Forstjórar þeirra tveggja íslensku fyrirtækja sem hvað best gengur alþjóðlega, Marel og Össurar, eru ágætlega launaðir. Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, fékk samtals tæplega 1,1 milljónir evra, um 147 milljónir króna, í laun og kaupauka í fyrra fyrir störf sín. Það þýðir að mánaðarlaun Árna Odds voru rúmlega 12 milljónir króna.
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, var með rúmlega 1,3 milljónir dali í grunnlaun og kaupauka á árinu 2019. Það gera um 167 milljónir króna. Mánaðarlaun Jóns voru því að meðaltali um 14 milljónir króna.
Þetta mál lesa út úr nýbirtum ársreikningum Marel og Össurar.
Marel stendur á fertugu
Marel var stofnað árið 1983 og skráð á markað árið 1992. Það er langstærsta fyrirtækið sem skráð er í Kauphöll Íslands. Hjá fyrirtækinu stafa um 6.400 manns í 30 löndum og það er leiðandi í framleiðslu og þróun á vélbúnaði, kerfum, hugbúnaði og þjónustu fyrir matvælaiðnað, sérstaklega þá sem vinna vörur úr kjúklingum, nautakjöti og fiski.
Markaðsvirði Marel er nú um 456 milljarðar króna en það hefur dalað umtalsvert það sem af er ári. Um tíma fór það yfir 500 milljarða króna, enda hækkaði hlutabréfaverð í Marel um 66 prósent á árinu 2019.
Hlutabréf í Marel voru tekin til viðskipta í Euronext-Kauphöllinni í Amsterdam í byrjun júlí í fyrra og eru því tvískráð. Í aðdraganda skráningarinnar fór fram hlutafjárútboð hjá Marel þar sem félagið seldi 100 milljón nýja hluti. Þeir hlutir jafngilda 15 prósent af heildarhlutafé Marel.
Í tilkynningu til Kauphallar Íslands, sem birt var fyrr í vikunni vegna uppgjörs síðasta árs, sagði Árni Oddur að fyrstu vikur þessa árs gæfu góð fyrirheit um framhaldið, einkum í kjúklingaiðnaði þar sem fjárfestingarþörf væri augljóslega að aukast. „Við áttum frábæra síðustu viku á IPPE kjúklinga- og kjötsýningunni í Atlanta í Bandaríkjunum. Þar frumsýndum við nokkrar tímamótalausnir sem munu auka sjálfvirkni og bæta nýtingu afurða sem framleiddar verða á öruggan og sjálfbæran hátt. Þessi sýning var ein sú allra besta og skilaði okkur pöntunum og fjölmörgum spennandi framtíðarverkefnum. Eitt slíkt er samningur okkar við Bell & Evans um hönnun og uppbyggingu á nýrri og byltingarkenndri hátækni kjúklingaverksmiðju í Bandaríkjunum.“
Stærsti eigandi Marel er Eyrir Invest með 24,69 prósent hlut. Stærstu eigendur Eyris Invest eru feðgarnir Þórður Magnússon (20.6 prósent) og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel (17,9 prósent).
20 ár frá því að Össur var skráð á markað
Össur var stofnað á Íslandi árið 1971 og höfuðstöðvar þess eru á Íslandi. Fyrirtækið er hins vegar skráð í dönsku kauphöllina og bréf þess voru endanlega tekin úr viðskiptum í þeirri íslensku í desember 2017. Í fyrra jókst virði hlutabréfa í Össuri um 69 prósent.
Í fyrra voru liðin 20 ár frá því að Össur var fyrst skráð á markað á Íslandi, en þá, árið 1999, störfuðu 120 manns hjá fyrirtækinu. Um síðustu áramót var sá fjöldi kominn upp í um 3.500 sem starfa í alls 26 löndum. Össur er nú leiðandi í stoðtækjaframleiðslu í heiminum.
Hagnaður Össurar í fyrra var 69 milljónir dala, eða um 8,5 milljarðar króna. Það er tæplega 14 prósent minni hagnaður en árið áður. Sala ársins var hins vegar 686 milljónir dala, um 84 milljarðar króna, og jókst um 12 prósent á síðasta ári. Þar var var innri vöxtur í sölu á stoðtækjum um sjö prósent.
Stærsti eigandi Össurar er fjárfestingarsjóðurinn William Demant A/S sem á 52 prósent hlut. Aðrir stórir eigendur eru danski lífeyrissjóðurinn ATP (fimm prósent hlutur), Lífeyrissjóður verzlunarmanna (fimm prósent hlutur) og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (fimm prósent hlutur).