Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur lækkað meginvexti sína, oft kallaðir stýrivextir, úr 3,0 prósentum í 2,75 prósent. Sumir greiningaraðilar höfðu búist við þessu skrefi, en almennt var talið að vöxtum yrði haldið óbreyttum.
Alls hafa stýrivextir því lækkað um 1,75 prósentustig frá því í maí síðastliðnum þegar yfirstandandi vaxtalækkunarferli hófst. Skömmu áður, í apríl, höfðu hinir svokölluðu lífskjarasamningar verið undirritaðir. Hluti af því samkomulagi var að skipa sérstaka forsendunefnd, sem í sitja þrír fulltrúar atvinnurekenda og þrír fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar, til að fylgjast með hvort að forsendur samninganna væru að halda. Ein slík forsenda var lækkun stýrivaxta, sem þá voru 4,5 prósent.
Ekki var tilgreint sérstaklega um það opinberlega hversu mikið vextirnir þyrftu að lækka til að forsendur héldu en Kjarninn greindi frá því 4. apríl síðastliðinn að gert hafi verið hliðarsamkomulag, svokallað „skúffusamkomulag“ sem er ekki hluti af opinberum kjarasamningi, sem fól í sér að vextir yrðu að lækka um 0,75 prósentustig fyrir september 2020, þegar fyrsta endurskoðun sérstakrar forsendunefndar mun eiga sér stað, til að kjarasamningar haldi.
Vextirnir voru búnir að lækka niður um það í júní 2019, 15 mánuðum áður en fyrsta endurskoðunin mun eiga sér stað, og hafa haldið áfram að lækka síðan.
Minni hagvöxtur í ár en áður var talið
Í tilkynningu frá Seðlabankanum vegna þessa segir að vísbendingar séu um að hagvöxtur í fyrra hafi verið heldur meiri en áður var talið en horfur fyrir þetta og næsta ár versni samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í febrúarhefti Peningamála. Þar er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði einungis 0,8 prósent í ár en í nóvemberspá bankans var búist við 1,6 prósent vexti. Lakari horfur megi fyrst og fremst rekja til erfiðari stöðu útflutningsatvinnugreina og versnandi fjármögnunarskilyrða innlendra fyrirtækja.
Seðlabankinn segir að peningastefnan muni á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar.