Mynd: 123rf.com

Seðlabankann skorti þekkingu á hættumerkjum við peningaþvætti

Mikil áhætta á peningaþvætti fylgdi fjármagnshöftum á Íslandi og þeim leiðum sem valdar voru til að losa um þau. Seðlabanki Íslands þarf að grípa til margháttaðra aðgerða til að draga úr þeirri áhættu, nú nokkrum árum eftir að höftum var að mestu aflétt. Meðal annars á að breyta lögum til að afnema þagnarskyldu vegna gjaldeyriseftirlits.

Mikil áhætta á peningaþvætti fylgdi afléttingu fjármagnshafta á Íslandi, samkvæmt áhættumati ríkislögreglustjóra. Sú áhætta var margþætt og grípa þarf til margháttaðra aðgerða til að laga stöðuna, meðal annars vegna þess að gjaldeyriseftirlit Seðlabankans skortir þekkingu á hættumerkjum og aðferðum við peningaþvætti. Engar lagalegar skyldur hafa hvílt á Seðlabankanum vegna aðgerða gegn peningaþvætti þrátt fyrir að hann haft umsjón með öllu gjaldeyriseftirliti og losun hafta á undanförnum árum þegar hundruð milljarða króna hafa verið flutt til og frá landinu. Þá hefur bankinn ekki getað miðlað þagnarskyldum upplýsingum í tengslum við gjaldeyriseftirlitið til þar til bærra aðila vegna skorts á lagaheimild. 

Í nýbirtri áætlun íslenskra stjórnvalda gegn peningaþvætti sem birt var á vef embættis skattrannsóknarstjóra á mánudag kemur fram að það eigi að bregðast við þessari miklu áhættu á allra næstu vikum og mánuðum.

Vandamálið við áætlunina er að hún er birt í september 2019, en fjarmagnshöftunum, sem höfðu verið við lýði frá því í nóvember 2008, var að mestu verið aflétt 12. mars 2017.

Því liggur fyrir að þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á hinni afar áhættusömu peningaþvættisleiðum sem höftin buðu upp á eru gerðar nokkrum árum eftir að höftin voru tekin niður.

Engar tilkynningar

Í ágúst síðastliðnum birti Seðlabanki Íslands skýrslu um þátt gjaldeyrisútboða í í lausn greiðslujafnaðarvandans sem Íslands stóð frammi fyrir eftir hrun. Bankinn hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir þær leiðir sem hann valdi, sérstaklega hina svokölluðu fjárfestingarleið sem gerði var opin milli áranna 2011 og 2015 fyrir nánast alla þá sem áttu meira en 25-50 þúsund evrur utan hafta á tímabilinu. Með leiðinni gátu þeir sem nýttu hana fengið 20 prósent virðisaukningu á fé sitt, í tilvikum margra leyst út mikinn gengishagnað og fengið lögmæti á peninga sem gæti hafa verið komið undan t.d. réttmætum kröfuhöfum eða skattinum. Í skýrslunni tók bankinn undir flesta þá gagnrýni sem hann hefur fengið á sig vegna fjárfestingarleiðina, meðal annars um að hún hafi mögulega opnað á peningaþvætti.

Það má líkja leiðinni við peningaþvætti í gegnum spilakassa, sem er þekkt fyrirbrigði í undirheimunum. Þá setur sá sem þarf að fá lögmæti á fé það inn í spilakassann/fjárfestingarleiðina, prentar svo strax út vinningsmiðann og lætur þann sem rekur spilakassasalinn leggja ávinninginn inn á sig. „Skítugir“ peningar geta með þessu öðlast lögmæti. 

Alls voru 206 milljarðar króna ferjaðir inn í íslenskt efnahagslíf í gegnum fjárfestingarleiðina. Seðlabankinn taldi það ekki hlutverk sitt að kanna hvort þeir aðilar sem nýttu sér leiðina væru að þvo peninga. Hann sagði það vera hlutverk þeirra banka sem sinntu milligöngu. Þeir sinntu ekki því hlutverki og engin tilkynning barst til peningaþvættisskrifstofu stjórnvalda um mögulegt lögbrot á meðan að leiðin stóð til boða. 

Ekki hlutverk Seðlabanka að útdeila réttlæti

Í skýrslu bank­ans um fjár­fest­ing­ar­leið­ina viðurkenndi bank­inn að aðgerð­inni hafi fylgt „ýmis nei­kvæð hlið­ar­á­hrif, eins og algengt er um aðgerðir af þessu tagi en þau jákvæðu áhrif sem að var stefnt með aðgerð­unum vega þó þyngra á vog­ar­skál­un­um.“ Til­gang­ur­inn, að létta á snjó­hengj­u aflandskróna, hafi því helgað með­al­ið. Seðlabankinn taldi það ekki sitt hlut­verk að útdeila rétt­læti í sam­fé­lag­inu „með því að greina á milli æski­legra og óæski­legra fjár­festa, verð­ugra og óverð­ugra.“ Það væri ekki úrlausn­ar­efni hans. „Þótt deila megi um sann­girni þess var fátt sem Seðla­bank­inn gat gert til þess að stuðla að sann­gjarn­ari útkomu innan þess lag­ara­mma sem hann starfar undir og án þess að ganga gegn því mark­miði aðgerð­anna að stuðla að stöð­ug­leika.“

Árum saman hafa fjölmiðlar kallað eftir því að nöfn þeirra sem fengu að nýta sér leiðina verði birt, en Seðlabankinn hefur borið fyrir sig trúnað. Nú, nokkrum árum eftir að höftum hefur verið aflétt og fjárfestingarleiðinni verið lokað, á að taka á þessari stöðu.

Skorti þekkingu á hættumerkjum

Í aðgerðaráætlun stjórnvalda gegn peningaþvætti kemur fram að það þurfi að breyta lögum um gjaldeyrisviðskipti með þeim hætti að upplýsingaöflun Seðlabanka Íslands taki einnig mið af aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þá er lagt til að bankinn fái heimild til að miðla upplýsingum að eigin frumkvæði til annarra eftirlitsstofnana eða veita þeim miðlægt aðgengi að upplýsingum. Undirbúningur á breytingum á lögum um gjaldeyrismál á að hefjast í nóvember 2019 og honum á að ljúka í maí á næsta ári. Auk þess er lagt til að bæta við fulltrúa frá gjaldeyriseftirliti Seðlabankans í stýrihóp um aðgerðir gegn peningaþvætti. 

Eins og stendur er ekki kveðið á um skyldur Seðlabankans hvað varðar aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í lögum um gjaldeyrismál þegar kemur að eftirliti hans með peningaþvætti. Vegna áðurnefndrar þagnarskyldu sem kveðið er á í lögunum getur bankinn ekki miðlað ákveðnum upplýsingum í tengslum við gjaldeyriseftirlit bankans. 

Þá segir í áætluninni að gjaldeyriseftirlit Seðlabankans skorti „þekkingu á hættumerkjum og aðferðum við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í tengslum við erlendan gjaldeyri.“ Þjálfa þurfi starfsmenn eftirlitsins í þessu. Undirbúningur á að hefjast í október 2019 og frekari námskeið verða haldið í desember 2019.

Áfram verður fjallað ítarlega um aðgerðaráætlun stjórnvalda gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á Kjarnanum næstu daga.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar