Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segir að grunnlaun ófaglærðra starfsmanna í leikskólum Reykjavíkur muni hækka úr 310 þúsund krónum á mánuði í 420 þúsund krónur á líftíma þess kjarasamnings sem borgin hefur boðið. Ofan á þetta myndu bætast 40 þúsund krónur á mánuði vegna álagsgreiðslna. Ófaglærðir starfsmenn myndu því verða með 460 þúsund krónur á mánuði í laun við lok samningstímans.
Ófaglærður deildarstjóri, sem í dag er með 417 þúsund á mánuði, á að hækka í 520 þúsund krónur á mánuði. Grunndagvinnulaun ófaglærðs deildarstjóra á leikskóla í lok samningstíma, með álagsgreiðslum, yrðu þá 572 þúsund krónur. Ofan á þetta myndi koma til að mynda stytting vinnuvikunnar.
Þetta kom fram í viðtali við Dag í Kastljósi í kvöld.
Samninganefnd Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg birti fyrr í dag yfirlýsingu þar sem hún lýsti vonbrigðum með viðbrögð Reykjavíkurborgar við tilboði sem samninganefndin lagði fram á fundi hjá Ríkissáttasemjara í gær, þriðjudaginn 18. febrúar. „Reykjavíkurborg hefur enn á ný slegið á sáttarhönd láglaunafólks. Ótímabundið verkfall heldur áfram,“ sagði í yfirlýsingunni.
Tilboð Eflingar var lagt fram í gær á fundi hjá Ríkissáttasemjara. Viðbrögð borgarinnar komu fram í dag og voru þau neikvæð. Efling sagði að þetta væri í þriðja sinn sem samninganefnd Eflingar leggur fram viðræðugrundvöll til lausnar á deilunni sem borgin hafnar.
Í tilboðinu hafi verið lagt til að greiða starfsfólki sérstakt starfstengt leiðréttingarálag til viðurkenningar á faglegri ábyrgð, álagi, starfstengdum kostnaði og fleiri þáttum sem félagsmenn hafa lagt áherslu á í viðræðunum. „Upphæðir og forsendur álagsins yrðu ákvarðaðar út frá einstökum starfsheitum og vinnustöðum. Álagið yrði sérstök aukagreiðsla og kæmi ekki inn í grunnlaun til útreiknings á yfirvinnu- og vaktaálögum.
Einnig var gert ráð fyrir uppbótum vegna sérgreiðslna frá fyrra samningstímabili sem borgin hefur krafist að falli út. Lagt var til að upphæðir nýrra álaga og uppbóta taki sambærilegum hækkunum og launataxtar á samningstímanum. Fallist var á tillögu borgarinnar um breytta launatöflu.
Samninganefnd og starfsfólk Eflingar lögðu mikla vinnu í tillöguna og var hún lögð fram að höfðu samráði við trúnaðarmenn félagsins hjá borginni.“