„Af viðbrögðunum að dæma er augljóst að þessi skýrslubeiðni snerti einhvern auman blett hjá ríkisstjórninni því umræddir stjórnarþingmenn mega greinilega ekki til þess hugsa að almenningur sé upplýstur um þetta einfalda mál. Hér er sérhagsmunagæslan algerlega grímulaus. Kemur í sjálfu sér ekki á óvart þegar litið er á hvaða stjórnmálaflokkar hljóta hæstu styrkina frá sjávarútveginum.“ Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, í stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann deilir frétt um viðbrögð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, við beiðni 18 þingmanna um skýrslu um samanburð á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi.
Nokkrir stjórnarþingmenn fóru á límingunum yfir einfaldri skýrslubeiðni til Sjávarútvegsráðherra um samanburð á...
Posted by Þorsteinn Viglundsson on Thursday, February 6, 2020
Þegar skýrslubeiðnin var rædd á Alþingi í morgun sagði Bjarni að hún væri „auðvitað ekkert annað heldur en ákveðið lýðskrum sem að fer fram í kjölfarið á alvarlegu máli sem upplýst hefur verið um og er til skoðunar og rannsóknar. Hér er þyrlað upp pólitísku moldviðri útaf ágreiningsefni sem hefur verið um veiðigjöld á Íslandi og því haldið fram að útgerðin skammti sér veiðigjöld eftir því að hún telur að sé hæfilegt hverju sinni.“
Óli Björn Kárason og Birgir Ármannsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndu einnig skýrslubeiðnina.
Visar í styrki sjávarútvegsfyrirtækja til stjórnarflokka
Þorsteinn segir í stöðuuppfærslunni að nokkrir stjórnarþingmenn hefðu farið á límingunum yfir þessari einföldu skýrslubeiðni. „Spurningin er hvaða hagsmuna þessir stjórnarþingmennirnir eru að gæta með þessu framferði sínu? Hér er beðið um einfaldan samanburð sem almenningur hefur fullan rétt á að fá að vita eftir fréttaflutning af Samherjaskjölunum. Þar kemur m.a. fram að greiðslur félagsins fyrir veiðiheimildir í Namibíu séu tvöfalt hærri en hér á landi. Gott væri að fá skýr svör um hvort það sé rétt.
Þar vísar Þorsteinn í að ríkisstjórnarflokkarnir þrír, Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn og Framsóknarflokkur, fengu alls um ellefu milljónir króna í styrki frá lögaðilum í sjávarútvegi á árinu 2018. Um er að ræða útgerðarfyrirtæki, fiskvinnslur, fyrirtæki sem starfa í fiskeldi og eignarhaldsfélög í eigu stórra eigenda útgerðarfyrirtækja.
Endurgjald háð pólitísku mati
Fyrsti flutningsmaður skýrslubeiðninnar er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttur, formaður Viðreisnar, en með henni eru sautján þingmenn úr Viðreisn, Pírötum, Samfylkingunni og þingmanni utan flokka.
Í greinargerð með skýrslubeiðninni segir að ákvörðun veiðigjalda hafi lengi verið ágreiningsmál í íslenskum stjórnmálum. Ekki hafi verið meirihluti fyrir því að láta gjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind landsmanna ráðast á markaði þar sem tiltekinn hluti veiðiheimilda yrði ár hvert boðinn til sölu til ákveðins tíma. Þess í stað hafi gjaldið verið ákveðið með lögum, sem sætt hafa reglulegum breytingum.
„Endurgjald fyrir einkaafnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar hefur þannig verið háð pólitísku mati. Það pólitíska mat hefur aftur í verulegum atriðum byggst á áliti þeirra hagsmunaaðila í útgerð sem eru fulltrúar þeirra fyrirtækja sem gjaldið greiða. Með öðrum orðum hafa verið bein tengsl á milli þess sem útgerðirnar hafa talið sig geta greitt og þess sem meirihluti á Alþingi hverju sinni hefur talið að þær gætu greitt,“ segir í greinargerðinni.
Þær upplýsingar sem fram hafi komið í svokölluðum Samherjaskjölum, sem RÚV fjallaði um í fréttaskýringaþættinum Kveik, gefi tilefni til að bera saman hvað eitt af stærstu og áhrifaríkustu fyrirtækjunum á þessu sviði sé reiðubúið til að greiða fyrir veiðirétt á Íslandi og í Namibíu. Eftir yfirlýsingar ráðherra bæði í fjölmiðlum og á þingi sé afar ólíklegt að ríkisstjórnin hafi frumkvæði að því að kanna þennan mikilvæga þátt málsins til hlítar.
Samanburðarathugun unnin af óháðum aðila
Samanburður af þessu tagi á, samkvæmt flutningsmönnum beiðninnar, að geta stuðlað að málefnalegri umræðu um það mat sem ákvörðun veiðigjalda byggist á.
„Í Samherjaskjölunum kemur fram að greiðsla fyrir veiðirétt í Namibíu hefur byggst á beinum greiðslum fyrir veiðirétt og sérstökum greiðslum til þeirra sem ráðið hafa mestu um úthlutun veiðiréttarins.“
Að mati skýrslubeiðenda færi best á því að samanburðarathugunin verði unnin af óháðum aðila. „Rétt þykir að þeir óháðu aðilar taki heildarfjárhæð beggja þessara þátta með í samanburðinum. Einnig telja skýrslubeiðendur æskilegt að samráð verði haft við þingflokka um þá óháðu aðila sem fengnir verða í þessa þýðingarmiklu vinnu.“