Fundi vegna kjaradeilu félagsmanna Eflingar og Reykjavíkurborgar, sem haldinn var hjá Ríkissáttasemjara í dag, er lokið. Áfram verður fundað á morgun, miðvikudag.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu.
Samkvæmt Eflingu lagði samninganefnd þeirra fram á fundinum útfærðar hugmyndir að lausn deilunnar. Þá kemur fram í tilkynningu frá stéttarfélaginu að samninganefndin viðhafi trúnað um þær hugmyndir að svo stöddu.
„Samninganefnd Eflingar hefur fundað stíft síðustu daga ásamt starfsfólki og trúnaðarmönnum til að útfæra og ná sátt um tillögur. Er þetta í þriðja sinn sem samninganefnd Eflingar leggur fram tillögur til lausnar á deilunni,“ segir í tilkynningu Eflingar.
„Þurfum að ná einhverri sátt“
Ótímabundið verkfall félagsmanna Eflingar hófst í gær en það hefur töluverð áhrif á starf leikskóla, velferðarþjónustu og sorphirðu í borginni.
Harpa Ólafsdóttir, formaður samningnefndar borgarinnar, sagði í samtali við RÚV fyrir fundinn að auðvitað hefði verkfallið gríðarleg áhrif á þjónustu sem borgin veiti, „það er náttúrlega alveg augljóst, en við þurfum að horfa á heildarmyndina og nú er BSRB farið í atkvæðagreiðslu líka og þeirra kröfur eru ekki alveg samrýmanlegar við þær kröfur sem Efling er með, þannig að þetta er snúið. En við þurfum að ná einhverri sátt, heildarsátt, og það er verkefnið framundan.“