Málflutningur í Landsréttarmálinu svokallaða fyrir yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu mun fara fram á morgun, 5. febrúar í Strassborg. Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, mun fylgjast með málflutningnum á staðnum en frá því greinir hún í pistli á bloggsíðu sinni í dag.
Alls munu 17 dómarar sitja í yfirdeildinni við meðferð málsins. Á meðal þeirra er Róbert Spanó, varaforseti Mannréttindadómstólsins. Hann var einnig á meðal þeirra þeirra dómara sem felldu áfellisdóm í málinu 12. mars síðastliðinn. Íslenska ríkið ákvað í apríl að áfrýja þeirri niðurstöðu og beina því til yfirdeildar dómsins að taka málið aftur fyrir.
Greint var frá því þann 9. september síðastliðinn að yfirdeildin hefði ákveðið að taka Landsréttarmálið fyrir. Dómstóllinn felldi upphaflegan dóm sinn síðasta vor þar sem bæði Sigríður og Alþingi fengu á sig áfellisdóm fyrir það hvernig haldið var á skipan 15 dómara við Landsrétt í byrjun júní árið 2017.
Hæstiréttur staðfesti refsinguna
Sigríður fjallar um málið á bloggsíðu sinni en hún segir að málið varði einn tiltekinn dómara við Landsrétt en þó um leið alla þá 15 sem hún skipaði vorið 2017 eftir að Alþingi hafði samþykkt tillögu hennar þar um.
„Málið varðar dóm sem Hæstiréttur kvað upp í maí 2018 í máli manns sem játaði á sig akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var dæmdur til refsingar með héraðsdómi sem staðfestur var af Landsrétti. Maðurinn óskaði eftir því að dómur Landsréttar yrði ómerktur með þeim rökum að á meðal þriggja dómara þar hafði setið dómari sem ég lagði til við Alþingi að yrði meðal skipaðra dómara þótt hann hefði ekki verið meðal þeirra fimmtán sem hæfnisnefndin hafði lagt til við mig. Maðurinn telur sig ekki hafa notið réttlátrar málsmeðferðar vegna þessa. Hann telur dómarann ekki löglega skipaðan,“ skrifar hún.
Í dómi Hæstaréttar hafi maðurinn verið talinn hafa notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir Landsrétti. Hæstiréttur hafi staðfest refsinguna sem dómararnir þrír í Landsrétti, og áður héraðsdómari, ákvörðuðu honum. Hæstiréttur Íslands hafi þannig komist að þeirri niðurstöðu að dómarinn sé löglega skipaður.
Engin vafi í hennar huga að umræddur maður hafi notið réttlátrar málsmeðferðar
„Engin vafi er á því í mínum huga að umræddur maður, sem játaði fíkniefnaakstur, naut réttlátrar málsmeðferðar af hálfu allra dómaranna sem sakfelldu hann. Sú málsmeðferð er í samræmi við stjórnarskrá Íslands, almennar íslenskar réttarfarsreglur og einnig mannréttindasáttmála Evrópu.
Í máli þessu er mikilvægt að hafa hugfast að í því er deilt um lögfræði, túlkun lagaákvæða og valdmörk löggjafans, framkvæmdavalds og dómstóla, innlendra sem erlendra. Sjálfri hefur mér þótt afskaplega áhugavert að fylgjast með framgangi alls þessa máls allt frá því ég fékk í hendur 34 umsóknir um stöður dómara við Landsrétt, og kom þeim í hendur hæfnisnefndar, og fram til dagsins í dag þegar yfirdeild MDE fjallar um dóm Hæstaréttar. MDE er að „leggja dóm á dóm Hæstaréttar“ myndu þeir kannski segja sem halda ranglega að dómsvaldið sé endanlega í Strassborg,“ skrifar hún.
„Við ætlum að fara með málið alla leið“ heyrist æ oftar frá þeim sem leita til dómstólanna með ágreining. Í því felst...
Posted by Sigríður Á. Andersen on Tuesday, February 4, 2020