Pósturinn hefur tilkynnt að það sé ekki hægt að senda sendingar til Kína með fyrirtækinu lengur vegna þess að þau flugfélög sem þjónusta Póstinn eru hætt að fljúga til landsins vegna Wuhan-veirunnar.
Í tilkynningu er haft eftir Herði Jónssyni, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Póstsins, að það hafi legið í loftinu að það yrði mjög erfitt að halda uppi þjónustu til og frá Kína vegna yfistandandi ástands. Pósturinn hefði hins vegar vonast til þess að ekki þyrfti að loka alveg fyrir póstflutninga þangað. „Við getum í raun lítið gert þar sem okkar þjónustuaðilar eru hættir að taka við sendingum til landsins. Það er afar erfitt að segja til um hve lengi þetta ástand muni vara en við vonumst að sjálfsögðu til að það verði ekki lengi. Um leið og opnast fyrir möguleikann aftur munum við láta vita af því.“
Staðfest andlát af völdum Wuhan-veirunnar, sem er kórónaveirusýking, voru 362 í gærkvöldi. Alls höfðu yfir 17 þúsund manns sýkst á heimsvísu á sama tíma. Ekkert tilfelli hefur enn greinst á Íslandi en veiran hefur alls greinst í 24 löndum.
„Ferðalangar á svæðum þar sem þessi veiki hefur komið upp ættu að forðast umgengni við lifandi og dauð dýr, sérstaklega dýramarkaði, og veika einstaklinga. Handhreinsun eftir snertingu við yfirborð sem margir koma við, s.s. á flugvöllum, getur einnig dregið úr smithættu,“ segir í leiðbeiningum á vef embættis landlæknis.