Efling

Baráttan í borginni harðnar

Eftir endurnýjun og upprisu verkalýðsbaráttunnar á Íslandi árin 2017 og 2018 mátti greina nýjan baráttuanda þeirra lægst launuðu. Hugur var í fólki að breyta kjörum þannig að allir gætu lifað sómasamlegu lífi af launum og þegar lífskjarasamningarnir voru undirritaðir í fyrra – í skugga falls WOW air – héldu sumir að sátt væri í nánd. Nú kveður þó við annan tón og hefur Efling heldur betur hrist upp í umræðum um höfrungahlaup, lífskjarasamninga og menntamál.

Félagar stétt­ar­fé­lags­ins Efl­ingar sem starfa hjá Reykja­vík­ur­borg fara í þriðja verk­fallið klukkan 12:30 í dag og mun það standa til mið­nættis fimmtu­dag­inn næst­kom­andi ef ekki verður samið á þeim tíma. Um 1.850 manns í Efl­ingu starfa hjá borg­inni á um 129 starfs­stöðv­um. Samn­inga­fundi í deil­unni var frestað í gær með stuttum fyr­ir­vara en Ást­ráður Har­alds­son, settur rík­is­sátta­semj­ari, sagði í sam­tali við frétta­stofu RÚV að fund­ar­höld hefðu ekki verið talin lík­leg til árang­urs. Ekki hefur verið boðað til nýs samn­inga­fund­ar.

Aðgerðir Efl­ingar í borg­inni hafa vakið hörð við­brögð og skapað umræðu um höfr­unga­hlaupið svo­kall­að, lífs­kjara­samn­ing­ana sem und­ir­rit­aðir voru í fyrra og launa­mun milli ófag­lærðra og mennt­aðra. Kjara­bar­átta starfs­manna Reykja­vík­ur­borgar í Efl­ingu ýtir undir sam­ræður um það hvernig Íslend­ingar vilja hafa sam­fé­lagið sitt og þrátt fyrir að flestir séu sam­mála um að þeir sem minnst hafa milli hand­anna lifi sóma­sam­legu lífi á laun­unum þá er deilt hart um útfærsl­urnar og leiðir til þess að jafna kjör fólks.

Áhrif verk­falls­ins víð­tæk

Sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá Reykja­vík­ur­borg mun verk­fallið hafa áhrif á rúm­lega helm­ing leik­skóla­barna í borg­inni eða um 3.500 börn. Verk­fallið hefur einnig áhrif á 1.650 not­endur vel­ferð­ar­þjón­ustu borg­ar­innar auk þess sem sorp­hirða frest­ast í þeim hverfum þar sem tæm­ing á að fara fram sam­kvæmt sorp­hirðu­daga­tali.

Mest verða áhrif verk­falls­að­gerða Efl­ing­ar­fólks á leik­skól­ana auk mat­ar­þjón­ustu í grunn­skól­um. Þeim börnum sem fá vistun í leik­skólum verður skipt upp í hópa, einn fyrir hádegi og annan eftir hádegi. Fyr­ir­séð er, sam­kvæmt Reykja­vík­ur­borg, að mat­ar­þjón­usta í ein­hverjum grunn­skólum borg­ar­innar raskast og þurfa nem­endur þar að koma með nesti í skól­ann.

Fram kemur hjá borg­inni að vel­ferð­ar­svið hafi fengið und­an­þágur frá verk­falls­að­gerðum fyrir starfs­fólk Efl­ingar sem sinnir við­kvæm­ustu þjón­ust­unni sem snýr að umönnun fatl­aðs fólks, barna, aldr­aðra á hjúkr­un­ar­heim­ilum og í heima­hús­um, barna og fólks sem þarf á neyð­ar­þjón­ustu að halda í gisti­skýl­um. Eftir því sem verk­falls­tím­inn leng­ist muni það hafa meiri áhrif á þá sem njóta vel­ferð­ar­þjón­ustu frá borg­inni. Þrif á heim­ilum fatl­aðs fólks og aldr­aðra muni falla nið­ur, sömu­leiðis aðstoð við böð­un. Ekki verður hægt að kaupa mál­tíðir á félags­mið­stöðvum og þá verður dagdvöl aldr­aðs fólks í Þorra­seli lokuð á meðan verk­falli stend­ur.

Hjá Sorp­hirð­unni frest­ast þjón­usta en að auki er vetr­ar­þjón­ustu eins og hálku­vörnum og snjó­hreinsun ekki sinnt á meðan verk­fall stendur yfir. Þá er ekki hreinsað í kringum grennd­ar­stöðvar og ruslastampar ekki tæmd­ir.

Mest verða áhrif verkfallsaðgerða Eflingar á leikskólana auk matarþjónustu í grunnskólum.
Pixabay

Stuðn­ingur úr ýmsum áttum

Fyr­ir­séð er að verk­föll hóps af þess­ari stærð­argráðu muni hafa gríð­ar­leg áhrif enda er það mark­miðið með slíkum aðgerð­um. Þeir sem stutt hafa aðgerðir Efl­ingar eru meðal ann­ars Kenn­ara­­sam­­band Ís­lands en það hvetur fé­lags­­menn sína til að ganga ekki störf fé­lags­­manna Efl­ing­ar. Í yfir­lýs­ingu á vef Kenn­ara­sam­bands­ins segir að það sé réttur vinn­andi stétta að hafa sjálf­­stæðan samn­ings­­rétt. Þá hefur BSRB lýst yfir stuðn­ingi við verk­falls­að­gerðir Efl­ingar en í til­kynn­ingu frá þeim kemur fram að sjálf­stæður samn­ings­réttur sé grund­vall­ar­réttur launa­fólks og verk­falls­rétt­ur­inn öfl­ug­asta vopnið í kjara­bar­átt­unni.

VR hefur einnig lýst yfir stuðn­ingi við bar­áttu Efl­ing­ar. Í stuðn­ings­yf­ir­lýs­ingu félags­ins kemur meðal ann­ars fram: „Lyk­il­at­riðið í kröfum Efl­ingar er leið­rétt­ing á kjörum lægst laun­uðu starfs­manna borg­ar­innar sem nú eru á launum sem duga ekki til fram­færslu. Að geta lifað með mann­legri reisn af launum sínum hlýtur að vera eitt grund­vallar mann­rétt­inda- og bar­áttu­mál verka­lýðs­hreyf­ing­ar­inn­ar.”

Mið­stjórn Alþýðu­sam­bands Íslands hefur jafn­framt lýst yfir fullum stuðn­ingi við verk­falls­að­gerð­irn­ar. „Kjara­samn­ing­arnir sem gerðir voru fyrir ári síðan fólu í sér þá sýn að leið­rétta lægstu laun­in, jafna kjörin og auka almenn lífs­gæði. Verum trú þeirri sýn og þeirri veg­ferð! Mið­stjórn ASÍ hvetur félags­menn allra aðild­ar­sam­taka sinna og annað launa­fólk til að virða aðgerðir Efl­ingar og stuðla að því að verk­falls­brot verði ekki fram­in,“ sagði í til­kynn­ingu frá ASÍ í síð­ustu viku.

Stytt­ing vinnu­viku ekki nógu fram­ar­lega í umræð­unni

Þó hafa ekki allir stutt aðferða­fræði Efl­ingar í borg­inni og má þar nefna þing­mann Pírata, Björn Leví Gunn­ars­son, en hann sagði á Face­book í síð­ustu viku að það væri him­inn og haf milli þess að styðja Efl­ingu og að styðja lág­launa­fólk. „Þetta tvennt er ekk­ert það sama, þó félags­menn Efl­ingar séu auð­vitað lág­launa­fólk, þá er það tvennt ólíkt; félagið og starf þess og félags­menn. Ég get alveg sagt að staðan núna sé afleið­ing ára­tuga af mis­heppn­uðum samn­inga­við­ræðum um kaup og kjör. Launin ættu að vera hærri en þau eru og vinnu­tím­inn styttri. Ég var til dæmis einu sinni í verk­falli í nokkrar mín­útur áður en samn­ingar náð­ust við leik­skóla­kenn­ara sem mér fannst ein­fald­lega léleg­ir. Leik­skóla­kenn­arar áttu mun hærri laun skilið en feng­ust í þeim samn­ing­um,“ skrif­aði hann.

Hann telur að þær launa­kröfur sem nú sé verið að gera líti ágæt­lega út. Þó sé stytt­ing vinnu­viku ekki nógu fram­ar­lega í umræð­unni og sú stytt­ing sem hafi náðst í lífs­kjara­samn­ing­unum sé „drasl“. Hún hafi í raun verið til­færsla á pásum en ekki eig­in­leg stytt­ing vinnu­tíma.

