Bíó Paradís barst stuðningsyfirlýsing frá samtökum Listrænna kvikmyndahúsa CICAE en samtökin telja 2.100 meðlimi í yfir 4000 bíóum í yfir 44 löndum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bíó Paradís.
Greint var frá því í fjölmiðlum í lok janúar að kvikmyndahúsið Bíó Paradís myndi hætta starfsemi sinni næsta vor. Kvikmyndahúsið fékk mikinn stuðning almennings í kjölfar fréttanna en Bíó Paradís þakkaði sérstaklega stuðninginn og greindi frá því að enn væri verið að leita leiða til að halda starfseminni áfram.
Í yfirlýsingu CICAE er ótvíræður stuðningur við Bíó Paradís undirstrikaður og áhersla lögð á að lausn finnist áður en til lokunnar hússins kæmi. Í ljósi þess að um er að ræða bæði menningarsögulegt gildi hússins sem bíóhús og þá staðreynd að Bíó Paradís er fyrsta og eina listræna kvikmyndahúsið á Íslandi sem rekið er að megninu til á sjálfsöfluðu fé.
Undir stuðningsyfirlýsinguna skrifar Dr. Christian Bräuer forseti CICAE.
„Listræn kvikmyndahús sameinast um skuldbindingu sína til að varðveita menningararfleifð kvikmyndahúsa, framleiða framúrskarandi leikræna upplifun og þjóna samfélögum sínum. Þessir óvenjulegu sýnendur koma með alþjóðlegar, sjálfstæðar og viðurkenndar kvikmyndir í nærumhverfi sitt. Listræn kvikmyndahús eru mikilvæg menningarrými fyrir samfélög: sem samkomustaðir og staðir fyrir málfrelsi og stuðla þau að lýðræðislegum gildum í samfélögum okkar,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá kemur fram í yfirlýsingunni að margir mikilsmetnir leikstjórar hefðu aldrei náð árangri ef ekki hefði verið fyrir þann eldmóð sem listræn kvikmyndahús sýna sem jafnframt trúa á gildi vinnu þeirra.
Enn fremur kemur fram að Bíó Paradís hafi staðið sig einstaklega vel síðustu ár. Fjöldinn sem sótt hefur kvikmyndahúsið hafi aukist og forsvarsmenn þess hafi skuldbundið sig til að búa til rými til þess að fólk á öllum aldri og af mismunandi þjóðfélagsgerðum finnist það velkomið.
„Nú geta hugmyndir um fasteignabrask og græðgi orðið til endaloka alls þess,“ segir í yfirlýsingunni.
Hægt er að lesa yfirlýsinguna hér.