Efling

Baráttan í borginni harðnar

Eftir endurnýjun og upprisu verkalýðsbaráttunnar á Íslandi árin 2017 og 2018 mátti greina nýjan baráttuanda þeirra lægst launuðu. Hugur var í fólki að breyta kjörum þannig að allir gætu lifað sómasamlegu lífi af launum og þegar lífskjarasamningarnir voru undirritaðir í fyrra – í skugga falls WOW air – héldu sumir að sátt væri í nánd. Nú kveður þó við annan tón og hefur Efling heldur betur hrist upp í umræðum um höfrungahlaup, lífskjarasamninga og menntamál.

Félagar stéttarfélagsins Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg fara í þriðja verkfallið klukkan 12:30 í dag og mun það standa til miðnættis fimmtudaginn næstkomandi ef ekki verður samið á þeim tíma. Um 1.850 manns í Eflingu starfa hjá borginni á um 129 starfsstöðvum. Samningafundi í deilunni var frestað í gær með stuttum fyrirvara en Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari, sagði í samtali við fréttastofu RÚV að fundarhöld hefðu ekki verið talin líkleg til árangurs. Ekki hefur verið boðað til nýs samningafundar.

Aðgerðir Eflingar í borginni hafa vakið hörð viðbrögð og skapað umræðu um höfrungahlaupið svokallað, lífskjarasamningana sem undirritaðir voru í fyrra og launamun milli ófaglærðra og menntaðra. Kjarabarátta starfsmanna Reykjavíkurborgar í Eflingu ýtir undir samræður um það hvernig Íslendingar vilja hafa samfélagið sitt og þrátt fyrir að flestir séu sammála um að þeir sem minnst hafa milli handanna lifi sómasamlegu lífi á laununum þá er deilt hart um útfærslurnar og leiðir til þess að jafna kjör fólks.

Áhrif verkfallsins víðtæk

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg mun verkfallið hafa áhrif á rúmlega helming leikskólabarna í borginni eða um 3.500 börn. Verkfallið hefur einnig áhrif á 1.650 notendur velferðarþjónustu borgarinnar auk þess sem sorphirða frestast í þeim hverfum þar sem tæming á að fara fram samkvæmt sorphirðudagatali.

Mest verða áhrif verkfallsaðgerða Eflingarfólks á leikskólana auk matarþjónustu í grunnskólum. Þeim börnum sem fá vistun í leikskólum verður skipt upp í hópa, einn fyrir hádegi og annan eftir hádegi. Fyrirséð er, samkvæmt Reykjavíkurborg, að matarþjónusta í einhverjum grunnskólum borgarinnar raskast og þurfa nemendur þar að koma með nesti í skólann.

Fram kemur hjá borginni að velferðarsvið hafi fengið undanþágur frá verkfallsaðgerðum fyrir starfsfólk Eflingar sem sinnir viðkvæmustu þjónustunni sem snýr að umönnun fatlaðs fólks, barna, aldraðra á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum, barna og fólks sem þarf á neyðarþjónustu að halda í gistiskýlum. Eftir því sem verkfallstíminn lengist muni það hafa meiri áhrif á þá sem njóta velferðarþjónustu frá borginni. Þrif á heimilum fatlaðs fólks og aldraðra muni falla niður, sömuleiðis aðstoð við böðun. Ekki verður hægt að kaupa máltíðir á félagsmiðstöðvum og þá verður dagdvöl aldraðs fólks í Þorraseli lokuð á meðan verkfalli stendur.

Hjá Sorphirðunni frestast þjónusta en að auki er vetrarþjónustu eins og hálkuvörnum og snjóhreinsun ekki sinnt á meðan verkfall stendur yfir. Þá er ekki hreinsað í kringum grenndarstöðvar og ruslastampar ekki tæmdir.

Mest verða áhrif verkfallsaðgerða Eflingar á leikskólana auk matarþjónustu í grunnskólum.
Pixabay

Stuðningur úr ýmsum áttum

Fyrirséð er að verkföll hóps af þessari stærðargráðu muni hafa gríðarleg áhrif enda er það markmiðið með slíkum aðgerðum. Þeir sem stutt hafa aðgerðir Eflingar eru meðal annars Kennara­sam­band Ís­lands en það hvetur fé­lags­menn sína til að ganga ekki störf fé­lags­manna Eflingar. Í yfirlýsingu á vef Kennarasambandsins segir að það sé réttur vinnandi stétta að hafa sjálf­stæðan samnings­rétt. Þá hefur BSRB lýst yfir stuðningi við verkfallsaðgerðir Eflingar en í tilkynningu frá þeim kemur fram að sjálfstæður samningsréttur sé grundvallarréttur launafólks og verkfallsrétturinn öflugasta vopnið í kjarabaráttunni.

VR hefur einnig lýst yfir stuðningi við baráttu Eflingar. Í stuðningsyfirlýsingu félagsins kemur meðal annars fram: „Lykilatriðið í kröfum Eflingar er leiðrétting á kjörum lægst launuðu starfsmanna borgarinnar sem nú eru á launum sem duga ekki til framfærslu. Að geta lifað með mannlegri reisn af launum sínum hlýtur að vera eitt grundvallar mannréttinda- og baráttumál verkalýðshreyfingarinnar.”

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur jafnframt lýst yfir fullum stuðningi við verkfallsaðgerðirnar. „Kjarasamningarnir sem gerðir voru fyrir ári síðan fólu í sér þá sýn að leiðrétta lægstu launin, jafna kjörin og auka almenn lífsgæði. Verum trú þeirri sýn og þeirri vegferð! Miðstjórn ASÍ hvetur félagsmenn allra aðildarsamtaka sinna og annað launafólk til að virða aðgerðir Eflingar og stuðla að því að verkfallsbrot verði ekki framin,“ sagði í tilkynningu frá ASÍ í síðustu viku.

Stytting vinnuviku ekki nógu framarlega í umræðunni

Þó hafa ekki allir stutt aðferðafræði Eflingar í borginni og má þar nefna þingmann Pírata, Björn Leví Gunnarsson, en hann sagði á Facebook í síðustu viku að það væri himinn og haf milli þess að styðja Eflingu og að styðja láglaunafólk. „Þetta tvennt er ekkert það sama, þó félagsmenn Eflingar séu auðvitað láglaunafólk, þá er það tvennt ólíkt; félagið og starf þess og félagsmenn. Ég get alveg sagt að staðan núna sé afleiðing áratuga af misheppnuðum samningaviðræðum um kaup og kjör. Launin ættu að vera hærri en þau eru og vinnutíminn styttri. Ég var til dæmis einu sinni í verkfalli í nokkrar mínútur áður en samningar náðust við leikskólakennara sem mér fannst einfaldlega lélegir. Leikskólakennarar áttu mun hærri laun skilið en fengust í þeim samningum,“ skrifaði hann.

Hann telur að þær launakröfur sem nú sé verið að gera líti ágætlega út. Þó sé stytting vinnuviku ekki nógu framarlega í umræðunni og sú stytting sem hafi náðst í lífskjarasamningunum sé „drasl“. Hún hafi í raun verið tilfærsla á pásum en ekki eiginleg stytting vinnutíma.

Styður láglaunafólk en ekki Eflingu

Björn Leví telur að „áróðursherferðin“ sem sé í gangi núna hjá Eflingu sé ekki eitthvað sem hann geti stutt. „Þar kristallast kannski helst munurinn á því að ég styð láglaunafólk en ekki Eflingu. Á meðan ég vona að þau nái góðum samningum þá get ég ekki stutt aðferðina.

Almennt séð þá helgar tilgangurinn ekki meðalið. Vandamálið er að í stjórnmálum þá er meðalið oft ansi beiskt, jafnvel úldið, en fær að viðgangast í skjóli leyndarhyggju og falsks „trúnaðar“. Það er sífellt verið að búa til vettvang þar sem hægt er að draga fram öll vopnin; tilfinningarökin, útúrsnúninga, hótanir, ... allt saman,“ skrifaði þingmaðurinn. Hann gerir þó athugasemd og segir að þarna sé hann almennt að tala um stjórnmál en ekki núverandi kjaradeilu. Það sé hins vegar margt sem hann sjái sem slær á þær nótur í umræðunni. Þess vegna sé hann efins, ekki um kjarabæturnar heldur um meðalið.


„Pólitísk taktík nýsósíalistanna“

Einar Kárason, rithöfundur og varaþingmaður Samfylkingarinnar, blandaði sér einnig í málið í síðustu viku en hann skrifaði á Facebook: „Í fyrra þegar kjarasamningar voru lausir og allt stefndi í verkföll voru komnir ofurróttækir foringjar í Eflingu og VR og fleiri félög sem sögðust ætla í glerhart og heimtuðu 40 til 50 prósent hækkun. Sjálfur sat ég þá fáeinar vikur á þingi og fann þar mjög fyrir spennunni og óvissunni; ef færi allt í verkföll og ósveigjanlegar kröfur yrði ástand mjög eldfimt pólitískt og samfélagslega – sérstaklega voru stjórnarþingmenn á nálum.“