Styður lág­launa­fólk en ekki Efl­ingu

Björn Leví telur að „áróð­urs­her­ferð­in“ sem sé í gangi núna hjá Efl­ingu sé ekki eitt­hvað sem hann geti stutt. „Þar krist­all­ast kannski helst mun­ur­inn á því að ég styð lág­launa­fólk en ekki Efl­ingu. Á meðan ég vona að þau nái góðum samn­ingum þá get ég ekki stutt aðferð­ina.

Almennt séð þá helgar til­gang­ur­inn ekki með­al­ið. Vanda­málið er að í stjórn­málum þá er með­alið oft ansi beiskt, jafn­vel úld­ið, en fær að við­gang­ast í skjóli leynd­ar­hyggju og falsks „trún­að­ar“. Það er sífellt verið að búa til vett­vang þar sem hægt er að draga fram öll vopn­in; til­finn­ingarök­in, útúr­snún­inga, hót­an­ir, ... allt sam­an,“ skrif­aði þing­mað­ur­inn. Hann gerir þó athuga­semd og segir að þarna sé hann almennt að tala um stjórn­mál en ekki núver­andi kjara­deilu. Það sé hins vegar margt sem hann sjái sem slær á þær nótur í umræð­unni. Þess vegna sé hann efins, ekki um kjara­bæt­urnar heldur um með­al­ið.



„Póli­tísk taktík nýsós­í­alist­anna“

Einar Kára­son, rit­höf­undur og vara­þing­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, bland­aði sér einnig í málið í síð­ustu viku en hann skrif­aði á Face­book: „Í fyrra þegar kjara­samn­ingar voru lausir og allt stefndi í verk­föll voru komnir ofur­rót­tækir for­ingjar í Efl­ingu og VR og fleiri félög sem sögð­ust ætla í gler­hart og heimt­uðu 40 til 50 pró­sent hækk­un. Sjálfur sat ég þá fáeinar vikur á þingi og fann þar mjög fyrir spenn­unni og óviss­unni; ef færi allt í verk­föll og ósveigj­an­legar kröfur yrði ástand mjög eld­fimt póli­tískt og sam­fé­lags­lega – sér­stak­lega voru stjórn­ar­þing­menn á nál­u­m.“

Hann sagði að áður en nokkuð hafði farið af stað hefðu verið und­ir­rit­aðir „hóf­sam­ir“ samn­ingar um lágar pró­sentur en betri lífs­kjör en þarna vísar hann í lífs­kjara­samn­ing­ana. „Og maður fékk á til­finn­ing­una að hinir ofur­rót­tæku hefðu bara lypp­ast nið­ur. Síðan hafa lífs­kjara­samn­ing­arnir verið fyr­ir­myndin fyrir alla launa­hópa, þar til nú að í einu sveit­ar­fé­lagi lands­ins á að láta sverfa til stál­s!“

Einar hélt áfram: „Þar á að vaða í hörð átök, stoppa leik­skóla og sorp­hirðu og sam­göngur og flest ann­að, ef ekki fást 40 pró­sent hækk­anir lægstu launa. Gott og vel, allt það fólk sem fengi þá hækkun er meira en vel að henni kom­ið. En ein­hvern veg­inn blasir samt við að hér sér póli­tísk taktík nýsós­í­alist­anna í gangi. Og að hún sé þessi: Vöðum í vinstri­meiri­hlut­ann í Reykja­vík! Og sam­fylk­ing­ar­mann­inn sem þar er í for­ystu. Sýnum þá sem stéttsvik­ara og hat­urs­menn lág­launa­fólks, það mun skila okkur árangri í næstu kosn­ing­um.“

Baráttufundur Eflingar 4. febrúar 2020
Efling

Höfr­unga­hlaupið alræmda

Eftir að ljóst var að samn­inga­við­ræður Efl­ingar og Reykja­vík­ur­borgar myndu ekki bera árangur hófst upp umræða um höfr­unga­hlaupið svo­kall­að, það er að ef einn hópur fær ákveðna launa­hækkun þá muni það hafa áhrif á kjara­samn­inga ann­arra hópa í sam­fé­lag­inu.

Viðar Þor­steins­son, fram­­kvæmda­­stjór­i Efl­ing­ar, svar­aði pæl­ingum um hvort launa­hækk­anir myndu valda slíku höfr­unga­hlaupi á Face­­book-­­síðu sinni í lok jan­ú­ar. Hann sagði að slíkt myndi ger­­ast þegar hópar á með­­al­­launum og háum launum tækju til sín launa­hækk­­­anir lægra laun­aðra hópa í pró­­sentum og fengju þannig út hærri krón­u­­tölu­hækk­­­anir fyrir sig. Þannig leiddu hækk­­­anir lægstu launa ekki til breyttrar sam­­setn­ingar á launa­­stig­an­um, og ekki til jöfn­uð­­ar.

„Höfr­unga­hlaup er ekki þegar lægstu laun eru hækkuð með stig­­lækk­­andi krón­u­­tölu­hækk­­unum ein­­göngu á neðsta bili launa­ska­l­ans. Það er hnit­miðuð aðgerð sem leiðir til auk­ins jöfn­uð­­ar. Hún er and­­stæðan við höfr­unga­hlaup. Í slíkri aðgerð er ekk­ert, hvorki pró­­senta né krón­u­tala, sem hærra laun­uðum hópum býðst að end­­ur­taka,“ skrif­aði hann.

Þá telur hann að slíka aðgerð hjá einu stétt­­ar­­fé­lagi megi end­­ur­­taka hjá öðrum stétt­­ar­­fé­lögum með félags­­­menn á sömu launa­bil­um, án þess að það feli í sér höfr­unga­hlaup.

Rík krafa að meta menntun til launa

Dagur B. Egg­erts­son borg­ar­stjóri kom í Silfrið síð­ast­lið­inn sunnu­dag en þar sagði hann að launa­munur ófag­lærðra og háskóla­mennt­aðra yrði að vera til stað­ar, rík krafa væri um að menntun væri metin til launa í sam­fé­lag­inu. Því gæti borgin ekki fall­ist á launa­kröfur Efl­ing­ar.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Birgir Þór Harðarson

Hann sagði í við­tal­inu að staðan væri ein­stak­lega erf­ið. „Ég hef miklar áhyggjur af henni. Hluti vand­ans er for­ystu­leysi. Það er eng­inn að útskýra hvað verka­lýðs­hreyf­ing­in, vinnu­veit­endur og rík­is­stjórnin var að gera síð­asta vor. Hvað það felur í sér.“

Borg­ar­stjór­inn sagði enn fremur að hann gæti sagt hisp­urs­laust að sú nálgun að hækka lægstu laun í lífs­kjara­samn­ing­unum félli honum í geð. „Ég sé bara fram á það að ef ég myndi fram að ítr­ustu kröf­unum þá væru launin komin mjög nálægt háskóla­mennt­uðum hóp­um, eins og leik­skóla­kenn­ur­um, hjúkr­un­ar­fræð­ingum og fleirum, og það yrði aldrei friður um það. Það er líka rík krafa um það að meta menntun til launa.“

Lág­launa­kon­urnar bera ábyrgð á öllu

Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, for­maður Efl­ing­ar, skrif­aði aðsenda grein og birti á Kjarn­anum í aðdrag­anda verk­falls­að­gerða í síð­ustu viku. Þar sagði hún: „Að­eins tvennt hefði getað komið í veg fyrir verk­­föll í borg­inni. Að við héldum áfram að halda kjafti og vinna eða að borg­­ar­yf­­ir­völd príl­uðu niður úr turn­inum sem þau dvelja í til að mæta kröfum okkar af rétt­­læti og sann­­girni.

Hið fyrra er sög­u­­legur ómög­u­­leiki á þess­­ari stundu. Hið síð­­­ara grein­i­­lega líka; hrörnun hug­­sjóna jafn­­að­­ar­­mennsk­unnar er svo langt gengin að jafn­­að­­ar­­menn með ára­tuga reynslu af stjórn­­­málum geta talið sjálfum sér trú um að þeim komi kjara­­mál ekki við.“

Sól­veig Anna telur að allir þvoi hendur sínar af því að bera ábyrgð á afkomu lág­­launa­­kon­unnar á íslenskum vinn­u­­mark­aði. En hún skuli þó á end­­anum bera ábyrgð á öllu. „Höfr­unga­hlaupi, verð­­bólgu, geng­is­hruni; lág­­laun­­konan sem hræð­i­­leg mara, ógæfa Íslands. Fram­­kvæmd­­ar­­stjóri SA, stað­­settur efst á hrúgu efn­is­­legra gæða, brjálast. „Fram­­ganga Efl­ingar eru svik við hags­muni yfir­­­gnæf­andi meiri­hluta þjóð­­ar­inn­­ar.“ Hags­munir yfir­­­gnæf­andi meiri­hluta þjóð­­ar­innar eru að lág­­launa­­konan haldi áfram að sam­­þykkja að hún sé einskis virði. Allt annað er van­virð­ing við Lífs­kjara­­samn­ing­inn,“ skrif­aði hún. 

