Kjósendur Miðflokksins og Framsóknarflokksins skera sig úr þegar kemur að því að finna fyrir kvíða sem tengist neikvæðum umhverfisáhrifum af mannavöldum, eins og mengun eða loftslagsbreytingum. Á meðan að um fimmtungur allra fullorðinna finnur almennt fyrir slíkum kvíða finna einungis sex prósent kjósenda Miðflokks og Framsóknarflokks fyrir honum.
Á meðal kjósenda Miðflokksins segjast reyndar 81 prósent finna fyrir litlum kvíða gagnvart áhrifum manna á loftslag og umhverfi en 18 prósent svöruðu því til að þeir finndu hvorki fyrir miklum né litlum.
Innan Framsóknarflokksins eru fleiri sem finna hvorki fyrir miklum né litlum umhverfiskvíða, eða 32 prósent, en 62 prósent segjast finna fyrir litlum þannig kvíða.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjum þjóðarpúlsi Gallup þar sem spurt var um afstöðu fólks til umhverfiskvíða.
Kvíðin eykst með menntun og yngri kvíðnari en eldri
Flestir landsmenn segjast finna fyrir litlum umhverfiskvíða, eða um 56 prósent allra. Tæplega 23 prósent segjast ekki hafa sterka skoðun á því hversu mikill eða lítill kvíði þeirra vegna loftslagsbreytinga og mengunar af mannavöldum sé og um 20 prósent eru haldin frekar miklum, mjög miklum eða gífurlega miklum umhverfiskvíða.
Yngra fólk er mun líklega til að finna fyrir slíkum kvíða en það sem eldra er, enda verður það að búa við afleiðingar loftslagsbreytinga verði þær í takti við það sem meginþorri vísindamanna í heiminum spáir. Alls eru 99 prósent vísindamanna sem birta fræðigreinar um málið sammála því að hlýnun loftlags sé af mannavöldum.
Píratar mest kvíðnir
Mjög mikill munur er á afstöðu til málsins eftir því hvaða stjórnmálaflokk viðkomandi hefur gagnvart loftslagsbreytinga af mannavöldum og mengun. Kjósendur Pírata eru haldnir mestum umhverfiskvíða (39 prósent) en kjósendur Vinstri grænna (36 prósent) og Samfylkingar (33 prósent) fylgja fast á eftir.
Kjósendur Miðflokks og Framsóknarflokks eru, líkt og áður sagði, með minnstan slíkan kvíða og skáka þar Sjálfstæðisflokknum, þar sem 18 prósent kjósenda er með mikinn umhverfiskvíða en 67 prósent lítinn eða engan. Flestir kjósendur Miðflokksins, alls 81 prósent, eru hins vegar með lítinn eða engan kvíða gagnvart breytingunum.
Formaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur ítrekað á undanförnum árum gagnrýnt það sem hann kallar heimsendaspámenn í loftlagsmálum og kallað eftir því að tekið verði á vandanum af „skynsemi“. Eftir að hafa verið gagnrýndur fyrir ræðu sína í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í september, þar sem hann hélt því fram að verið væri að nálgast loftlagsmálin á kolrangan hátt, birti hann stöðuuppfærslu á Facebook. Í henni sagði Sigmundur Davíð meðal annars að þegar loftslagsbreytingum væri kennt um „allar ófarir manna og ítrekað spáð yfirvofandi heimsendi er ekki líklegt að gripið verði til réttra aðgerða til að takast á við vandann í raun.“
Kjósendur Viðreisnar eru líka ólíklegri en flestir að láta málaflokkinn valda sér kvíða, en 27 prósent þeirra eru með mikinn umhverfiskvíða en 58 prósent með lítinn eða engan.
Könnun Gallup var netkönnun sem gerð var dagana 22. - 30. janúar 2020. Þátttökuhlutfall var 54,4 prósent, úrtaksstærð 1.567 einstaklingar 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup.