Aðeins helmingur landsmanna telur að fréttir af alvarleika hlýnunar jarðar séu almennt réttar. Aðrir skiptast í tvær fylkingar þar sem ríflega fjórðungur telur að þær séu almennt ýktar og nær fjórðungur telur að þær séu almennt vanmetnar.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri umhverfiskönnun Gallup. Hlutfall þeirra sem telja að fréttir af alvarleika hlýnunar jarðar séu almennt ýktar er hærra nú en fyrir tveimur árum.
Karlar halda frekar en konur að fréttir af alvarleika hlýnunar jarðar séu almennt ýktar, en um þriðjungur karla telur þær vera það. Fólk á aldrinum 45-66 ára telur sömuleiðis frekar en aðrir aldurshópar að fréttirnar séu almennt ýktar.
Í tilkynningu frá Gallup í síðustu viku kom fram að greina mætti almenna viðhorfsbreytinguvarðandi ástæður fyrir hlýnun jarðar. Þeim Íslendingum fjölgar sem telja að hækkun á hitastigi jarðar síðustu öld sé meira vegna náttúrulegra breytinga í umhverfinu. Nú telja 23 prósent landsmanna að svo sé en 66 prósent telja hækkunina vera vegna mengunar af mannavöldum.
Umhverfiskönnun Gallup verður á Umhverfisráðstefnu Gallup í Hörpu á morgun, 19. febrúar. Í rannsókninni voru landsmenn spurðir um viðhorf og hegðun í tengslum við umhverfismál og loftslagsbreytingar. Ráðstefnan er haldin í samstarfi við Krónuna, Reykjavíkurborg, Arion banka, Landsvirkjun, Umhverfisstofnun, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Icelandair Hotels.