir (@audurjonsdottir) January 4, 2020
Margir fréttamiðlar vöktu athygli á færslu Auðar og fólk var duglegt að deila skoðunum sínum á málinu á samfélagsmiðlum. Margir létu mynda sig með ananas og svo hefur ávöxturinn gómsæti spilað hlutverk á einhverjum þorrablótum síðustu vikur.
Ananas er hitabeltisávöxtur með safaríkum, ætum kjarna. Hann er upprunninn í Suður-Ameríku þar sem hann hefur verið ræktaður í aldir. Ananasræktun hófst í Evrópu á sautjándu öld og var ávöxturinn lengi vel tákn um velmegun.
Hagkaup flytur ananas aðallega inn frá Kosta Ríka. Í janúar voru seld um 1.000 kíló, eitt tonn, af þessum ávexti í verslunum þess.