Hann sagði að áður en nokkuð hafði farið af stað hefðu verið undirritaðir „hófsamir“ samningar um lágar prósentur en betri lífskjör en þarna vísar hann í lífskjarasamningana. „Og maður fékk á tilfinninguna að hinir ofurróttæku hefðu bara lyppast niður. Síðan hafa lífskjarasamningarnir verið fyrirmyndin fyrir alla launahópa, þar til nú að í einu sveitarfélagi landsins á að láta sverfa til stáls!“

Einar hélt áfram: „Þar á að vaða í hörð átök, stoppa leikskóla og sorphirðu og samgöngur og flest annað, ef ekki fást 40 prósent hækkanir lægstu launa. Gott og vel, allt það fólk sem fengi þá hækkun er meira en vel að henni komið. En einhvern veginn blasir samt við að hér sér pólitísk taktík nýsósíalistanna í gangi. Og að hún sé þessi: Vöðum í vinstrimeirihlutann í Reykjavík! Og samfylkingarmanninn sem þar er í forystu. Sýnum þá sem stéttsvikara og hatursmenn láglaunafólks, það mun skila okkur árangri í næstu kosningum.“

Baráttufundur Eflingar 4. febrúar 2020
Efling

Höfrungahlaupið alræmda

Eftir að ljóst var að samningaviðræður Eflingar og Reykjavíkurborgar myndu ekki bera árangur hófst upp umræða um höfrungahlaupið svokallað, það er að ef einn hópur fær ákveðna launahækkun þá muni það hafa áhrif á kjarasamninga annarra hópa í samfélaginu.

Viðar Þorsteinsson, fram­kvæmda­stjór­i Eflingar, svar­aði pælingum um hvort launahækkanir myndu valda slíku höfrungahlaupi á Face­book-­síðu sinni í lok janúar. Hann sagði að slíkt myndi ger­ast þegar hópar á með­al­launum og háum launum tækju til sín launa­hækk­anir lægra laun­aðra hópa í pró­sentum og fengju þannig út hærri krónu­tölu­hækk­anir fyrir sig. Þannig leiddu hækk­anir lægstu launa ekki til breyttrar sam­setn­ingar á launa­stig­an­um, og ekki til jöfn­uð­ar.

„Höfr­unga­hlaup er ekki þegar lægstu laun eru hækkuð með stig­lækk­andi krónu­tölu­hækk­unum ein­göngu á neðsta bili launa­ska­l­ans. Það er hnit­miðuð aðgerð sem leiðir til auk­ins jöfn­uð­ar. Hún er and­stæðan við höfr­unga­hlaup. Í slíkri aðgerð er ekk­ert, hvorki pró­senta né krónu­tala, sem hærra laun­uðum hópum býðst að end­ur­taka,“ skrif­aði hann.

Þá telur hann að slíka aðgerð hjá einu stétt­ar­fé­lagi megi end­ur­taka hjá öðrum stétt­ar­fé­lögum með félags­menn á sömu launa­bil­um, án þess að það feli í sér höfr­unga­hlaup.

Rík krafa að meta menntun til launa

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kom í Silfrið síðastliðinn sunnudag en þar sagði hann að launamunur ófaglærðra og háskólamenntaðra yrði að vera til staðar, rík krafa væri um að menntun væri metin til launa í samfélaginu. Því gæti borgin ekki fallist á launakröfur Eflingar.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Birgir Þór Harðarson

Hann sagði í viðtalinu að staðan væri einstaklega erfið. „Ég hef miklar áhyggjur af henni. Hluti vandans er forystuleysi. Það er enginn að útskýra hvað verkalýðshreyfingin, vinnuveitendur og ríkisstjórnin var að gera síðasta vor. Hvað það felur í sér.“

Borgarstjórinn sagði enn fremur að hann gæti sagt hispurslaust að sú nálgun að hækka lægstu laun í lífskjarasamningunum félli honum í geð. „Ég sé bara fram á það að ef ég myndi fram að ítrustu kröfunum þá væru launin komin mjög nálægt háskólamenntuðum hópum, eins og leikskólakennurum, hjúkrunarfræðingum og fleirum, og það yrði aldrei friður um það. Það er líka rík krafa um það að meta menntun til launa.“

Láglaunakonurnar bera ábyrgð á öllu

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifaði aðsenda grein og birti á Kjarnanum í aðdraganda verkfallsaðgerða í síðustu viku. Þar sagði hún: „Aðeins tvennt hefði getað komið í veg fyrir verk­föll í borg­inni. Að við héldum áfram að halda kjafti og vinna eða að borg­ar­yf­ir­völd príl­uðu niður úr turn­inum sem þau dvelja í til að mæta kröfum okkar af rétt­læti og sann­girni.

