Brynhildur Guðjónsdóttir, leikkona og leikstjóri, hefur verið ráðin Borgarleikhússtjóri. Hún tekur við starfinu af Kristínu Eysteinsdóttur. Þetta var tilkynnt á fundi með starfsfólki í dag. RÚV greinir fyrst frá.
Starfið var auglýst þann 16. janúar síðastliðinn en í frétt RÚV kemur fram að stefnt hafi verið að því að nýr leikhússtjóri tæki til starfa við hlið Kristínar Eysteinsdóttur um áramót og tæki síðan alfarið við starfinu þegar síðari ráðningartímabili hennar lyki í júlí á næsta ári. Kristín hafi aftur á móti óskað eftir því í vikunni að fá að hætta fyrr en áætlað var.
Ráðið er í starfið til fjögurra ára, en samkvæmt samþykktum Leikfélags Reykjavíkur er heimilt að endurráða leikhússtjóra í önnur fjögur ár.
Stjórn Leikfélags Reykjavíkur ákvað að birta ekki nöfn þeirra sjö sem sóttu um stöðu Borgarleikhússtjóra. Eggert Benedikt Guðmundsson, formaður stjórnarinnar, sagði það undir hverjum og einum umsækjenda komið hvort hann kysi að greina frá umsókn sinni.
Staða Þjóðleikhússtjóra var auglýst á síðasta ári og sjö sóttu einnig um hana. Magnús Geir Þórðarson, fyrrverandi Borgarleikhússtjóri og Útvarpsstjóri, var ráðinn úr þeim hópi.
Í auglýsingu um stöðu Borgarleikhússtjóra stóð:
„Leikhússtjóri ber listræna ábyrgð á starfsemi leikhússins og rekstrarlega ábyrgð gagnvart stjórn félagsins. Til leikhússtjóra eru gerðar kröfur um menntun á sviði leiklistar auk umfangsmikillar þekkingar og reynslu af starfi leikhúsa.“