Íslensk erfðagreining stendur nú fyrir rannsókn þar sem markmiðið er að rannsaka erfðabreytileika sem hafa áhrif á persónuleika og tengsl þessara eiginleika við heilsufar. Nokkuð hefur borið á því að landsmenn deili nú niðurstöðum sínum á samfélagsmiðlum þar sem eiginleikar eins og jafnlyndi, úthverfa, víðsýni, samvinnuþýði og samviskusemi eru útlistaðir.
Á sérstökum vef fyrir rannsóknina kemur fram að þátttaka taki um 10 til 15 mínútur og feli í sér undirritaða yfirlýsingu um samþykki með rafrænum skilríkjum og að svara rafrænum spurningalista.
Þá er einnig útskýrt hvað persónuleiki sé. „Persónuleiki er yfirleitt skilgreindur sem það mynstur hugsunar, hegðunar og skapgerðar sem einkennir viðkomandi einstakling. Fimm helstu þáttum persónuleika hefur verið lýst með aðgerðum tölfræðinnar, en þeir eru jafnlyndi, úthverfa, víðsýni, samvinnuþýði og samviskusemi. Í þessari rannsókn beinum við sjónum okkar fyrst og fremst að þessum fimm þáttum, en að auki skoðum við sjálfsstjórn sem vísar til getunnar til þess að stýra eigin hegðun.“
Heimild til að samkeyra dulkóðaðar upplýsingar um þátttakandann
Í samþykkinu felst heimild til að samkeyra dulkóðaðar upplýsingar um þátttakandann við öll önnur dulkóðuð rannsóknargögn Íslenskrar erfðagreiningar og til að nálgast upplýsingar úr gögnum heilbrigðisstofnana sem gagnast rannsókninni. „Ef þú hefur ekki gefið lífsýni áður vegna þátttöku í rannsóknum Íslenskrar erfðagreiningar verður þér boðið að koma síðar í þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna til að gefa lífsýni og undirrita upplýst samþykki. Þér mun þá einnig gefast kostur á þátttöku í lífssýnasafni Íslenskrar erfðagreiningar með undirritun sérstaks lífsýnasafnssamþykkis, sem heimilar að sýni og gögn megi nota til annarra rannsókna sem hlotið hafa leyfi Vísindasiðanefndar,“ segir á vefnum.
Rannsóknin hefur enn fremur hlotið leyfi Vísindasiðanefndar. Þá kemur fram hjá fyrirtækinu að gildi rannsóknarinnar snúi fyrst og fremst að aukinni þekkingu á erfðaþáttum sem tengjast persónuleika og þar með starfsemi heilans. Allir 18 ára og eldri geta tekið þátt.
Ávinningur af þátttökunni er samkvæmt Íslenskri erfðagreiningu sá að við lok hennar fái þátttakendur upplýsingar um hvernig persónuleiki þeirra sé í samanburði við aðra og hver staða þeirra sé á þeim fimm persónuleikaþáttum sem nefndir voru áðan.
Svörum þátttakenda er eytt af vefþjóni eftir tvær vikur en eftir það verður ekki hægt að skoða niðurstöðurnar á netinu, segir á vefsíðu þeirra. „Fyllsta trúnaðar verður gætt, en rannsakendur eru bundnir trúnaði og þagnarskyldu varðandi þær upplýsingar sem þú veitir.“ Enn fremur kemur fram að hægt sé að hafna eða hætta skilyrðislaust þátttöku í rannsókninni hvenær sem er.