Hið fyrra er sögu­legur ómögu­leiki á þess­ari stundu. Hið síð­ara greini­lega líka; hrörnun hug­sjóna jafn­að­ar­mennsk­unnar er svo langt gengin að jafn­að­ar­menn með ára­tuga reynslu af stjórn­málum geta talið sjálfum sér trú um að þeim komi kjara­mál ekki við.“

Sólveig Anna telur að allir þvoi hendur sínar af því að bera ábyrgð á afkomu lág­launa­kon­unnar á íslenskum vinnu­mark­aði. En hún skuli þó á end­anum bera ábyrgð á öllu. „Höfr­unga­hlaupi, verð­bólgu, geng­is­hruni; lág­laun­konan sem hræði­leg mara, ógæfa Íslands. Fram­kvæmd­ar­stjóri SA, stað­settur efst á hrúgu efn­is­legra gæða, brjálast. „Fram­ganga Efl­ingar eru svik við hags­muni yfir­gnæf­andi meiri­hluta þjóð­ar­inn­ar.“ Hags­munir yfir­gnæf­andi meiri­hluta þjóð­ar­innar eru að lág­launa­konan haldi áfram að sam­þykkja að hún sé einskis virði. Allt annað er van­virð­ing við Lífs­kjara­samn­ing­inn,“ skrifaði hún. 

Kröfurnar ná ekki fram að ganga gagnvart lærðum leikskólakennurum

Það má því ljóst vera að kjaradeilur Eflingar og Reykjavíkurborgar eru í hnút. Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar, sagði í samtali við RÚV í síðustu viku að kröfur Eflingar myndu aldrei ná fram að ganga, til að mynda gagnvart lærðum leikskólakennurum. Hún sagði að það bæri svolítið í milli samningsaðila. „Ef við sjáum ómöguleika í því að ganga frá kjarasamningi við Eflingu út frá öðrum hópum þá stoðar verkfall ekkert.“

Hún sagði að viðræðurnar strönduðu á því að Efling gerði kröfu um hækkanir sem væru umfram lífskjarasamninginn. „Auk þess að þeir sem að eru á hærri launum – við getum nefnt stóra kvennahópa hjá okkur, leikskólakennara sem dæmi – þeir væru að fá 50 þúsund króna minni hækkun á sína taxta. Þetta er eitthvað sem við metum sem svo að myndi aldrei ná fram að ganga.“

Viðbrögð meirihlutans

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna lögðu fram bókun um málið á fundi borgarráðs Reykjavíkur þann 30. janúar síðastliðinn. Í henni segir að umboð samninganefndar Reykjavíkur sé ótvírætt. Ekkert kalli á breytingu á því að samið sé um kaup og kjör annars staðar en við samningaborðið.

„Staðan er augljóslega viðkvæm en mikilvægt er að sú samstaða haldi sem lífskjarasamningarnir staðfestu síðasta vor. Samningarnir voru undirritaðir af allri verkalýðshreyfingunni og Samtökum atvinnulífsins. Auk þess var í lífskjarasamningnum sérstök yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um tekjuskatt, fæðingarorlof, barnabætur, húsnæðismál, lífeyrismál, félagsleg undirboð, hagstjórn, verðlag og verðtryggingu ásamt einföldun regluverks og eftirlits. Þá hefur lífskjarasamningurinn þau skýru ákvæði að lægstu laun hækki umfram önnur laun. Tilboð borgarinnar í öllum viðræðum hafa endurspeglað áherslur lífskjarasamningana enda hafa öll verkalýðsfélög landsins sem lokið hafa samningum, samið á grunni þeirra, bæði við undirritun og í þeirri samningalotu sem nú stendur yfir,“ segir í bókun meirihlutans.

Efling gerði athugasemdir við yfirlýsinguna á vefsíðu sinni í byrjun febrúar. „Efling vill benda á að það samþykki sem félagsmenn Eflingar á almennum vinnumarkaði gáfu við kjarasamningi Eflingar og SA með atkvæðagreiðslu í apríl 2019 felur ekki í sér samþykki á einu eða neinu fyrir hönd félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg. Eflingarfélagar hjá borginni starfa undir eigin kjarasamningi og hafa sjálfstætt samningsumboð sem varið er af lögum og stjórnarskrá. Þeir greiddu ekki atkvæði um samning á almennum vinnumarkaði og komu ekki að gerð hans. Undirritun kjarasamnings á almennum vinnumarkaði fyrir tæpu ári bindur því ekki hendur samninganefndar Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg. Efling óskar þess að samningsumboð félagsmanna sé virt,“ segir á vef Eflingar.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar