Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur samþykkt tillögu tónlistarráðs um úthlutun úr Tónlistarsjóði fyrir fyrra tímabil ársins 2020 sem er frá 1. jan til 30. júní. Tónlistarráð skipa Arndís Björk Ásgeirsdóttir, sem jafnframt er formaður, Ragnhildur Gísladóttir og Sóley Stefánsdóttir.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannís.
Alls bárust 139 umsóknir frá mismunandi greinum tónlistar. Sótt var um rúmar 128 milljónir króna. Til úthlutunar í fyrri úthlutun eru 22.090.000 til 60 verkefna. Hæsta styrkinn 800.000 hlýtur Múlinn jazzklúbbur. Þegar er ráðstafað 25 milljónum til átta fastra þriggja ára samninga, samkvæmt Rannís.
Auglýsing
Hlutverk sjóðsins að efla íslenska tónlist og stuðla að kynningu á íslenskum tónlistarmönnum og tónsköpun þeirra. Veittir eru styrkir til almennrar tónlistarstarfsemi og til kynningar og markaðsetningar á tónlist og tónlistarfólki. Á vefsíðu Rannís kemur fram að styrkir úr Tónlistarsjóði skuli veittir til ákveðinna verkefna og að jafnaði ekki lengur en til eins árs í senn. Að jafnaði sé hvorki gert ráð fyrir styrkveitingum til rekstrar og umsýslu samtaka, fyrirtækja og stofnana, sem hljóta regluleg rekstrarframlög, né til verkefna eða viðburða sem þegar hafa átt sér stað.