Samfylkingin eykur fylgi sitt um fjögur prósentustig milli kannana Gallup og mælist nú með 17,7 prósent fylgi. Það er ekki mesta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með á kjörtímabilinu. Í ágúst og september 2018 mældist fylgi Samfylkingarinnar 19,3 prósent.
Flokkurinn mælist næst stærsti flokkur landsins á eftir Sjálfstæðisflokknum, sem er að venju sá flokkur sem hefur mest fylgi. Það mælist nú 21,6 prósent sem er lægsta fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur mælst með á þessu kjörtímabili. Flokkurinn tapar einu prósentustigi milli mánaða.
Viðreisn tapar líka fylgi og fer úr 12 prósentum í 10,3 prósent á milli mánaða. Þá tapar Framsóknarflokkurinn 0,6 prósentustigum og nýtur nú stuðnings 7,8 prósent kjósenda.
Fylgi annarra flokka er nokkuð stöðugt milli mánaða.
Mikill viðsnúningur
Vinstri græn myndu fá 10,5 prósent ef kosið væri í dag. Það þýðir að sameiginlegt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja er komið undir 40 prósent í fyrsta sinn í könnunum Gallup á kjörtímabilinu. Það má þó ekki miklu muna, enda sameiginlegt fylgi þeirra 39,9 prósent. Yrði það niðurstaða kosninga væri ríkisstjórnin kolfallinn.
Píratar mælast með 11,5 prósent fylgi nú um stundir. Sameiginlegt fylgi þeirra, Samfylkingar og Viðreisnar, sem unnið hafa saman að ýmsum málum á kjörtímabilinu og skilgreina sig sem frjálslynda miðjuflokka, er nú 39,5 prósent, eða nánast það sama og fylgi stjórnarflokkanna. Þessir þrír flokkar fengu 28 prósent í kosningunum 2017 og hafa því bætt við sig 11,5 prósentustigum. Það þýðir að sameiginlegt fylgi þeirra hefur aukist um 41 prósent á kjörtímabilinu.
Tveir flokkar sem næðu líklega ekki inn
Miðflokkurinn er þriðji stærsti flokkur landsins samkvæmt Gallup með 12,5 prósent fylgi, sem er meira en þau 10,9 prósent sem hann fékk haustið 2017. Flokkur fólksins yrði líkast til í vandræðum með að ná inn manni að óbreyttu en fylgi þess flokks mælist 4,2 prósent.
Síðasti flokkurinn til að komast á blað er svo Sósíalistaflokkur Íslands með 3,4 prósent fylgi.
Ef kosið yrði í dag myndu því allt að átta prósent atkvæða falla niður dauð, sem myndi ýkja niðurstöðu þeirra sjö flokka sem kosnir yrðu á þing umfram fylgi.
Búast má við því að kosið verði næst til Alþingis eftir rúmt ár, eða vorið 2021. Enn á þó eftir að taka lokaákvörðun um hvenær kjördagur verður.
Þjóðarpúlsinn er netkönnun sem Gallup gerði dagana 3. janúar til 2. febrúar 2020. Heildarúrtaksstærð var 8.678 og þátttökuhlutfall var 51,8 prósent. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,2-1,4 prósent. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.