Fæðingartíðni á Íslandi hefur hríðlækkað þrátt fyrir hlutfallslega mesta fólksfjölgun síðustu áratugi miðað við hin Norðurlöndin og hefur hún aldrei verið lægri. Fæðingartíðni er nú hærri í Færeyjum, Grænlandi, Svíþjóð og Danmörku en það eru innflytjendur sem halda uppi jákvæðri byggðaþróun í mörgum sveitarfélögum á Norðurlöndum.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar – State of the Nordic region, sem unnin er af Nordregio og birtist í dag.
Samkvæmt skýrsluhöfundum hefur fæðingartíðni lækkað mikið undanfarinn áratug alls staðar á Norðurlöndum og er hún nú í sögulegu lágmarki á Íslandi, í Noregi og í Finnlandi. Þá kemur fram að fæðingartíðni á Íslandi, sem lengi var með þeim hæstu í Evrópu, hafi fallið hratt frá árinu 2009 þegar hún var að meðaltali 2,2 börn á hverja konu í aðeins 1,7 börn að meðaltali árið 2019. Nú sé fæðingartíðni hér á landi örlítið lægri en í Svíþjóð og Danmörku. Færeyjar séu eina svæðið þar sem fæðingartíðnin er nægilega há til að stuðla að náttúrulegri fólksfjölgun eða 2,5 börn á hverja konu.
Konur eignast sitt fyrsta barn seinna
Helsta ástæða þessarar þróunar er, samkvæmt skýrslunni, að konur eignast sitt fyrsta barn mun seinna en áður tíðkaðist. Árið 1990 hafi fæðingartíðni verið hæst meðal kvenna á aldrinum 25 til 29 ára en í dag sé tíðnin hæst í aldurshópnum 30 til 34 ára. Breytinga hafi farið að gæta á tíunda áratugnum þegar algengara varð að konur biðu með barneignir þar til þær höfðu menntað sig.
Innflytjendur hafa haldið við endurnýjun íbúa á mörgum fámennari og afskekktari svæðum sem annars myndu glíma við fólksfækkun. Þannig varð fólksfjölgun í 26 prósentum sveitarfélaga á Norðurlöndum 2010 til 2018 einungis vegna innflytjenda.
Lífslíkur fólks við fæðingu hafa aukist alls staðar á Norðurlöndum
Kjell Nilsson, forstjóri Nordregio, segir að samhliða lækkandi fæðingartíðni stuðli bætt heilsa og aukin lífsgæði að því að samfélögin eldast. Lífslíkur fólks við fæðingu hafi aukist alls staðar á Norðurlöndum frá árinu 1990 og heldur meira hjá körlum og því hafi dregið saman með kynjunum. Búast megi við því að lífslíkur fólks haldi áfram að aukast og því megi karlar reikna með að lifa í rúmlega 87 ár og konur í rúmlega 91 ár árið 2080.
„Áhugavert er að skoða lífslíkur og aldurssamsetningu í löndunum sem heild en það er ekki síður áhugavert að sjá hvernig útkoman er mismunandi eftir svæðum. Í mínu heimahéraði, Kronoberg í Svíþjóð, eru lífslíkur karla til dæmis mestar á Norðurlöndunum,“ segir hann.