„Þeir sem greina fyrirtækið eru löngu búnir að átta sig á þessu,“ segir Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, í tilkynningu til Kauphallar Íslands þar sem greint er frá því að fjarskiptafyrirtækið hafi fært niður viðskiptavild sína um 2,5 milljarða króna. Afkoma Sýnar og eigið fé mun lækka sem nemur afskriftinni.
Heiðar segir að verið sé að uppfæra efnahagsreikning Sýnar í takt við raunhæf rekstrarplön. „Við erum að hreinsa úr efnahagsreikningi áhrif sem byggðu ekki á raunhæfum áætlunum. Þetta hefur engin áhrif á reksturinn, hvorki í dag né í framtíðinni, heldur er einungis til merkis um að við viljum gera efnahagsreikninginn heilbrigðari.“
Viðskiptavild er mat á virði huglægra eigna fyrirtækis. Með því er til að mynda sett mat á fjárhagslegu verðmæti þess að eiga hóp fastra viðskiptavina, eins og til dæmis áskrifenda að sjónvarpsþjónustu Stöðvar 2.
Ástæða þess að verið er að færa niður viðskiptavildina er sú að virðisrýrnunarpróf komst að þeirri niðurstöðu að færa þyrfti þá vild sem skapaðist við kaup Sýnar á ákveðnum eignum og rekstri 365 miðla í lok árs 2017 um áðurnefnda upphæð, 2,5 milljarða króna.
Eftir niðurfærsluna er viðskiptavild Sýnar 8,1 milljarður króna. Í árslok 2017, þegar búið var að sameina keyptar einingar úr 365 miðlum við rekstur Sýnar, var 12,2 milljarðar króna. Þar af nam keypt viðskiptavild, sem fylgdi eignunum úr 365, 6,4 milljörðum króna.
Vert er þó að taka fram að 12,2 milljarða króna viðskiptavildin byggði á bráðabirgðatölum. Þær voru uppfærðar ári síðar og endanleg tala var 10,6 milljarðar króna. Sú virðisrýrnun sem tilkynnt var um í dag er því eina rýrnin á viðskiptavild sem ráðist hefur verið í vegna fjölmiðlakaupa Sýnar.
Keyptu fjölmiðla á milljarða
Sýn varð til þegar Fjarskipti, móðurfélag Vodafone á Íslandi, breytti nafni sínu á aðalfundi sínum í mars 2018. Nokkrum mánuðum áður, nánar tiltekið í desember 2017, höfðu Fjarskipti sameinað fjölmiðlastarfsemi inn í rekstur félagsins sem fól í sér meðal annars Stöð 2, Stöð2 Sport, Vísi, Bylgjuna, FM957 og Xið 977. Miðlana höfðu Fjarskipti keypt af 365 miðlum. Nafnabreytingin var framkvæmd svo að heitið væri meira lýsandi fyrir starfsemi hins sameinaða félags.
365 miðlar fengu greitt fyrir með 10,92 prósent hlut í Sýn, tæplega 1,6 milljarði króna í reiðufé auk þess sem Sýn tók yfir 4,6 milljarða króna af vaxtaberandi skuldum. Eigendur 365 miðla, sem eru félög tengd Ingibjörgu Pálmadóttur, seldu eignarhlutinn sinn í Sýn í október í 2018 á tvo milljarða króna. Því má segja að þeir hafi fengið um 3,6 milljarða króna í reiðufé út úr sölunni auk þess sem Sýn tók yfir 4,6 milljarða króna af skuldum 365 miðla. Samanlagt er kaupverðið samkvæmt því um 8,2 milljarðar króna.
Tekjur af fjölmiðlum minnka
Síðan þá hefur rekstur Sýnar ekki gengið sem skyldi, og þau áhrif sem kaupin á fjölmiðlunum áttu að hafa á rekstur félagsins ekki orðið. Fjölmiðlareksturinn hefur reynst erfiðari en lagt var upp með og áætlanir hvað hann varðar hafa ekki staðist.
Til að rétta af þessa stöðu hafa átt sér stað töluverðar breytingar á fjölmiðlahluta Sýnar undanfarin misseri og þekktu dagskrárgerðarfólki sagt upp störfum. Félagið missti auk þess réttinn af sýningu á enska boltanum yfir til samkeppnisaðilans Símans fyrir yfirstandandi tímabil, sem hófst á þriðja ársfjórðungi, sem hafði veruleg áhrif á tekjur Sýnar af fjölmiðlarekstri.
Heildartekjur dragast saman
Tekjur Sýnar á fyrstu níu mánuðum síðasta árs voru 14,9 milljarðar króna, sem er 454 milljónum krónum lægri tekjur en félagið hafði á sama tímabili árið 2018. Hagnaður Sýnar fyrir fjármagnsgjöld, afskriftir og skatta var 4,1 milljarður króna og lækkaði um 153 milljónir króna á milli ára.
Hagnaður Sýnar var hins vegar 384 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2019. Lykilástæða þess að Sýn skilaði hagnaði er að á fyrsta ársfjórðungi var bókfærður söluhagnaður vegna samruna P/F Hey, dótturfélags Sýnar hf. í Færeyjum og Nema, dótturfélag Tjaldurs, gekk í gegn á fjórðungnum og er 49,9 prósent hlutur Sýnar hf. í nýju sameinuðu félagi færður samkvæmt hlutdeildaraðferð og því ekki hluti af samstæðureikningsskilum Sýnar hf. frá byrjun árs 2019. Alls nam bókfærður söluhagnaður vegna þessa 817 milljónum króna.
Án þessa bókfærða söluhagnað vegna þeirrar sölu væri tap Sýnar á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 433 milljónir króna. Til samanburðar skilaði félagið 326 milljón króna hagnaði á sama tímabili 2018.
Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Sýnar fyrir árið 2019 í heild mun EBITDA-hagnaður félagsins (hagnaður fyrir fjármagnsgjöld, afskriftir og skatta) vera nálægt 5,5 milljörðum króna og tekjur Sýnar í heild vera um 19,8 milljarðar króna.
Samkvæmt því munu tekjur Sýnar á síðasta ári verða 2,2 milljörðum krónum lægri en þær voru árið 2018.