Mynd: Landsbankinn

Bankahöllin sem eigandinn vill ekki en er samt að rísa

Þegar íslensku bankarnir voru endurreistir úr ösku þeirra sem féllu í hruninu var lögð höfuðáhersla á að stjórnmálamenn gætu ekki haft puttanna í þeim. Búið var til eigendafyrirkomulag sem tryggði armslengdarfjarlægð milli fulltrúa eigenda, stjórnmálamannanna, og reksturs bankanna. Afleiðingin eru nokkurs konar ríki í ríkinu þar sem bankaráðs- og stjórnarmenn og helstu stjórnendur taka ákvarðanir sem oft eru í fullkominni andstöðu við vilja eigandans. Skýrasta birtingarmynd þess eru bygging nýrra höfuðstöðva Landsbankans fyrir níu milljarða króna, sem enginn ráðamaður hefur lýst yfir að sé æskileg.

Þann 10. maí 2017 fóru for­maður og vara­for­maður banka­ráðs Lands­bank­ans, Helga Björk Eiríks­dóttir og Magnús Pét­urs­son, á fund Bene­dikts Jóhann­es­son­ar, þáver­andi fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra. Til­gangur fund­ar­ins var að kynna fyrir honum ákvörðun um að ráð­ast í bygg­ingu nýrra 16.500 fer­metra höf­uð­stöðva bank­ans við Aust­ur­höfn í Reykja­vík, á einni af dýr­ustu lóðum lands­ins. Ráð­herr­ann hlust­aði á kynn­ingu þeirra og gerði svo fund­ar­mönnum grein fyrir því að hann kæmi ekki að rekstr­ar­legum ákvörð­un­um. Það væri því banka­ráðs­ins að ákveða hvort að ráð­ist yrði í fram­kvæmd­ina eða ekki. 

Þannig var ákveðið að setja upp skipu­lagið á eign­ar­haldi rík­is­ins á bönkum eftir hrun­ið. Til­gang­ur­inn var að tryggja að stjórn­mála­menn væru ekki að skipta sér með beinum hætti að rekstri bank­anna og athöfn­um, meðal ann­ars til að auka traust á fyr­ir­komu­lag­inu. Sú veg­ferð hefur ekki skilað meiru en svo að enn van­treysta fjórir af hverjum fimm lands­mönnum banka­kerf­in­u. 

Fyrir vikið er upp­setn­ingin þannig að fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytið heldur á eign­ar­hlutum skatt­greið­enda í Lands­banka og Íslands­banka en felur Banka­sýslu rík­is­ins að fara með þá. 

Í svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans til for­stjóra Banka­sýslu rík­is­ins um hvort stofn­unin hafi haft ein­hverja aðkomu að þeirri ákvörðun að reisa nýju höf­uð­stöðv­arnar var svar for­stjór­ans, Jóns Gunn­ars Jóns­son­ar, ein­falt: „nei“.

Það hefur ekki þótt til­efni til að bera bygg­ingu höf­uð­stöðva undir hlut­hafa­fund, þar sem eini alvöru hlut­haf­inn, íslenska rík­ið, gæti sagt sína skoðun á áformun­um.

Ákvörð­unin um að ráð­ast í fram­kvæmd­irn­ar, sem áætlað er að kosti um níu millj­arða króna, var því tekin án aðkomu ráðu­neyt­is­ins sem heldur á hluta­bréfum íslenska rík­is­ins í bank­anum og stofn­un­ar­innar sem fer með þann eign­ar­hlut. Hún var tekin af banka­ráði á fundi sem hald­inn var 16. maí 2017. Lands­bank­inn, sem er í 98,2 pró­sent eign skatt­greið­enda, vill ekki upp­lýsa um hvernig atkvæði féllu hjá sjö manna banka­ráð­inu þegar kosið var um bygg­ing­una. 

Því liggur fyrir að sjö manna banka­ráð, sem situr í umboði banka­sýslu rík­is­ins, stofn­unar sem heyrir undir fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­ið, tók eitt ákvörðun um bygg­ingu „Kletts­ins“ sem nú rís við hlið Hörpu. 

Allir eru að gera það

Af hverju er verið að byggja þessar umfangs­miklu höf­uð­stöðv­ar? Til þess að svara þeirri spurn­ingu þarf að fara ansi langt aft­ur. Nánar til­tekið til árs­ins 2007, á hápunkt banka­góð­ær­is­ins, sem stóð yfir frá því að banka­kerfið var einka­vætt skömmu eftir ald­ar­mót og þar til það hrundi haustið 2008, í um fimm ár. Kaup­þing hafði nýverið byggt sér nýjar höf­uð­stöðvar í Borg­ar­túni. Glitnir ætl­aði að byggja nýjar slíkar við Kirkju­sand. Og Lands­bank­inn ætl­aði að byggja stærst allra bank­anna, alls 33 þús­und fer­metra hof á reit við Aust­ur­höfn sem bank­inn hafði keypt.

