Stærsta markaðstorg fyrir verslun á netinu í Asíu, Alibaba, hefur fundið harkalega fyrir kóróna-veirunni (CVID19) og áhrifum hennar á gang efnahagsmála í Kína.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Alibaba sendi frá sér í gær, og Bloomberg gerði að umtalsefni. Þessar upplýsingar frá Alibaba þykja sýna, að veiran hefur haft gríðarleg áhrif í Kína, jafnvel meiri en margir höfðu áttað sig, þegar kemur efnahagslegum áhrifum.
Mikill vöxtur var á síðustu þremur mánuðum ársins hjá Alibaba, eða 58 prósent frá fyrra ári, en að undanförnu hefur verslun hrunið, og jafnvel talið, að samdráttur verði mældur í tugum prósenta á næstu mánuðum, sem er hröð og mikil breyting þvert á þá undirliggjandi þróun sem hefur verið í Kína þegar kemur að netverslun.
Þrátt fyrir að Alibaba hefði komið mörgum greinendum á óvart, með góðum árangri og vexti á síðustu þremur mánuðum ársins, þá fór mesta púðrið í tilkynningu fyrirtækisins í það að útskýra hvers vegna næstu mánuðir gætu orðið erfiðir fyrir Alibaba og kínverska hagkerfið í heild.
Stórkostlega hefur dregið úr umsvifum í Kína, vegna kórónaveirunnar, en hún hefur haft þau áhrif, að fólk verslar mun minna, heldur sig heima, og reynir að haga sér þannig, að það smitist ekki eða stuðli að frekari útbreiðslu veirunnar.
Kínversk stjórnvöld hafa á mörgum svæðum gefið út strangar leiðbeiningar um hvernig fólki eigi að haga sér, einkum á svæðum í kringum Wuhan, þar sem uppruni veirunnar er.
Til þess að hefta útbreiðslu veirunnar hefur meðal annars verið gripið til útgöngubanns á tugmilljóna borgarsvæðum, með tilheyrandi lamandi áhrifum á verslun og þjónustu.
Samkvæmt umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC hafa nú 1.523 látist vegna veirunnar, en yfir 66 þúsund smitast. Fyrsta dauðsfallið í Evrópu, vegna veirunnar, hefur verið staðfest, en það var áttræður Kínverji, sem var að koma frá Hubei sem ferðamaður, sem lést.