Bankasýsla ríkisins hefur komið þeim sjónarmiðum á framfæri við bankaráð Landsbankans að mikilvægt sé fyrir bankanna að draga úr fjárhagslegri áhættu vegna byggingar nýrra höfuðstöðva Landsbankans við hlið Hörpu. „Fyrirhuguð framkvæmd hefur ekki verið borin undir hluthafafund bankans og hefur því framkvæmdin ekki komið til samþykktar eða synjunar Bankasýslu ríkisins enda ákvörðun um framkvæmdina alfarið á höndum bankaráðs“.
Þetta kemur fram í svari Bankasýslu ríkisins, sem heldur á eignarhlut ríkissjóðs í Landsbankanum, sem er að finna í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar, þingmanns Miðflokksins, um byggingu nýju höfuðstöðvanna. Fyrirspurnin, sem er í ellefu liðum, var fyrst lögð fram 20. mars 2019 en ítrekuð í nóvember í fyrra.
Áætlaður kostnaður við byggingu höfuðstöðvanna var upphaflega níu milljarðar króna. Nú þegar framkvæmdir eru hafnar liggur hins vegar ljóst fyrir að hann hefur hækkað, og áætlað er að heildarkostnaður verði 11,8 milljarðar króna. Það er 2,8 milljörðum krónum meira en upphafleg kostnaðaráætlun, sem lögð var fram þegar samþykkt var að ráðast í bygginguna í maí 2017, gerði ráð fyrir.
Kjarninn fjallaði ítarlega um áformin í fréttaskýringu sem birtist í september síðastliðnum. Þar kom meðal annars fram að Bankasýsla ríkisins, sem fer með hlut ríkissjóðs í Landsbankanum hefði ekki haft neina aðkomu að þeirri ákvörðun að reisa nýju höfuðstöðvarnar.
Það hefur heldur ekki þótt tilefni til að bera byggingu höfuðstöðva undir hluthafafund, þar sem eini alvöru hluthafinn, íslenska ríkið, gæti sagt sína skoðun á áformunum.
Ákvörðunin um að ráðast í framkvæmdirnar, sem áætlað var að myndu kosta um níu milljarða króna, hækkaði svo í tíu milljarða króna en eru nú orðnir tæpir tólf milljarðar króna, var því tekin án aðkomu fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem heldur á hlutabréfum íslenska ríkisins í bankanum og stofnunarinnar sem fer með þann eignarhlut.
Svör Bjarna við fyrirspurn Birgis staðfesta þetta.
Ekki hlutverk ráðherra að ákveða
Birgir spurði fjármála- og efnahagsráðherra einnig um hvort að það kæmi til greina að hans hálfu að falla frá áformunum um byggingu höfuðstöðvanna og selja lóðina sem þær rísa á. Í svari Bjarna segir að það sé ekki hlutverk ráðherra að ákveða hvort fallið skuli frá umræddum byggingaráformum, heldur Bankasýslu ríkisins.
Því virðist það vera skýr afstaða ráðherrans og Bankasýslu ríkisins að það sé bankaráðs og stjórnenda Landsbankans að ákveða hvort að ráðast skuli í byggingu sem þessa. Bankaráðið, sem í sitja sjö manns, situr í umboði Bankasýslu ríkisins.
Áætlaður kostnaður af hluta bankans 7,5 milljarðar
Landsbankinn áætlar að kostnaður við þann hluta húsnæðisins sem bankinn muni nýta, alls um tíu þúsund fermetra (um 60 prósent af húsinu) sé áætlaður um 7,5 milljarðar króna. Bankinn mun flytja starfsemi úr tólf húsum í miðborginni ásamt stærstum hluta Borgartúns 33 undir eitt þak í nýju húsi. Því mun fylgja mikið hagræði að mati bankans sem áætlar að árlegur sparnaður bankans muni nema um 500 milljónum króna, einkum vegna lækkunar á húsaleigu og kostnaði við rekstur og viðhald húsnæðis „auk þess sem verkefnamiðuð vinnuaðstaða í nýja húsnæðinu mun gefa kost á aukinni skilvirkni í starfseminni.“
Til stendur að leigja frá sér eða selja 40 prósent af húsinu eftir að það rís. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um um hvort sá hluti hússins sem bankinn mun ekki nýta verði seldur eða leigður en bankinn reiknar með að sala eða leiga standi undir stofnkostnaði við þann hluta hússins.
Birgir spurði Bjarna einnig af því hversu mikið mætti gera ráð fyrir að starfsmönnum bankans myndi fækka á næstu tíu árum vegna breytinga á bankastarfsemi. í svari sem Landsbankinn skilaði inn til ráðherrans sagði að 1. janúar 2019 hafi verið 760 stöðugildi á höfuðborgarsvæðinu. „Þar af voru tæplega 670 stöðugildi vegna starfsemi sem gert er ráð fyrir að sameinist undir einu þaki í nýju húsi. Ekki er hægt að segja nákvæmlega til um þróun starfsmannafjölda næstu árin en ljóst er að bankastörfum er að fækka. Einn af meginkostunum við húsið sem verið er að reisa er að það býður upp á sveigjanleika í notkun þannig að bankinn getur ýmist nýtt stærri eða minni hluta þess.“