Ráð­ist var í hönn­un­ar­sam­keppni og upp­haf­lega átti að kynna nið­ur­stöður þess vorið 2008. Þeim áformum var þó frestað fram á haust­ið, nánar til­tekið um miðjan októ­ber 2008. Búið var að velja fram­úr­stefnu­lega verð­launa­til­lögu arki­tekta­stof­unnar Bjarke Ing­els Group, Arkiteó, Ein­­rúm arki­­tekt­a, Andra Snæs Magna­­sonar og VSÓ. En hún var aldrei kynnt. Bank­inn fór á haus­inn áður en það tókst. 

Úr rústum þess gamla var búinn til nýr Lands­banki, með nýja kenni­tölu og í eigu íslenska rík­is­ins. Reit­irnir sem áttu að hýsa gömlu höf­uð­stöðv­arn­ar, sem til­heyra sömu lóð og tón­list­ar- og ráð­stefnu­húsið Harpa, færð­ust yfir til rík­is­ins og Reykja­vík­ur­borg­ar, sem tóku yfir eign­ar­hald og bygg­ingu Hörpu eftir hrun­ið. 

Sum­arið 2009 lét Bíla­stæða­sjóður mal­bika yfir mal­ar­völl­inn þar sem hinar íburð­ar­miklu höf­uð­stöðvar Lands­bank­ans áttu að rísa. Það þótti tákn­rænt. Í stað skýja­borga var komið mal­bik. 

Byggt til að skapa störf og vegna hag­ræðis

Það leið þó ekki á löngu þar til end­ur­nýjuð áform um bygg­ingu höf­uð­stöðva fyrir Lands­bank­ann, nú í eigu rík­is­ins, komu fram. Í jan­úar 2012 birt­ist for­síðu­frétt á Frétta­blað­inu um að í umsögn Lands­bank­ans um atvinnu­stefnu Reykja­vík­ur­borgar sem lögð hafði verið fram í borg­ar­ráði, kæmi fram vilji hans til að reisa nýjar höf­uð­stöðvar í mið­borg­inni fyrir árið 2015. Sá rök­stuðn­ingur var gef­inn að starf­semi bank­ans væri í 14 bygg­ingum og það væri afar óhent­ug­t. 

Á þessum tíma var efna­hags­upp­risa Íslands ekki hafin af neinni alvöru og því tölu­verð eft­ir­spurn eftir smurn­ingu á hjól efna­hags­lífs­ins. Í umsögn Lands­bank­ans sagði að hann myndi, með bygg­ingu höf­uð­stöðva, standa fyrir „mjög mann­afls­frekum aðgerðum og sam­tímis skapa ákjós­an­legar aðstæður í mið­borg­inni til að byggja upp aðstöðu fyrir marg­vís­lega aðra starf­sem­i.“

Ljóst var á þessum tíma­punkti að Lands­bank­inn var enn að horfa til þess að byggja á ein­hverjum reit­ana sem voru í námunda við Hörpu þótt hann ætti þá ekki leng­ur.

Í febr­úar 2013 kynnti Stein­þór Páls­son, þáver­andi banka­stjóri Lands­bank­ans, svo fyrir starfs­mönnum hans áætlun um nýjar höf­uð­stöðv­ar. Horft væri á sömu lóð og ráð­gert var að byggja á fyrir hrun, gert var ráð fyrir því að höf­uð­stöðv­arnar yrðu 24 þús­und fer­metrar að stærð og að fram­kvæmdir myndu hefj­ast 2014. Í sam­tali við Við­skipta­blaðið sagði Stein­þór að það þyrfti að byggja nýjar höf­uð­stöðvar meðal ann­ars vegna þess að því fylgdi rekstr­ar­á­hætta að vera í leigu­hús­næði. „Eig­end­urnir eru sumir sífellt að skoða hvort þeir eigi frekar að reka hót­el. Þessu fylgir rekstr­ar­á­hætta fyrir okk­ur.“

For­sæt­is­ráð­herra segir nei

Í ágúst 2013 var lagt fram bréf frá banka­stjóra Lands­bank­ans í borg­ar­ráði Reykja­vík­ur, þar sem hann óskaði eftir því að fá lóð við hlið Hörpu keypta. Um var að ræða einu lóð­ina á þessu stóra skipu­lags­svæði sem átti eftir að selja á þessum tíma út úr félagi í eigu ríkis og borgar sem eign­að­ist bygg­ing­ar­reit­ina eftir hrun. 

Stærðin hafði aðeins dreg­ist saman frá fyrri áformum og var nú áætluð um 15 þús­und fer­metr­ar. 

Í þetta skiptið varð póli­tísk mót­spyrna. Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, þá nýr for­sæt­is­ráð­herra þjóð­ar­inn­ar, tjáði sig við vef­mið­il­inn Eyj­una og sagði að honum virt­ist „úti­lokað að rík­is­bank­inn muni byggja nýjar höf­uð­stöðvar á næst­unni. Það eru mörg mál sem þarf að leysa fyrst.“ Frosti Sig­­ur­jóns­­son, þá for­­maður efna­hags- og við­­skipta­­nefnd­­ar, tók undir með þáver­andi flokks­bróður sínum í pistli sem birt­ist skömmu síð­­­ar. 

Yfir­lýs­ing Sig­mundar Dav­íðs hafði í för með sér mikil við­brögð og banka­stjóri Lands­bank­ans gaf á end­anum út að málið væri „stormur í vatns­glasi“. Nokkrum vikum síðar var ákveðið að aug­lýsa lóð­ina sem Lands­bank­inn hafði auga­stað á til sölu. 

„Risa­stór gler­höll á dýrasta stað“

Ekki leið ár þar til að vilj­inn til að byggja nýjar höf­uð­stöðvar fór aftur að láta á sér kræla.  Í mars 2014, á aðal­fundi Lands­bank­ans sem haldin var í Hörpu, sagði Tryggvi Páls­son, þá stjórn­ar­for­maður bank­ans, að hann þyrfti minna og hent­ugra hús­næði. „End­an­legar ákvarð­anir hafa ekki verið teknar í þessu máli en banka­ráðið er ein­róma þeirrar skoð­unar að núver­andi hús­næð­is­vanda þurfi að leysa.“

Nú var áhug­inn á reit 6 á svæð­inu, þ.e. þeim sem er næstur Hörpu og fyrir framan lúx­us­hót­elið sem nú er langt komið í bygg­ingu. Í apríl 2014 ákvað eig­andi lóð­ar­inn­ar, félagið Sítrus í eigu ríkis og borg­ar, að ganga til samn­inga við Lands­bank­ans um að selja honum þann reit. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér sem forsætisráðherra 2016. Hann hafði verið mjög gagnrýnin á áform Landsbankans.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Í maí 2014 sagði Sig­­mundur Davíð á Alþingi, í óund­ir­­búnum fyr­ir­­spurnum þar sem nýjar höf­uð­­stöðvar Lands­­bank­ans voru til umræðu: „Ég skal al­­­veg við­­ur­­­­kenna að mér þykir óneit­an­­­lega mjög sér­­­­­kenn­i­­­legt ef menn eru farn­ir að velta því fyr­ir sér ein­ung­is fimm árum eft­ir að bank­inn komst í þrot og skrapp í fram­haldi af því mikið sam­an að fara að byggja nýj­ar höf­uð­­stöðv­­­ar, ég tala nú ekki um ef það yrði risa­­­stór gler­­­höll á dýr­asta stað borg­­­ar­inn­ar og þar með lands­ins".

Smá hik en svo áfram á fullri ferð

Næstu mán­uðir voru Lands­bank­anum erf­ið­ir. Banka­ráð og stjórn­endur höfðu um annað að hugsa en hús­næð­is­mál. Í nóv­em­ber 2014 opin­ber­aði Kjarn­inn, fyrstur miðla, hvernig Lands­bank­inn hafði selt 31,2 pró­sent hlut í Borgun bak við luktar dyr til val­ins hóps kaup­enda. Með þessum við­skiptum varð Lands­bank­inn af millj­örðum króna. Hann höfð­aði síðar mál vegna söl­unnar og taldi sig blekkt­an. Það mál er enn í gangi. Borg­un­ar­málið kost­aði svo á end­anum Stein­þór Páls­son banka­stjóra­starfið í lok árs 2016. 

Draum­ur­inn um nýjar höf­uð­stöðvar var þó ekki alveg dauður þótt lítið væri rætt um hann opin­ber­lega á þessum tíma. Þvert á móti.

Í skýrslu stjórnar Lands­bank­ans fyrir aðal­fund 18. mars 2015 voru ítrekuð áform um að reisa nýjar höf­uð­stöðvar bank­ans við Aust­ur­höfn. Í skýrsl­unn­i ­sagð­i:„­Gert er nú ráð fyrir að rýma um 28 þús­und fer­metra og koma starf­sem­inni sem á þeim var fyrir á um 15 þús­und fer­metrum í nýju sér­hönn­uðu hús­næði. Reikna má með um 600 millj­óna króna sparn­aði á ári.“

Í júlí sama ár sendi bank­inn frá sér til­kynn­ingu þar sem greint var frá því að ákvörðun hefði verið tek­in: nýju höf­uð­stöðv­arnar yrðu byggð­ar. 

Ráð­ist yrði í hönn­un­ar­sam­keppni og höf­uð­stöðv­arnar myndu rísa við hlið Hörpu við Aust­ur­höfn. Áætl­aður kostn­aður var átta millj­arðar króna og áætlað var að fjár­fest­ingin myndi borga sig upp á tíu árum.

„Takt­laust“, „hálf­ga­lið“, „veru­leikafirr­ing“

Nú var þetta ekki lengur hug­mynd, heldur fram­sett áætl­un. Öllum áformum um að skoða flutn­ing í þegar risin hús, sem gætu rúmað alla starf­sem­ina og náð fram þeirri rekstr­ar­hag­ræð­ingu sem stefnt var að, var ýtt til hlið­ar. Lands­bank­inn væri mið­borg­ar­fyr­ir­tæki og þar yrði hann að reisa sér nýtt heim­il­i. 

Gagn­rýnin á áformin fór að breiða úr sér á meðal stjórn­mála­manna. 

Ráðherra krafðist þess að laun yrðu lækkuð

Það eru ekki einungis húsnæðismál sem hafa truflað ráðamenn í rekstri Landsbankans. Það hafa launamál líka gert og í þeim hafa stjórnvöld raunverulega beitt sér.

Í lok árs 2016 var tekin póli­tískt ákvörðun um launa­­kjör rík­­is­­for­­stjóra undan kjara­ráði og til stjórna fyr­ir­tækj­anna, sem eru póli­­tískt skip­að­­ar. Sú breyt­ing tók gildi um mitt ár 2017. Bene­dikt Jóhann­es­son, sem þá var fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, sendi bréf til stjórna allra fyr­ir­tækja í rík­i­s­eigu í aðdrag­anda þeirrar yfir­færslu. Þar beindi hann þeim til­mælum til þeirra að stilla öllum launa­hækk­unum for­stjóra í hóf. Stjórnarformenn stærstu fyrirtækjanna, meðal annars ríkisbanka, voru auk þess kallaðir á fund ráðherrans síðsumars þetta ár til að brýna fyrir þeim að virða tilmæli sín.

Margar stjórnir hunsuðu tilmælin og hækkuðu laun æðstu stjórnenda sinna um tugi prósenta. Enginn laun ríkisforstjóra hækkuðu hlutfallslega meira en bankastjóra Landsbankans, eða um 82 prósent í 3,8 milljónir króna á mánuði.

Í febrúar 2019, þegar kjaraviðræður stóðu sem hæst, sendi Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, bréf til Banka­sýslu rík­is­ins þar sem hann óskaði þess að hún kæki því með afdrátt­ar­lausum hætti á fram­færi við stjórnir rík­is­bank­anna Íslands­banka og Lands­bank­ans að „ráðu­neytið telji að bregð­ast eigi við þeirri stöðu sem upp er komin með taf­ar­lausri end­ur­skoðun launa­á­kvarð­ana og und­ir­bún­ingi að breyt­ingum á starfs­kjara­stefn­um, sem lagðar verði fram á kom­andi aðal­fundum bank­anna.“

Í mars brást bankaráð Landsbankans við þessum tilmælum og lækkaði laun bankastjórans niður í 3.503 þús­und krón­­ur.

Guð­laugur Þór Þórð­ar­son, þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins og þá vara­for­maður fjár­laga­nefndar Alþing­is, sagði til að mynda við RÚV að það væri öllum ljóst að þarna væri verið að fara illa með eignir rík­is­ins og engin gæti gert neitt í því. „Ég mun að minnsta kosti vekja athygli á þessu og taka þetta upp á þingi þegar það kemur saman í haust.“

Elín Hir­st, sem sat á þingi fyrir Sjálf­stæð­is­flokk­inn á þessum tíma, gagn­rýndi for­gangs­röðun bank­ans og sagði að hann ætti ætti frekar að bjóða betri kjör heldur en að byggja á dýrasta stað í mið­borg­inni. „Ég tel að það sé allt of mikið í lagt og ég tel að þetta sé allt of dýr lóð fyrir bank­ann.“

Áform Lands­bank­ans átti sér líka fylg­is­menn. Hjálmar Sveins­son, þáver­andi for­maður umhverf­is- og skipu­lags­ráðs Reykja­víkur og borg­ar­full­trúi Sam­fylk­ing­ar, varði ákvörð­un­ina og sagði að ef Lands­bank­inn myndi ekki byggja á reitnum þá myndi lík­lega rísa þar ný hót­el­bygg­ing. „Nú er Lands­bank­inn, svona eftir fjár­glæfra­lega snún­inga, kom­inn í raun­inni í eigu almenn­ings í land­inu. Þannig að mér finnst það alveg, út af fyrir sig, koma til greina að bank­inn sé með höf­uð­stöðvar sínar hér í mið­borg­inn­i,“ sagði Hjálmar við Stöð 2. Reykja­vík­ur­borg á hins vegar ekk­ert í Lands­bank­anum og því er afstaða þeirra sem starfa innan hennar sett fram út frá öðrum for­sendum en þeirra sem starfa innan þings eða rík­is­stjórn­ar. 

Banka­stjóri Lands­bank­ans reyndi að malda í móinn og segja að fram­kvæmd­irnar væru ekki bruðl heldur þvert á móti hag­kvæmar, en und­ir­tekt­irnar voru væg­ast sagt dræmar, ekki bara hjá stjórn­mála­mönnum heldur líka hjá almenn­ingi. Í óform­legri könnun frétta­stofu Stöðvar 2 á meðal almenn­ings voru nær allir við­mæl­endur á einu máli, þeim þótti hug­mynd­irnar „takt­laus­ar“, „hálf­galn­ar“, „full­komin veru­leikafirr­ing“ eða „fá­rán­leg­t“. Einn við­mæl­and­inn sagði: „Þessi banki er nýbú­inn að fara á rass­gatið og tapa fleiri hund­ruð millj­örðum og að ætla að fara að byggja hús fyrir átta millj­arða. Ég bara skil þetta ekki.“

Jón Gunnar Jóns­son, for­stjóri Banka­sýslu rík­is­ins sagði að hann sjálfur hefði viljað að aðrir mögu­leikar hvað stað­ar­val nýrra höf­uð­stöðva varð­ar, hefðu verið skoð­að­ir. T.d. að flytja þær í Toll­húsið við Tryggva­göt­u. 

Fjöl­margir aðrir settu fram harða gagn­rýni. Þar á meðal Vig­dís Hauks­dótt­ir, þáver­andi for­maður fjár­laga­nefnd­ar, bæj­ar­stjórar Vest­manna­eyja og Kópa­vogs og þáver­andi for­maður efna­hags- og við­skipta­nefnd­ar. 

Und­ar­legt ef rík­is­banki færi gegn vilja eig­anda

Sig­mundur Davíð, þá enn for­sæt­is­ráð­herra, hélt áfram að gagn­rýna áformin opin­ber­lega. Hann gagn­rýndi í fyrsta lagi að gert væri ráð fyrir allt of miklu bygg­inga­­magni milli Hörpu og gamla bæj­­­ar­ins, og þá gagn­rýndi hann for­­gangs­röðun rík­­is­­bank­ans sem ætti fyrst og síð­­­ast að ein­beita sér að því að bæta kjör við­­skipta­vina sinna. Það væri und­ar­legt ef banki í almanna­eigu færi gegn því sem virt­ist vera aug­ljós vilji eig­enda, almenn­ings og full­trúa hans.

Jón Gunn­ars­son, þá for­maður atvinnu­vega­nefnd­ar, lýsti sig einnig veru­lega andsnú­inn bygg­ing­unni. Kári Stef­áns­son, for­stjóri Íslenskrar erfða­grein­ing­ar, lagði til, í grein sem hann skrif­aði, að höf­uð­stöðv­arnar yrðu byggð­ar, en að í kjöl­farið ætti að dreifa „um húsið þrjú­hund­ruð þús­und sleggjum og hvetjið lands­menn alla til þess að koma og brjóta það niður í stein­mola fyrir stein­mola til að tjá reiði sína og fyr­ir­litn­ingu á hrok­anum og óhóf­inu sem ein­kenndi bank­ana fyrir hrun og skutu síðan upp koll­inum rétt sem snöggvast í Lands­bank­anum árið 2015.“ Kári sagði enn fremur að það ætti að taka gjörn­ing­inn upp og senda sem fram­lag Íslands til næsta Fen­eyjat­ví­ær­ings undir heit­inu: „Meira en nóg til af þess­ari hel­vítis vit­leysu.“

Lilja Björk Einarsdóttir tók við sem bankastjóri Landsbankans snemma árs 2017.
Mynd: Landsbankinn

For­sæt­is­ráð­herr­ann Sig­mundur Dav­íð, sem er þekktur fyrir gríð­ar­legan áhuga sinn á skipu­lags­mál­um, var ekki hættur og sagði í sam­tali við Morg­un­blaðið í júlí 2015 að það væri hægt að hag­ræða með því að færa starf­sem­i Land­bank­ans undir eitt þak með öðrum hætti en „að byggja glæsi­hýsi á dýrasta stað bæj­ar­ins á jafn ögrandi hátt og virð­ist stefna í þarna.“

Þáver­andi sam­flokks­maður Sig­mundar Dav­íðs, og núver­andi ráð­herra, Ásmundur Einar Daða­son, sagði á blogg­síðu sinni tveimur dögum síðar að hægt væri að halda opnum ein­hverjum þeirra úti­búa sem bank­inn hefði lokað í 100 til 150 ár, í stað þess að byggja nýju höf­uð­stöðv­arn­ar. „Var verið að skerða þjón­ustu vítt og breitt um landið til að safna fyrir útborgun í nýjar höf­uð­stöðvar á dýr­ustu lóð lands­ins?”

Áformin end­ur­skoðuð

Ljóst var að hin mikla póli­tíska and­staða, sem birt­ist sér­stak­lega hjá stjórn­ar­þing­mönnum þessa tíma en einnig á meðal val­inna borg­ar­full­trúa í minni­hluta í Reykja­vík, var að reyn­ast stjórn­endum Lands­bank­ans erf­ið. Bank­inn var enda í eigu rík­is­ins og erfitt fyrir stjórn­endur og banka­ráð að ganga gegn aug­ljósum vilja meðal ann­ars for­sæt­is­ráð­herra þjóð­ar­inn­ar. Það fór að spyrj­ast út að til stæði að end­ur­skoða mögu­lega áform­in. 

Þann 7 . ágúst 2015 var greint frá því að banka­ráðið hefði ákveðið að fresta hönn­un­ar­sam­keppni um fyr­ir­hug­aða nýbygg­ingu bank­ans við Aust­ur­höfn, sem átti að hefj­ast síðar í þeim mán­uði. Það yrði gert til að fara yfir þau sjón­ar­mið sem fram hefðu komið vik­urnar á und­an. 

Á þessum tíma steig meiri­hlut­inn í borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur, sem sam­an­stóð af Sam­fylk­ingu, Vinstri græn­um, Pírötum og Sam­fylk­ingu, hins vegar fram og studdi form­lega fram­kvæmd­irn­ar. Björn Blön­dal, þá for­maður borg­ar­ráðs, sagði við Vísi að borgin vildi að fram­kvæmdir myndu hefj­ast sem fyrst. „Við viljum auð­vitað ekki að þetta sé bara í ein­hverri bið­stöðu um ókomna tíð. Miðað við það sem hefur verið kynnt fyrir okkur þá verður þarna fjöl­breytt þjón­usta. Versl­an­ir, vissu­lega banka­starf­semi og önnur þjón­usta. Það gefur líka mögu­leika á breyta nýt­ingu á því rými sem Lands­bank­inn er í fyrir í húsum í mið­borg­inni, þá sér­stak­lega kannski gamla lands­banka­hús­ið. Þannig að það er okkur ekk­ert á móti skapi, nema síður sé, að þessi starf­semi sé þarna.“

Í byrjun sept­em­ber voru full­trúar Banka­sýslu rík­is­ins kall­aðir á fund fjár­laga­nefndar Alþingis til að ræða höf­uð­stöðv­arnar fyr­ir­hug­uð­u. 

Aftur af stað

Í lok árs 2016 hafði banka­stjóri Lands­bank­ans misst starfið vegna Borg­un­ar­máls­ins og fimm af sjö banka­ráðs­mönn­um, þar á meðal for­maður þess Tryggvi Páls­son, gáfu ekki kost á sér til áfram­hald­andi setu á aðal­fundi fyrr á því ári. Nýtt fólk var komið í brúnna hjá Lands­bank­an­um. For­maður banka­ráðs varð Helga Björk Eiríks­dóttir og Lilja Björk Ein­ars­dóttir var ráðin banka­stjóri í jan­úar 2017. 

Í maí 2017, rúmu ári eftir að skipt var um nær allt banka­ráðið og ein­ungis um tveimur mán­uðum eftir að nýr banka­stjóri tók við starf­inu, sendi Lands­bank­inn út frétta­til­kynn­ingu. Höf­uð­stöðv­arnar myndu rísa og þær myndu rísa við hlið Hörpu. 

Nið­ur­staða grein­ingar KPMG fyrir bank­ann væri að Aust­ur­höfn væri ákjós­an­leg­asti kost­ur­inn fyrir höf­uð­stöðv­arn­ar. Lands­bank­inn ætl­aði sjálfur að nýta tíu þús­und fer­metra í hús­inu en selja frá sér eða leigja 6.500 fer­metra. „Nú hefst und­ir­bún­ings­vinnan fyrir alvöru,“ sagði nýi banka­stjór­inn við þetta til­efn­i. 

For­dæma­laust stjórn­mála­á­stand

Í þetta skiptið bar minna á miklum mót­bárum úr stjórn­mál­un­um. Þar hafði fólk enda um margt annað að hugsa. Opin­berun Panama­skjal­ana hafði leitt af sér haust­kosn­ingar 2016 sem skil­uðu land­inu í stjórn­mála­lega kreppu, þar sem afar illa gekk að mynda starf­hæfa rík­is­stjórn. Slík var loks­ins mynduð snemma árs 2017 með minnsta mögu­lega meiri­hluta og undir for­sæti Bjarna Bene­dikts­son­ar. Hún sat ein­ungis í 247 daga þar til að hún sprakk vegna upp­reist æru-­máls­ins um miðjan sept­em­ber 2017. Það mál, ásamt afar umdeildri skipun dóm­ara í Lands­rétt í sum­ar­byrj­un, hafði átt svið­ið. Eftir að rík­is­stjórn­ar­sam­starfið féll saman var ráð­ist í aðrar kosn­ing­arnar á tveimur árum, og skamm­vinna kosn­inga­bar­áttu í aðdrag­anda þeirra. 

Birting á skjölum um uppreist æru, og pukur ráðamanna með upplýsingar um hverjir voru í þeim, sprengdi ríkisstjórn í september 2017.
Mynd: Kjarninn

Ný rík­is­stjórn Katrínar Jak­obs­dóttur tók síðan við í lok nóv­em­ber, lagði fram fjár­lög, lauk þing­störfum fyrir jól og svo fóru þing­menn í langt jóla­frí. 

Það var í þessu póli­tíska ástandi sem end­ur­nýjuð áform Lands­bank­ans um bygg­ingu nýrra höf­uð­stöðva voru sett á fullt skrið.

Í sept­em­ber 2017, á meðan að sam­fé­lagið lék á reiði­skjálfi vegna upp­reist æru-­máls­ins, aug­lýsti Lands­bank­inn eftir arki­tektum til að hanna nýbygg­ing­una. Sjö teymi voru svo valin til að skila frum­gögnum um viku fyrir þing­kosn­ing­arnar í lok októ­ber. 

Þann 19. jan­úar 2018, tveimur dögum áður en Alþingi kom aftur til starfa eftir jóla­frí, rann út frestur sjö arki­tektateyma til að skila inn frum­til­lögum að hönnun nýbygg­ingar fyrir Lands­bank­ann við Aust­ur­höfn. 

23. febr­úar 2018 var greint frá því að Lands­bank­inn hefði ákveðið að ganga til samn­inga við Ark­þing ehf. og C.F. Møller um hönn­un og þróun á ný­­bygg­ingu bank­ans við Aust­ur­höfn í Reykja­vík. Með frétta­til­kynn­ing­unni var send út tölvu­teiknuð mynd af vænt­an­legri bygg­ingu, sem kall­ast „Klett­ur­inn“. Banka­stjóri og banka­ráð stóðu að ákvörð­un­inni ásamt þriggja manna ráð­gjafa­ráði. Fram­kvæmdir áttu að hefj­ast í byrjun árs 2019. 

„Það hlýtur að hafa komið inn í þá umræðu“

Þann 1. mars 2018 spurði Sig­mundur Dav­íð, þá orð­inn for­maður hins nýja Mið­flokks og í stjórn­ar­and­stöðu, nýjan for­sæt­is­ráð­herra, Katrínu Jak­obs­dótt­ur, á Alþingi um „áform þess banka, rík­is­bank­ans, um að byggja gríð­ar­stórar höf­uð­stöðvar á lík­lega dýr­ustu lóð lands­ins hérna skammt frá í mið­bæn­um, lóð sem er miklu stærri en lóðin sem bank­inn hugð­ist byggja á þegar Lands­bank­inn átti að vera ein­hvers konar alþjóð­legur stór­banki og ætl­aði að byggja sér höf­uð­stöðvar í Reykja­vík­[...]á tímum þegar eru að verða algerar grund­vall­ar­breyt­ingar í banka­þjón­ustu, þegar ljóst er að umfang banka­þjón­ustu eða yfir­bygg­ing mun minnka. Auk þess er ljóst að fyrir dyrum er veru­leg end­ur­skipu­lagn­ing bank­ans. Það stendur til að selja stóran hlut í bank­anum og end­ur­skipu­leggja starf­semi hans. Hvað finnst hæst­virtum for­sæt­is­ráð­herra um að á þeim tíma­punkti ætli rík­is­bank­inn, Lands­bank­inn, að byggja nýjar höf­uðstöðvar á dýr­ustu lóð lands­ins?“

Framkvæmdir eru hafnar við byggingu nýrra höfuðstöðva Landsbankans við Austurhöfn.
Mynd: Þórður Snær Júlíusson

Katrín svar­aði spurn­ing­unni ekki beint, heldur sagði að hún vænti þess að áformin yrðu „yf­ir­farin í stjórn bank­ans þar sem Banka­sýsla rík­is­ins skipar full­trúa rík­is­ins.“

Hún sagð­ist þó vera sam­mála Sig­mundi Davíð um að fyrir dyrum væru eðl­is­breyt­ingar á fjár­mála­starf­semi. „Ég vænti þess að inn­lendir bankar taki mið af því þegar þeir gera áætl­anir sín­ar, hvort sem það er um hús­bygg­ingar eða aðra starf­semi, að við eigum eftir að sjá miklar tækni­breyt­ingar hafa áhrif á starf­semi inn­lendra banka sem vænt­an­lega munu hafa áhrif á áform eins og hátt­virtur þing­maður nefnir hér. Nú þekki ég ekki nákvæm­lega hver umræðan hefur verið í stjórn bank­ans um þessi mál, en það hlýtur að hafa komið inn í þá umræð­u.“

„Þetta eru pen­ingar almenn­ings“

Í jan­úar 2019 var svo greint frá því að fram­kvæmdir við nýju höf­uð­stöðv­arnar væru hafn­ar. Á þessum tíma stóðu yfir harðar kjara­deil­ur, þar sem ný og rótt­tæk for­ysta í verka­lýðs­hreyfin­unni fór mik­inn. Ragnar Þór Ing­ólfs­son, for­maður VR, tjáði sig á Face­book um mál­ið  í lok jan­úar 2019. Þar sagði hann m.a.: „Á meðan um 800 til 1.000 börn búa við óvið­un­andi aðstæður í iðn­að­ar­hús­næðum mætti byggja um 1.500 hag­kvæmar íbúðir fyrir „áætl­aðan" bygg­ing­ar­kostnað við nýjar höf­uð­stöðvar Lands­bank­ans.

Nokkrum dögum síðar sagði hann í sam­tali við Frétta­blaðið um sama mál: „„Við græðum ekk­ert á flott­ræf­ils­hætti í dag. Það eru allir búnir að sjá í gegn um þessa starf­semi. Fjár­mála­kerfið þarf að sýna aðhald, auð­mýkt og vilja til að vinna í sam­fé­lags­legri sátt við umhverf­ið.“ 

Í febr­úar 2019 flutti Gylfi Zoega, pró­fessor í hag­fræði sem situr í pen­inga­stefnu­nefnd Seðla­banka Íslands, erindi á morg­un­verð­ar­fundi Fjár­mála­eft­ir­lits­ins. Gylfi sagði bank­ana vilj­andi setja verð­skrá sína fram með flóknum og óskýrum hætti þannig að neyt­endur ættu ekki mögu­leika á því að bera þær sam­an. Þetta, og önnur óskýr starf­semi bank­anna, skili rentu sem sé ekki notuð til að bæta kjör til almenn­ings heldur til að greiða há laun til starfs­fólks fjár­mála­fyr­ir­tækja, skila miklum hagn­aði og til að byggja nýjar bygg­ing­ar. Þar vís­aði hann til áætl­ana um að byggja nýjar höf­uð­stöðvar Lands­bank­ans við hlið Hörpu. „Lands­banka­húsið er tíu sinnum dýr­ara fyrir Ísland heldur en múr­inn við landa­mæri Mexíkó sem Banda­ríkja­for­seti vill byggja. Af hverju? Þetta eru pen­ingar almenn­ings.“

Þessi gagn­rýni, ekki frekar en önn­ur, breytti nokkru um áform­in. Áætl­aður kostn­aður við nýjar höf­uð­stöðvar Lands­bank­ans, „Klett­inn“, nemur níu millj­örðum króna og stefnt er að því að bank­inn muni flytja inn í þær annað hvort 2021 eða 2022. 

Okur, spilling og græðgi

Rekstur ríkisbankanna hefur legið undir ýmis konar gagnrýni undanfarin ár. Þeir hafa ekki getað verið samkeppnishæfir í húsnæðislánum við lífeyrissjóði. Arðsemi eigin fjár þeirra hefur ekki verið viðunandi. Of hægt hefur gengið að fækka starfsfólki í kerfinu þrátt fyrir að það sé einungis brota af þeirri stærð sem það var fyrir bankahrun og þrátt fyrir þær miklu framfarir sem hafa orðið í stafrænni þjónustu. Á sama tíma hefur útibúanetið dregist verulega saman og frá árinu 2012 hefur útibúum alls fækkað um 25.

Í könnun sem gerð var fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið og birtist með Hvítbók um framtíðarsýn í desember 2018, kom fram að þau orð sem flestum Íslend­ingum dettur í hug til að lýsa banka­kerf­inu á Íslandi eru háir vext­ir/­dýrt/ok­ur, glæp­a­starf­sem­i/­spill­ing og græðgi. Í rann­sókn­inni kom einnig fram að flestir Íslend­ingar ósk­uðu þess að banka­kerfi fram­tíðar yrði sann­gjarnt og rétt­látt, traust, með góða þjón­ustu, hag­kvæmt, heið­ar­legt, gagn­sætt og fyrir almenn­ing.

Kristrún Tinna Gunn­ars­dótt­ir, hag­fræð­ingur hjá Oli­ver Wyman í Sví­­þjóð sem sat í starfs­hópnum sem skrif­aði Hvít­­bókina sagði í við­tali við 21 á Hring­braut í upphafi árs að van­traust fólks á banka­kerf­inu ætti meðal annars rætur í þeim kjörum sem bank­arnir bjóða almenn­ingi upp á og þeirrar hátt­semi sem sé að finna innan bank­anna.

Kristrún Tinna sagði það bæði vera í höndum rík­­is­ins og bank­anna sjálfra að gera breyt­ingar sem stuðli að breyt­ingum sem bæti kjör og lækki vexti. „Bank­­arnir hafa verið í miklum hag­ræð­ing­­ar­að­­gerðum og það er klár­­lega svig­­rúm að mínu mati til þess að gera enn betur.[...]Þetta er þróun sem er að eiga sér stað alls staðar í heim­inum og flestir stærstu bankar Evr­­ópu hafa það efst á for­­gangs­lista sínum að draga úr kostn­aði. Ég held að við þurfum klár­­lega að vinna að því hér á Íslandi lík­­a.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar