Kauphegðun landans stjórnast að ýmsu leyti af veðri. Í óveðrinu í desember er verslanir þurftu að loka fyrr að deginum en vanalega jókst til að mynda snakksalan. Fyrir viku þegar rauðar viðvaranir höfðu verið gefnar út og ofsaveður var í vændum jókst brauðsalan.
Það er óhætt að fullyrða að hneykslun hafi verið nokkuð ríkjandi tilfinning hjá sumum er hillur verslana tæmdust af brauði síðasta fimmtudag og langar biðraðir mynduðust við afgreiðslukassa.
Fjölmiðlar fluttu hver á fætur öðrum fréttir af málinu og samfélagsmiðlar loguðu. Gert var stólpagrín að því sem sumir töldu dæmigerða hjarðhegðun Íslendinga og aðrir flissuðu yfir því að það mætti vart koma smá rok, þá færu höfuðborgarbúar að hamstra mat.
En eiga brauðkaupin miklu sér kannski eðlilegar skýringar? Og voru þau svo rosaleg í raun og veru eins og halda mætti af umræðunni?
Er með slatta af brauði og snakki til sölu.
— Gudni Halldórsson (@GudniKlipp) February 13, 2020
Brauð 4500kr 1 Snakk 7000 2 snökk 15000
Er á Nýbýlavegi tek við pötunum í alla nótt
„Þegar að við sjáum að slæmt veður er í kortunum gerum við ráðstafanir,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar. Haft er samband við birgja og reynt að taka vörur fyrr inn til að mæta aukinni eftirspurn. „Við sjáum það að þegar að skóla- og frístundastarfi er aflýst þá nýtur fjölskyldan þess að eiga góðan tíma saman og því er farið í verslanir og innkaup gerð sem mögulega væru gerð á þeim degi eða tíma sem veðrið stendur yfir. Almennt má segja að verslunin sé bara að færast til en neyslan breytist aðeins.“
Af hverju keypti fólk svona mikið brauð í gær? Eru allir á ketó NEMA þegar þeir sjá fram á að þurfa að vera heima hjá sér. Einnig hef ég ekki talað við eina einustu manneskju sem keypti brauð í gær... Ég er sjáanlega utan þessa tiltekna þjóðfélagshóps.
— Karolina Larusdottir (@klarusdottir) February 14, 2020
Gréta bendir í þessu sambandi á að þegar verslunum Krónunnar var lokað fyrr en venjulega í desember vegna óveðurs hafi snakksala verið meiri en gengur og gerist þar sem um kvöld var að ræða. Á fimmtudag fyrir viku, daginn fyrir sprengilægðina umtöluðu, var meira keypt af brauði enda auðvelt að smyrja samlokur og rista brauð yfir daginn þegar fjölskyldur voru flestar heima við eins og mælt hafði verið með.
Í stað máltíða í skólum og leikskólum fengu börn að borða heima þennan dag. Foreldrar fóru svo margir ekki í vinnuna. Sem sagt: Þúsundir barna og fullorðinna voru heima. Þúsundir barna og fullorðinna þurftu að næra sig heima.
5% fleiri viðskiptavinir
Á fimmtudaginn tók Krónan inn meira magn af brauði en venjulega á þeim vikudegi en það dugði ekki til og seldist það víða upp. Miðað við tölfræðina má hins vegar kannski segja að umræðan um brauðskortinn mikla og biðraðirnar löngu hafi verið stormur í vatnsglasi.
Jæja, klukkan rétt að nálgast 13:00 og ég hef ekki borðað neitt brauð í rokinu. Er ég að gera þetta vitlaust?
— Uncle Jerry (@dvergur) February 14, 2020
Pjé ess
Borðað samt eina flatköku í gær..
Viðskiptavinir Krónunnar voru um 5% fleiri en á venjulegum fimmtudegi og brauðsalan á pari við það, að sögn Grétu. Hver og einn keypti þó að meðaltali meira en almennt gengur og gerist á fimmtudögum því salan af föstudegi færðist á hann. Margir flýttu matarinnkaupum sínum um einn dag enda flestar fjölskyldur heima vegna viðvarana og fyrirfram vitað að margar verslanir yrðu lokaðar fram eftir degi daginn eftir.
Biðraðir sem mynduðust við afgreiðslukassa skýrast að sögn Grétu af því að þó að viðskiptavinir hafi ekki verið stórkostlega fleiri en á venjulegum fimmtudegi voru þeir að versla meira.
OK - ég játa. Keypti brauð í Krónunni í gær. Hvar borga ég sekt? #óveður
— Ragna Georgs (@RagnaGeorgs) February 14, 2020
Í fyrsta skipti sem loka þarf vegna veðurs
Gréta segir að starfsfólk Krónunnar hafi lagt mikið á sig til að láta allt ganga sem best fyrir sig við þessar óvenjulegu aðstæður. Það hafi svo mætt mun fyrr en venjulega eftir óveðrið á föstudag til að koma búðunum í gott stand fyrir opnun.
Krónan fagnar tuttugu ára afmæli síðar á þessu ári. Verslunum hennar á höfuðborgarsvæðinu var í fyrsta skipti lokað vegna veðurs í vetur.
Gréta segir það alls ekki vera óeðlilegt að fólk hafi þyrpst í búðir daginn á undan storminum. Það hafi í raun verið mjög jákvætt. „Við eigum að hlusta á þau tilmæli sem gefin eru og taka þau alvarlega.“
Týpurnar sem eru með mest á hreinu eru bersýnilega þessir sem eru brjálaðir í commentakerfunum yfir því að margt fólk hafi keypt sér brauð til að eiga meðan það verður fast heima hjá sér meira og minna allan daginn á morgun út af veðri og verkföllum pic.twitter.com/KyQiz0cFcR
— Sunna Ben (@SunnaBen) February 13, 2020