Landsbankinn reiknar nú með að kostnaður við nýjar höfuðstöðvar hans, sem verið er að byggja við Austurhöfn, verði 1,8 milljörðum krónum hærri en lagt var upp með. Því er áætlaður heildarkostnaður nú kominn í 11,8 milljarða króna.
Þetta kemur fram í ávarpi Helgu Bjarkar Eiríksdóttur, formanns bankaráðs Landsbankans, sem birt var í ársskýrslu hans í gærkvöldi. Landsbankinn er að nær öllu leyti í eigu íslenska ríkisins.
Kjarninn fjallaði ítarlega um áformin í fréttaskýringu sem birtist í september síðastliðnum. Þar kom meðal annars fram að Bankasýsla ríkisins, sem fer með hlut ríkissjóðs í Landsbankanum hefði ekki haft neina aðkomu að þeirri ákvörðun að reisa nýju höfuðstöðvarnar.
Það hefur heldur ekki þótt tilefni til að bera byggingu höfuðstöðva undir hluthafafund, þar sem eini alvöru hluthafinn, íslenska ríkið, gæti sagt sína skoðun á áformunum.
Ákvörðunin um að ráðast í framkvæmdirnar, sem áætlað var að myndu kosta um níu milljarða króna, hækkaði svo í tíu milljarða króna en eru nú orðnir tæpir tólf milljarðar króna, var því tekin án aðkomu fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem heldur á hlutabréfum íslenska ríkisins í bankanum og stofnunarinnar sem fer með þann eignarhlut.
Hún var tekin af bankaráði á fundi sem haldinn var 16. maí 2017. Landsbankinn, sem er í 98,2 prósent eign skattgreiðenda, hefur ekki viljað upplýsa um hvernig atkvæði féllu hjá sjö manna bankaráðinu þegar kosið var um bygginguna.
Í ávarpi sínu sagði formaður bankaráðs að .egar búið væri að leggja mat á tillögur sem bárust um hönnun nýju höfuðstöðvana hafi verið ljóst að byggingin yrði kostnaðarsamari en upphaflega var gert ráð fyrir. „Við bættist kostnaður vegna ákvörðunar um að húsið yrði umhverfisvottað samkvæmt BREEAM-umhverfisstaðlinum. Samkvæmt þeirri kostnaðaráætlun sem bankaráð hefur samþykkt er nú reiknað með að heildarkostnaður við bygginguna verði 11,8 milljarðar króna. Þrátt fyrir að kostnaður verði því um 1,8 milljörðum króna hærri en upphaflega var gert ráð fyrir er ljóst að flutningur í húsið mun hafa í för með sér nauðsynlega hagræðingu. Gert er ráð fyrir að árlegur sparnaður bankans vegna flutnings nemi um 500 milljónum króna. Bankinn hyggst selja eða leigja frá sér um 40% hússins og er kostnaður við þann hluta sem bankinn mun nýta áætlaður um 7,5 milljarðar króna.“
Hægt er að lesa fréttaskýringu Kjarnans frá því í september 2019 hér.