Kröf­urnar ná ekki fram að ganga gagn­vart lærðum leik­skóla­kenn­urum

Það má því ljóst vera að kjara­deilur Efl­ingar og Reykja­vík­ur­borgar eru í hnút. Harpa Ólafs­dótt­ir, for­maður samn­inga­nefndar Reykja­vík­ur­borg­ar, sagði í sam­tali við RÚV í síð­ustu viku að kröfur Efl­ingar myndu aldrei ná fram að ganga, til að mynda gagn­vart lærðum leik­skóla­kenn­ur­um. Hún sagði að það bæri svo­lítið í milli samn­ings­að­ila. „Ef við sjáum ómögu­leika í því að ganga frá kjara­samn­ingi við Efl­ingu út frá öðrum hópum þá stoðar verk­fall ekk­ert.“

Hún sagði að við­ræð­urnar strönd­uðu á því að Efl­ing gerði kröfu um hækk­anir sem væru umfram lífs­kjara­samn­ing­inn. „Auk þess að þeir sem að eru á hærri launum – við getum nefnt stóra kvenna­hópa hjá okk­ur, leik­skóla­kenn­ara sem dæmi – þeir væru að fá 50 þús­und króna minni hækkun á sína taxta. Þetta er eitt­hvað sem við metum sem svo að myndi aldrei ná fram að ganga.“

Við­brögð meiri­hlut­ans

Borg­ar­ráðs­full­trúar Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, Við­reisn­ar, Pírata og Vinstri grænna lögðu fram bókun um málið á fundi borg­ar­ráðs Reykja­víkur þann 30. jan­úar síð­ast­lið­inn. Í henni segir að umboð samn­inga­nefndar Reykja­víkur sé ótví­rætt. Ekk­ert kalli á breyt­ingu á því að samið sé um kaup og kjör ann­ars staðar en við samn­inga­borð­ið.

„Staðan er aug­ljós­lega við­kvæm en mik­il­vægt er að sú sam­staða haldi sem lífs­kjara­samn­ing­arnir stað­festu síð­asta vor. Samn­ing­arnir voru und­ir­rit­aðir af allri verka­lýðs­hreyf­ing­unni og Sam­tökum atvinnu­lífs­ins. Auk þess var í lífs­kjara­samn­ingnum sér­stök yfir­lýs­ing rík­is­stjórn­ar­innar um tekju­skatt, fæð­ing­ar­or­lof, barna­bæt­ur, hús­næð­is­mál, líf­eyr­is­mál, félags­leg und­ir­boð, hag­stjórn, verð­lag og verð­trygg­ingu ásamt ein­földun reglu­verks og eft­ir­lits. Þá hefur lífs­kjara­samn­ing­ur­inn þau skýru ákvæði að lægstu laun hækki umfram önnur laun. Til­boð borg­ar­innar í öllum við­ræðum hafa end­ur­speglað áherslur lífs­kjara­samn­ing­ana enda hafa öll verka­lýðs­fé­lög lands­ins sem lokið hafa samn­ing­um, samið á grunni þeirra, bæði við und­ir­ritun og í þeirri samn­inga­lotu sem nú stendur yfir,“ segir í bókun meiri­hlut­ans.

Efl­ing gerði athuga­semdir við yfir­lýs­ing­una á vef­síðu sinni í byrjun febr­ú­ar. „Efl­ing vill benda á að það sam­þykki sem félags­menn Efl­ingar á almennum vinnu­mark­aði gáfu við kjara­samn­ingi Efl­ingar og SA með atkvæða­greiðslu í apríl 2019 felur ekki í sér sam­þykki á einu eða neinu fyrir hönd félags­manna Efl­ingar sem starfa hjá Reykja­vík­ur­borg. Efl­ing­ar­fé­lagar hjá borg­inni starfa undir eigin kjara­samn­ingi og hafa sjálf­stætt samn­ings­um­boð sem varið er af lögum og stjórn­ar­skrá. Þeir greiddu ekki atkvæði um samn­ing á almennum vinnu­mark­aði og komu ekki að gerð hans. Und­ir­ritun kjara­samn­ings á almennum vinnu­mark­aði fyrir tæpu ári bindur því ekki hendur samn­inga­nefndar Efl­ingar gagn­vart Reykja­vík­ur­borg. Efl­ing óskar þess að samn­ings­um­boð félags­manna sé virt,“ segir á vef Efl­ing­ar.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar